top of page

Afleiðingar streitu á líkama og sál

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • May 1
  • 3 min read

Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri búin að vera föst í streituástandi alla mína ævi.

Ég vissi það ekki vegna þess að ég fæddist inn í meðvirkar aðstæður en því fylgdi kvíði, streita og vanlíðan, eðlilega, sem þýðir að ég vissi aldrei hvernig tilfinning það væri að slaka almennilega á. Ég er 39 ára gömul á þessu ári en ég er búin að verja hálfri ævinni í að finna út úr því hvað væri að hrjá mig og af hverju mér liði ekki nógu vel.


Margt sem ég hef gert á því tímabili er gott og gagnlegt; ég þjálfaði sjálfa mig í að fara út fyrir þægindarammann, lærði að takast á við tilfinningar mínar og kynntist sjálfri mér betur. Ég vissi að það væri svo margt sem ég væri búin að ná tökum á, en einmitt þess vegna fannst mér erfitt að skilja af hverju ég væri ennþá að glíma við ákveðna heilsufarslega kvilla.


Það þurfti hugvíkkandi ferðalag til þess að koma mér úr streituástandi yfir í slökunarástand, sem varð til þess að ég skildi í fyrsta sinn af hverju ég hef verið að þjást svo lengi, í mörg ár eða áratugi, af þreytu, orkuleysi, meltingarvandamálum, bólum og svo framvegis, en svo margt af því sem ég er búin að vera að takast á við er afleiðing af þessu ástandi.


Það sem verra er, finnst mér vera allur tíminn sem hefur farið í að skamma sjálfa mig fyrir að vera ekki nógu dugleg, fara ekki nógu snemma að sofa, sofa ekki nóg, fyrir að drekka kaffi eða orkudrykki, að fara ekki út í gönguferð eða borða ekki nógu hollt – vegna þess að það hlaut að vera ástæðan fyrir öllum þessum erfiðleikum.


Mín upplifun er sú að það séu skilaboðin sem ég hafi gjarnan fengið, jafnvel úr hinu andlega samfélagi eða frá andlegum leiðbeinendum, að ég "þurfi bara að …" (fylltu út í eyðuna; jarðtengja þig, fara út í náttúruna, gera öndunaræfingar, hjúpa þig áður en þú ferð út á meðal fólks og svo framvegis og svo framvegis).


Á meðan ég hafði ekki orku til þess að gera neitt slíkt, jafnvel þó að ég væri búin að átta mig á því að ég þyrfti að róa taugakerfið. Ég gat farið í vinnuna og græjað kvöldmat en ef ég vildi gera eitthvað sem mig langaði til þá þurfti það helst að vera um helgar þegar ég var að minnsta kosti útsofin.


Ég sé það núna að ég stefndi hraðbyri í kulnun eða jafnvel veikindi, þrátt fyrir að vera alls ekki með það mikið á minni könnu í lífinu. Ég skildi ekki hvernig annað fólk fór að því að gera alls konar hluti sem það var að gera við lífið, hvað þá eitthvað eins og að ganga á fjöll í frítíma sínum.


Ég var í svo miklu streituástandi að ég þurfti koffín til þess að fúnkera en var engu að síður búin með orkuna mína yfirleitt í kringum þrjú á daginn, átti erfitt með að rifja upp samtöl, muna ákveðna hluti sem gerðust eða finna orð í huganum sem ég ætlaði að nota og vaknaði þreytt á hverjum morgni, sama hversu snemma eða seint ég hafði farið að sofa.


Að gera æfingar til þess að róa taugakerfið var þar af leiðandi aðeins enn einn hluturinn sem ég átti að gera. Það er hins vegar fyrst núna sem mér finnst eins og ég geti farið að gera æfingar sem eiga að hjálpa taugakerfinu. Ég veit að það mun taka mig tíma að ná orkunni minni til baka en ég finn það strax að ég sef mun dýpra og vakna yfirleitt ekki á nóttunni.


Ég finn fyrir ákveðni sorg yfir því að svona mikill tími hafi farið í þetta ástand, þegar ég hefði getað verið að gera svo margt og mikið við sjálfa mig. Það þýðir þó ekki að fárast yfir því, heldur horfa fram á veginn.


Það er nefnilega ekki svo að ég hafi ekki skoðanir eða gaman af hlutum eða langi ekki að gera hluti. Ég gat bara ekki notið þess, vegna þess að það er ekki hægt að njóta þess að vera til í streituástandi. Nú getur lífið hins vegar raunverulega byrjað og ég gleðst yfir því hvað það eru margir möguleikar í stöðunni frá þessum tímapunkti framvegis.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page