Leiðin heim til sjálfrar mín
- Guðný Guðmundsdóttir
- May 7
- 3 min read
Updated: May 8
Það munar töluvert um það að vera ekki lengur föst í streituástandi en það breytir því ekki að ég þarf að byggja mig upp eftir ævilanga streitu.

Það eru jú alls konar kvillar að plaga mig og því ákvað ég að skrá mig á námskeið hjá Happy Hips sem heitir Núllstilla líkamann og er fyrir fólk sem þjáist af krónískum bólgum og stoðkerfisverkjum, kvíða, svefntruflunum, höfuðverk, vöðvabólgu og/eða meltingartruflunum.
Ég er frekar mikið eftir mig, eins og ég nefndi í síðasta pistli, en ég er fyrst og fremst að glíma við mikla þreytu, auk þess sem ég þarf að vinna með bólgur í líkamanum og verki í fótleggjum, mjóbaki og mjaðmagrind, en ég hef einnig verið að finna fyrir einkennum óþols.
Það er kannski eðlilegt að það taki við tímabil þar sem hlutirnirnir versna tímabundið þegar maður er kominn úr streituástandi og líkaminn fær loksins tækifæri til þess að taka til, enda er stundum talað um parasympatíska kerfið á ensku sem rest and digest.
Það er erfitt að upplifa svona mikil líkamleg óþægindi en ég hef engu að síður hugsað að það sé kannski næsta stopp á mínu sjálfsræktarferðalagi – ég er jú búin að vinna mikið með hugann og tilfinningar mínar, svo ég er kannski komin á þann stað að vinna með líkamann.
Það kemur heim og saman við upplifun mína eftir mitt síðasta hugvíkkandi ferðalag en ég fann að ég var mun tengdari líkama mínum og innsæi. Það lýsti sér t.a.m. í því að ég fékk mér að drekka þegar ég var þyrst, en ég var var vön að velta því fyrir mér hvað væri rétt eða rangt í þeim efnum, það er að segja hversu mörg glös af vatni maður á að drekka yfir daginn.
Í dag þarf ég ekki að velta því fyrir mér, vegna þess að ég tek mark á þeim merkjum sem líkami minn sendir mér og bregst við þeim, en hugurinn er hreinlega ekki inni í myndinni. Ég finn hvers ég þarfnast eða vil, án þess að velta hlutunum fyrir mér endalaust án þess að komast endilega að niðurstöðu.
Ég fann sterkt fyrir þessari tilfinningu, sérstaklega í eina eða tvær vikur eftir hugvíkkandi ferðalagið, en það lýsti sér í því að ég var töluvert ákveðnari og öruggari með sjálfa mig og því fylgdi mikil vellíðan. Það var afslappandi að allt væri svo skýrt fyrir mér, vegna þess að það þýddi að ég þurfti ekki að hugsa svona mikið um hlutina.
Ég tel að ég sé á þeirri leið að fara frá því að vera í huganum yfir í hjartað. Það felur í sér að ég tek ákvarðanir eftir því hvað er rétt fyrir mig, frekar en eftir því hvað sé skynsamlegast að gera. Hvert og eitt okkar þarf að fara eftir eigin innsæi, enda er ekkert rétt eða rangt í sjálfu sér, svo lengi sem maður skaðar ekki sjálfan sig eða aðra.
Ég finn fyrir þeirri þörf að fara dýpra inn á við og komast í betri tengsl við sjálfa mig, einmitt til þess að tengjast innsæi mínu betur. Mig langar til þess að vera hér og nú, í líkama mínum á jörðinni, en það vill svo til að fólki sem er að ganga í gegnum Kundalini ferlið er fyrst og fremst ráðlagt að jarðtengja sig.
Það er talað um það í andlegum málefnum að það að vinna með líkamann sé eitt það erfiðasta sem maður gerir, erfiðara en að vinna með hugann eða tilfinningar, vegna þess að líkaminn er úr svo þéttu efni að það tekur tíma að losa hluti úr kerfinu.
Það þýðir einnig að það tekur lengstan tíma fyrir þær breytingar sem hafa átt sér stað innra með manni að verða sjáanlegar í manns ytri veruleika, en það er að minnsta kosti jákvætt að finna þessar breytingar eiga sér stað. Það krefst mikillar þolinmæði en mér finnst ég þó vera í raunverulegu bataferli í fyrsta sinn og það er mikið fagnaðarefni.
Comments