top of page

Að sleppa takinu og gefa eftir

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jan 31
  • 3 min read

Updated: Apr 3

Ég hef skrifað mikið um tilfinningalega stjórnun; um mikilvægi þess að geta setið með tilfinningum manns þegar þær koma upp og taka líðan sína ekki út á nærumhverfinu.

Undanfarið hef ég hins vegar fundið hjá mér þörf fyrir að gera akkúrat öfugt, að leyfa sjálfri mér að brotna gjörsamlega niður. Leyfa sársaukanum að koma upp á yfirborðið, frekar en að láta aðeins glitta í hann af og til, svo hann verði ekki of mikill eða óþægilegur.


Þetta er eitthvað sem er búið að blunda í mér undanfarið en ég átti til að mynda tíma um daginn hjá hugleiðslu kennaranum úr sjaman náminu mínu.  Mig langaði að fá ráð hjá henni Amitu um hvernig ég gæti róað taugakerfið þar sem ég næ aldrei fullkomlega að slaka á, sem hefur til dæmis mikil áhrif á svefninn.


Hún spurði þá hvort ég ætti erfitt með að finna tilfinningar mínar, sem mér finnst alls ekki. Ég er einmitt mjög góð í því að sitja með tilfinningum mínum; það er að segja ef það felur í sér að vinna í þeim heima í rólegheitum ein með sjálfri mér. Það sem ég á hins vegar erfitt með er að leyfa öðrum að sjá hvernig mér líður eða deila því með hópi fólks.


Stundum þarf maður hins vegar að vera séður. Það er ákveðin heilun fólgin í því að deila því sem maður er raunverulega að ganga í gegnum og ekki fela það frá öðrum með því að setja upp grímu. Eins og það er mikilvægt að geta setið með sjálfum sér og tilfinningum manns í einrúmi er það engu að síður þannig að sum sár læknast aðeins í heilbrigðum samskiptum við aðra.


Það er það sem ég finn mikla þörf fyrir að gera núna, í stað þess að sitja ein með tilfinningum mínum og stjórna því hvar og hvenær og hvernig þær mega koma upp á yfirborðið.


Mér finnst eins og ég þurfi að leyfa sjálfri mér að gjósa – svolítið eins og barn sem hagar sér í leikskólanum en gefur fullkomlega eftir þegar hann það er komið heim vegna þess að það veit að það getur treyst foreldrum sínum til þess að takast á við það í öruggu umhverfi.


Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en núna hvað ég er búin að setja mikla orku í að stjórna því hvernig mér megi líða. Eftir spjallið mitt við Amitu skil ég hins vegar betur að ég er taugatrekkt vegna þess að ég hef svo sterka tilhneygingu til þess að halda hlutunum inni.


Ég sem fullorðinn einstaklingur þarf að búa mér til rými þar sem ég get fengið útrás fyrir það hvernig mér líður. Ég er sem betur fer er ég komin á þann stað að ég hef aðgang að fólki sem er til í að vera til staðar fyrir mig þegar ég þarf á þeim að halda á þennan hátt.


Við sem vorum saman í sjaman náminu höfum til dæmis verið að hittast einn laugardag í mánuði yfir vetrartímann undir handleiðslu heilarans míns sem var aðstoðarkennari í náminu okkar. Þar sem við erum búnar að vera að vinna saman í fimm ár þekkjumst við vel og þegar við hittumst koma ósjálfrátt hlutir upp á yfirborðið sem við hjálpum hvor annarri með.


Í þessum hóp er tækifæri fyrir mig að nýta þann stuðning sem er til staðar til þess að sleppa tökunum á þessari miklu sjálfsstjórn sem ég bý yfir. Ég er búin að vera að gefa eftir lengi vel, smátt og smátt, en virðist nú vera komin á þann stað að ég geti hreinlega ekki lengur haldið aftur af því sem ég þarf að finna og tjá – sem betur fer!


Það er jú ekkert að því að vera manneskja með hugsanir og tilfinningar, eins og hver annar eintstaklingur. Það er virkilega góðs viti að ég sé tilbúin til þess að gefa sjálfri mér leyfi til þess að vera séð og leyfa jafnvel öðrum að vera til staðar fyrir mig. Finna að ég megi taka pláss og líða eins og mér líður. Að gefa sjálfri mér leyfi til þess einfaldlega að vera til.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page