top of page

Kundalini lífsorkan leyst úr læðingi

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Feb 27
  • 3 min read

Updated: Apr 10

Frá því að ég fór í mitt fyrsta hugvíkkandi ferðalag, sem varð til þess að sú lífsorka sem margir kalla Kundalini fór af stað, hef ég varið miklum tíma í að leita mér frekari upplýsinga um það sem ég er að ganga í gegnum.

ree

Það er talað um að það séu miklu fleiri í heiminum í dag að ganga í gegnum Kundalini en nokkurn tímann fyrr. Ég þekki ekki fólk hérna á Íslandi sem er að upplifa það nákvæmlega sama og ég, en ég þekki engu að síður manneskjur sem eru að vinna mikla og djúpa heilunarvinnu og upplifa svipuð einkenni.


Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að skrifa um það mínar upplifanir, vegna þess að ég tel að þetta verði mun algengara hjá fólki í nánustu framtíð. Það er búið að taka mig 14 mánuði af daglegum einkennum og miklu grúski þangað til að ég fór að skilja það sem ég er að upplifa.


Það hvað fólk upplifir á sínu Kundalini ferðalagi er mismunandi eftir hverjum og einum vegna þess að við erum ólík og sú vinnsla sem þarf að eiga sér stað er þar af leiðandi einstaklingsbundin. Það sama á við um geðrækt almennt, sem er ástæðan fyrir því að það er ekki til nein lausn sem virkar fyrir alla.


Það sem ég skil betur í dag er að þegar Kundalini fór af stað hjá mér þá var ég búin að vinna mikið með tilfinningar mínar, hugsanir og viðhorf, en það sem er að koma upp hjá mér núna er nánast alfarið líkamleg vinnsla.


Það er eitthvað um að tilfinningar hafi komið upp hjá mér, aðallega ótti, en fyrst og fremst hefur ferlið verið líkamlegt. Kundalini er á fullu að vinna við að losa um alla spennu í kerfinu, með tilheyrandi verkjum, en síðustu þrjá vikur hef ég t.d. verið alveg að farast í mjóbakinu og mjaðmagrindinni.


Þessi reynsla hefur valdið því að ég hef meiri áhuga á líkamanum og hvernig hann virkar. Mig langar frekar að fara á námskeið um bandvefslosun heldur en t.d. transmiðlun. Ég þarf að læra betur á líkamann og hvernig ég get unnið með það sem er að plaga mig.


Þessi vinnsla er ekki búin að vera auðveld, sem þýðir að ég þarf reglulega að minna mig á að þetta er ferli sem ég er að ganga í gegnum. Ég þarf stundum að klappa egóinu / huganum / persónuleikanum vingjarnlega á hausinn og segja því / þeim að þetta verði allt í lagi.


Mér finnst gott að lesa bækur eftir andlega kennarann Adyashanti og fylgjast með fyrirlestrum hans á YouTube. Þær tvær bækur sem höfða best til mín um andlega málefni og þetta þroskaferðalag sem við erum öll á er bók eftir Adyashanti sem heitir "The End of Your World" og svo bókin "The Untethered Soul" eftir Michael Singer.


Um daginn fann ég síðan mann sem kallar sig Brent Spirit en hann er með seríu um Kundalini á YouTube (sem eru Zoom fundir sem hann setur svo á netið). Hann fjallar um Kundalini frá ýmsum hliðum en það er hjálplegt að heyra frá fólki sem er að ganga í gegnum það, fá góð ráð og heyra hversu mismunandi þetta er hjá hverjum og einum.



Ég var að lesa Adyashanti (enn og aftur) og uppgötvaði þar vísun í hans ferli þar sem hann talar um að þessar orkubreytingar í líkama hans hafi tekið um fjögur til fimm ár að klárast hjá honum. Það er ekki ólíklegt að það taki um fimm til tíu ár að fara í gegnum þessa umbreytingu.


Þess vegna er svo ótrúlega mikilvægt að skilja hvað sé í gangi, til þess hreinlega að halda sönsum. Það sem er að bjarga mér er að hafa aðgang að þessum andlegu kennurunum og hversu auðvelt það er í dag að leita sér upplýsinga og finna aðrar manneskjur sem eru að ganga í gegnum eitthvað svipað og ég.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page