Barnsleg gleði og ánægja
- Guðný Guðmundsdóttir

- Sep 22
- 3 min read
Updated: Oct 4
Ég sá nýlega klippu úr Vikunni með Gísla Marteini þar sem Þorsteinn Bachmann lýsti því hvernig hann vann sig út úr kulnun með aðstoð „Steina litla“, sem sagt barninu innra með sér.

Hann þurfti að skoða hjá sjálfum sér hvað hefði farið úrskeiðis og hvað það væri sem strákurinn innra með honum vildi gera og hefði gaman af. Mér fannst skemmtilegt að sjá þetta vegna þess að ég er búin að vera á svipaðri vegferð, en ég komst einmitt nýlega í tengsl við barnið innra með mér.
Ég hef lengi velt því fyrir mér af hverju ég upplifði aldrei gleði, sama hversu mikla vinnu ég væri búin að vinna í sjálfri mér. Ég hef nú heldur betur talið að ég ætti að vera komin á góða stað með sjálfa mig og nú væri tíminn kominn til þess virkilega að njóta. Samt hef ég átt erfitt með að finna þá tilfinningu.
Það er tvennt í þessu sem var að gerjast innra með mér; annars vegar var ég farin að upplifa breytt viðhorf varðandi sjálfa mig þar sem ég var virkilega farin að trúa því að ég byggi yfir virði; ekki að ég væri ekki betri en aðrir, en ekki heldur verri en aðrir, heldur að ég byggi yfir virði einfaldlega vegna þess að ég er til.
Ég á rétt á því að líða vel. Ég á rétt að því að hlutirnir í lífi mínu gangi vel. Ég á rétt á því að njóta tilverunnar. Þetta er eitthvað sem er virkilega breytt frá því sem áður var, þar sem viðhorf mitt var á þá leið að lífið væri ströggl, að það væri erfitt að vera til, að ekkert komi til manns án þess að maður vinni fyrir því og leggi virkilega hart að sér.
Annað sem gerðist var að ég byrjaði í námi í markþjálfun í lok ágúst, sem varð til þess að ég fór ósjálfrátt að spyrja mig annarra spurninga en ég var vön. Ég hef lengi látið það fara í taugarnar á mér að ég sé ekki búin að koma mér upp rútínu varðandi heilbrigðari venjur.
Þegar ég fór að hugsa um það, áttaði ég mig á því að ég tengi það að vera með heilbrigðar venjur við fullkomnun.
Nú er ég ekki að tala um neitt meira en það að vera duglegri að drekka vatn, borða hollari mat og fara út í gönguferð á hverjum degi. En ég streittist á móti því vegna þess að ég vildi alls ekki vera fullkomin – ég hef eytt svo miklu púðri í það að gera mitt besta til þess að vera góð og dugleg og gera alltaf allt rétt, svo að ég þyrfti nú að fá að vera smá ófullkomin, að minnsta kosti í stundarkorn.
Ég hélt áfram að rekja mig í þessum þankagangi og uppgötvaði að mig langaði að vera bara smá kærulaus – eins og krakki sem fer út að leika og pælir ekkert í því hvað klukkan er, hvar hann eigi að vera eða hvenær hann þurfi að vera kominn heim í kvöldmat. Mig langaði svo mikið að hugsa ekki svona mikið og velta mér upp úr hlutum alveg endalaust.
Ég vildi bara vera áhyggjulaust barn – sem ég held að ég hafi aldrei verið. Og ég hugsaði, aftur alveg ósjálfrátt, hvort væri mikilvægara fyrir mig núna, að ég kæmi mér upp heilbrigðari venjum eða fengi að vera áhyggjulaus?
Þessi hugsunargangur hjá mér endaði í hálfgerði sjamanískri heilun þar sem ég endurheimti þetta barn innra með mér. Ég fann hreinlega fyrir því innra með mér að mig langaði út á róló að leika! Ég hugsaði meira að segja, hver vill koma og leika við mig?!
Í kjölfarið velti ég því fyrir mér hvað gæti gert, sem fullorðin manneskja, til þess að leika mér. Leiklist er kannski út fyrir minn þægindaramma, en mér hefur alltaf fundist gaman að dansa og syngja. Og hvað er það einmitt sem “litla Guðný” vill gera sem er skemmtilegt?
Þá er ég komin aftur að þessari spurningu um gleði og af hverju ég gat ekki fundið fyrir þeirri tilfinningu. En er gleði ekki bara leikgleði? Viðhorf, það að mega hafa gaman og njóta? Er það ekki barnsleg gleði og ánægja? Að finna fyrir að þetta þurfi ekki alltaf að vera svona alvarlegt, þetta líf?
Má ekki hafa gaman af því að vera til? Það held ég nú!



Comments