2020: Ár breytinga
- Guðný Guðmundsdóttir
- Feb 10, 2020
- 4 min read
Updated: Mar 2, 2021

Árið 2020 byrjaði með látum. Fyrir jól hafði ég tekið þá ákvörðun að skrá mig á námskeiðið Hreint mataræði hjá Guðrúnu Bergmann, sem er þriggja vikna hreinsun sem felst í því að fólk fylgir ákveðnu mataræði (án glútens, sykurs og mjólkurvara) í von um að leysa úr ákveðnum kvillum sem eru að hrjá það.
Almennt er ég ekki týpan til þess að velta mér mikið upp úr mataræði – mér finnst nefnilega ekkert sérstaklega gaman að elda eða hugsa fyrir því hvað eigi að vera í matinn – og mig langaði ekki neitt sérstaklega til þess að fara á mataræði þar sem hreinlega ekkert má, en ég var hafði glímt nægilega lengi við meltingarvandamál til þess að mér fannst ég verða að taka af skarið.
Námskeiðið hófst þann 7. janúar síðastliðinn og ferlið fór formlega af stað þremur dögum síðar. Ég var á degi þrjú í hreinsun og mætt til vinnu á mánudagsmorgni (með nestið mitt fyrir daginn undirbúið og geymt í ísskápnum) þegar ég fór grunlaus á fund með nýja yfirmanninum mínum og var sagt upp störfum eftir þrjú og hálft ár hjá fyrirtækinu.
Ég fékk val um hvað ég vildi gera að svo stöddu en ég hafði ekki áhuga á því að setjast aftur við skrifborðið mitt og halda áfram að vinna uppsagnarfrestinn minn. Ég kvittaði því á blað og var þar með komin í óvænt þriggja og hálfs mánaða launað frí. Áður en ég vissi af var ég komin aftur út í bíl með nestið mitt, hlýju peysuna sem ég geymdi alltaf á skrifborðsstólnum mínum og allt mitt hafurstask í fanginu.
Tími minn hjá fyrirtækinu hafði frá upphafi einkennst af ákveðnum breytingum, ekki síst síðasta eitt og hálft árið, með nýjum yfirmanni yfir deildinni, breyttu skipulagi og nýjum yfirmanni yfir mínu teymi. Ég hafði því að vissu leyti verið meðvituð um að ég gæti fundið mig í þessari stöðu, burtséð frá frammistöðu minni, en ég var reyndar ekki búin að sjá þetta fyrir þennan morguninn. Hvernig sem það gerist er það alltaf ákveðið áfall að vera sagt upp störfum, hvað þá með litlum sem engum fyrirvara.
Frá því að átti sér stað, fyrir næstum mánuði síðan, hef ég reynt að taka því rólega og safna kröftum. Ég tók ákvörðun um að ana ekki af stað og reyna að finna hvaða vinnu sem er, heldur taka þennan tíma fyrir sjálfa mig og finna út úr því hvað ég vildi gera. Blessunarlega kom vinkona mín í heimsókn erlendis frá rétt eftir að ég missti vinnuna og var hjá mér í fimm daga, sem var kærkomin truflun. Síðan þá hef ég reynt að huga að sjálfri mér, auk þess sem ég sinni hinu og þessu erindi og tek aðeins til hérna heima hjá mér (en mikið er það annars ótrúlegt hversu mikið af drasli og dóti getur safnast upp í skúffum og skápum út um alla íbúð!).
Það er sérstakt samt hvernig hlutirnir hafa áhrif á mann, jafnvel þó svo maður telji það ekki vera. Mér fannst ég hafa komist yfir mesta áfallið af atvinnumissinum á aðeins tveimur dögum og upplifði jafnvel töluverðan létti, þar sem ég var og er mjög svo tilbúin til þess að prófa aðra og nýja hluti. Þegar ég fór hins vegar að hlúa að sjálfri mér, til dæmis með því að fara í nudd og slaka á í spa, eða setjast niður á kaffihúsi með sjálfri mér yfir góðum kaffibolla, þá fóru alls konar hugsanir og tilfinningar að koma upp á yfirborðið.
Það eitt að gera vel við sjálfa mig og gera mitt besta til þess að njóta lífsins, varð til þess að ég fór að upplifa líkamlegan sársauka, með herpingi í brjóstkassanum, sem og tilfinningalega vanlíðan sem virtist eiga sér orsakir djúpt innra með mér. Ég skildi ekki hvers vegna, en mér fannst eins og ég væri einhvern veginn ekki nógu góð eða nægilega mikils virði til þess að njóta þess sem ég var að bjóða sjálfri mér upp á.
Þessar hrókeringar í lífi mínu, ekki bara með óvæntum atvinnumissi heldur töluverðum breytingum á mataræði (vegna nýuppgötvaðs laktósa- og líklega einnig glútenóþols), urðu til þess að ég hef þurft að endurhugsa hvernig ég geri hlutina og velta því fyrir hvernig ég vil verja lífi mínu, en því eru að fylgja alls konar tilfinningar og upplifanir sem ég þarf greinilega að anda mig djúpt í gegnum.
Ég var svo ringluð í því sem ég var að upplifa, en sem betur fer var ég svo heppin að kynnast hugleiðslukennara sem minnti mig á að allar breytingar fela í sér ákveðið ferli sem maður þarf að fara í gegnum. Allar breytingar, hvort sem þær eru stórar eða smáar, jákvæðar eða neikvæðar, setja mann í þá stöðu að þurfa aðeins að endurmeta sjálfan sig og lífið sem maður lifir.
Ef ég er ekki manneskja sem er í vinnu, hver er ég þá? Ef ég breyti mínum venjum, skipti um mataræði, byrja að hreyfa mig eða hætti að hreyfa mig, hver verð ég þá? Hver er þessi ég, eiginlega? Nú er þetta staðan sem ég finn sjálfa mig í. Árið 2020 hefur fært mér breytingar sem ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir að væru mér nauðsynlegar. Það eina sem ég get gert er að leyfa þessu breytingaferli að eiga sér stað – og hlakka til að kynnast manneskjunni sem ég verð þegar það er yfirstaðið.
Comments