Hugur, líkami og sál
- Guðný Guðmundsdóttir

- Aug 14
- 3 min read
Updated: Sep 16
Ég fylgi mikið af áhugaverðu fólki á samfélagsmiðlum sem tjáir sig um sjálfsrækt og andleg málefni.

Um daginn sá ég færslu frá manni sem ég var nýbyrjuð að fylgja vegna þess að mér fannst hann vera að deila áhugaverðu efni. Ekki löngu síðar sá ég hann síðan halda því fram að kundalini og hugvíkkandi efni vinni aðeins með hugann og að það sé ekki nóg nema einnig sé unnið með líkamann.
Að vissu leyti skil ég hvað hann er að segja, en mín reynsla af bæði kundalini og hugvíkkandi meðferðum, er sú að það sé hvoru tveggja ákaflega líkamlegt ferli. Ég held að það sem fólk upplifi þegar kemur að þessum efnum fari eftir því hvað hver og einn þurfi helst að vinna með.
Í mínu tilviki þá var ég búin að vera að vinna með huga minn, tilfinningar og viðhorf í meira en tíu ár þegar ég fór að finna fyrir kundalini og prófa mig áfram með hugvíkkandi meðferð hjá sálfræðing, svo það var greinilega komið að því að ég þyrfti að fara að vinna með líkamann og það sem ég geymi þar.
Þessi þrjú skipti sem ég hef farið í hugvíkkandi meðferð einkenndust fyrst og fremst af líkamlegum upplifunum, en fyrir utan stöku skilaboð sem ég heyrði sögð við mig og einstaka óljósa sýn, var ég aðallega í því að róa taugakerfið og losa mig við hluti sem voru tilbúnir að fara með uppköstum, hristing og skjálfta, og baðherbergisferðum.
Það er þess vegna sem mér finnst svo mikilvægt að vinna með allt þrennt; huga, líkama og tilfinningar. Ég sé mikið um það í andlega heiminum að fólk finnur einhverja heilunaraðferð sem hentar þeim og segir í kjölfarið öllum sem eru tilbúnir til þess að hlusta að feta sama veginn, en það er hins vegar ekki svo að það sé einhver ein lausn sem hentar öllum.
Í hvaða meðferðarformi sem er munu hlutir koma upp á yfirborðið sem hver og einn þarf að vinna með eftir því hvar viðkomandi er staddur. Það sem virkar á einum tímapunkti fyrir eitthvað ákveðið viðfangsefni sem þarfnast úrvinnslu, mun þar af leiðandi ekki endilega virka á öðrum tíma eða þegar annað viðfangsefni er tekið fyrir.
Á mínu andlega ferðalagi hef ég tekið tímabil þar sem ég er að vinna með tilfinningar sem ég þarf að fá útrás fyrir, aðra daga skrifa ég í dagbók, hlusta á hugleiðslur eða fer í gönguferð. Ég fer í heilun, les bækur um andleg málefni eða grúska í viðhorfum mínum eða sjónarmiðum.
Þessar ólíku aðferðir eiga allar rétt á sér, þar sem eitthvað eitt getur komið upp einn daginn, en á öðrum degi eitthvað allt annað. Það þarf að vera svigrúm til staðar til þess að takast á við það sem kemur upp til úrvinnslu hverju sinni.
Fyrir mitt leyti er ég alltaf að flysja laukinn og fara dýpra og dýpra inn á við, en það hefur gefið mér góða raun að prufa ýmislegt, því það er aldrei að vita hvað getur hjálpað. Það getur verið gott að fikra sig áfram með það sem hefur nýst öðrum vel, en stundum kemur í ljós að það er ekki eitthvað sem hentar manni.
Ég hef líka upplifað að ákveðnar leiðir hafa nýst mér í tiltekinn tíma, þangað til ég var búin að fullnýta þær og tilbúin til þess að leita á önnur mið. Þess vegna er gott að halda ekki of fast í ákveðna aðferð, bækur eða jafnvel kennara.
Það mikilvægasta er að halda áfram sinni vegferð og ekki vera hræddur við að prófa sig áfram. Það sem virkar fyrir einn er ekki að fara að virka fyrir annan. Lærdómurinn sem felst í þessu er að treysta eigin innsæi, ekki því sem aðrir segja eða gera, enda er enginn annar með lykilinn að manns eigin lífi.



Comments