top of page

Á mínum eigin forsendum

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jan 14, 2021
  • 3 min read

Updated: Mar 9, 2021


Ég er enn og aftur byrjuð í háskólanámi. Ég ætlaði mér ekkert endilega að fara aftur í háskólanám, en sá enga ástæðu til þess að nýta mér það ekki þegar mér bauðst að fara í nám í eina önn á atvinnuleysisbótum. Ég er nýbyrjuð í skólanum en finnst engu að síður áhugavert hversu breytt viðhorf ég hef til náms og æðri menntunar nú þegar ég er að verða 35 ára gömul og er því eldri og reyndari en ég var þegar ég stundaði nám hér áður fyrr.


Ég bar alltaf svo mikla virðingu fyrir menntun og menntastofnunum. Frá því að ég var í grunnskóla fannst mér skýrt hversu mikilvægt það væri að ég stæði mig vel í skólanum, en áherslan á nám var svo mikil að ég þróaði með mér ákveðið menntasnobb. Ég ætlaði mér alltaf í meira nám og fannst raunar ekkert merkilegra en að vera klár á bókina.


Skólaganga mín snérist frá upphafi um að skilja til hvers væri ætlast til af mér og fylgja þeim reglum skilmerkilega. Ég fylgdi þeim fordæmum sem kennararnir mínir gáfu eftir minni bestu getu, í stað þess að leysa verkefnin eftir mínu eigin höfði. Ég kláraði menntaskóla á þremur og hálfu ári, byrjaði tvítug í grunnnámi og hélt svo strax áfram í meistaranám.


Það var ekki fyrr en ég fór í mitt seinna meistaranám að ég fór að sjá hlutina í öðru ljósi. Þrátt fyrir að hafa þegar lokið bæði grunn- og meistaranámi frá Háskóla Íslands, vildi ég endilega láta draum minn um að nema við erlendan háskóla rætast. Ég var því 26 ára gömul þegar ég sótti um í útgáfu við Anglia Ruskin University í Cambridge, Englandi og flutti þangað haustið 2012.


Þegar ég flutti út var ég til að byrja með ekkert smá spennt fyrir því að vera að flytja til háskólabæjar sem geymir einn frægasta háskóla veraldar (en þess má geta að skólinn minn var þekktur sem „hinn“ háskólinn í Cambridge). Ég var svo heppin að fá tækifæri til þess að heimsækja háskólann við nokkur tilefni og fá að sjá hvernig þar væri innanhorfs og kynnast nokkrum nemendum skólans.


Að kynnast þessu háskólaumhverfi svona persónulega varð hins vegar til þess að ég hætti loksins að setja menntun á svona háan stall. Nemendurnir sem ég hefði áður borið mig saman við voru eftir allt saman aðeins venjulegar manneskjur eins og ég, já jafnvel þeir sem voru að læra við einn besta háskóla í heimi (og sumir hverjir voru meira að segja yngri en ég og satt best að segja ögn óþroskaðir enn).


Það sem ýtti enn frekar undir þessa upplifun af náminu var að kennarinn minn var aðeins örfáum árum eldri en ég, sem varð til þess að ég sá hana ekkert endilega sem jafn mikið yfirvald og ég hefði áður gert. Ég var því í fyrsta sinn fær um að horfa á skólann, námið og kennsluna gagnrýnum augum og venjast því að ég væri ekkert alltaf sammála því hvernig hlutirnir voru gerðir.


Þetta háskólanám sýndi mér fram á það eru margar leiðir til þess að læra og þroskast í lífinu og að það að vera langskólagenginn sé aðeins ein af mögulegum leiðum til þess. Viðhorf mitt til menntunar hefur breyst, en ég hef ekki lengur þörf fyrir að ná mér í menntun til þess að sanna eitthvað fyrir sjálfri mér eða öðrum, eða til þess að gera það sem ætlast er til af mér. Þrátt fyrir að ég sé byrjuð aftur í skóla, er markmið mitt að þessu sinni aðeins að læra hluti sem mér finnast áhugaverðir og geta komið sér vel fyrir þau verkefni sem ég hef áhuga á að sinna.

Námið sem ég valdi mér er hagnýtt og mér líkar það vel að kennararnir mínir hafi meiri áhuga á því að gefa umsagnir fyrir verkefnin frekar en einkunnir. Ég er auk þess ekki einu sinni viss um að ég muni ljúka þessu námi og fá fyrir það gráðu – ég ætla að byrja á þessari önn og leyfa því að koma í ljós hvað verður síðar meir. Það sem skiptir mig mestu máli er að ég hef nú fengið annað tækifæri til þess að stunda háskólanám, að þessu sinni á mínum eigin forsendum.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page