Guðný Guðmundsdóttir
Sagan mín
Ég ólst upp á Vestfjörðum en fluttist til Reykjavíkur 16 ára að aldri til þess að stunda nám í framhaldsskóla. Frá því að ég útskrifaðist úr menntaskóla hef ég stundað spænskunám í Barcelona eitt sumar, verið au-pair í finnskum smábæ, lokið þremur háskólagráðum, þar af einni erlendis, sett upp vefsíðuna Innblástur.is sem fjallaði um nám, atvinnu og ferðalög fyrir unga Íslendinga og starfað á auglýsingastofu sem og í markaðsdeild alþjóðlegs fyrirtækis, svo stiklað sé á stóru í mínu lífi. Í dag starfa ég sem verkefnastjóri hjá Landssamtökunum Geðhjálp og Bataskóla Íslands.
Ég afrekaði þetta allt saman þrátt fyrir að glíma við mikla vanlíðan og kvíða en ég ólst upp við alkóhólisma og var lögð í einelti í grunnskóla. Ég var lengi vel leitandi en þegar ég var 25 ára gömul byrjaði ég sjálfsrækt mína af fullum krafti. Mér fannst lausnirnar sem ég var að leita að ekki vera að finna í heilbrigðiskerfinu, sem varð til þess að ég leiddist fljótt út á andlegar brautir, en ég byrjaði á þessum tímapunkti í ráðgjöf hjá sálmeðferðaraðila og fór einnig að mæta reglulega í heilun.
Þetta sama ár heimsótti ég einnig miðil sem mælti með því að ég myndi prufa að fara á námskeið í lestri tarotspila. Ég sótti því slíkt námskeið hjá Heilunarskólanum og tók í framhaldinu margvísleg námskeið þar, til að mynda í draumráðningu, heilun og miðlun, auk þess sem ég lauk fyrsta, öðru og þriðja stiginu í Reiki heilun.
Í gegnum tíðina hef ég verið þátttakandi í ýmiskonar hugleiðslu- og þróunarhópum og lærði t.a.m. hugleiðslu hjá Hjartastöðinni. Haustið 2022 útskrifaðist ég úr þriggja ára nám í sjamanisma hjá Patricia WhiteBuffalo og ári síðar lauk ég „Þín persónulega umbreyting“ hjá Starcodes Academy auk þess sem ég tók þar Engla Reiki 1&2.
Ég hef unnið mikið í sjálfri mér síðastliðin þrettán ár og veit manna best hversu mikilvægt það er að vinna úr þeim erfiðleikum og áföllum sem maður verður fyrir í lífinu. Á þessu tímabili hef ég jafnframt lært margt og mikið um sjálfa mig og andleg málefni en ég er ákveðin í því að halda áfram að þroska sjálfa mig, svo lengi sem ég lifi.
Hafðu samband
Hafðu endilega samband ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir.