top of page

Langvarandi áhrif kvíða og streitu

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Mar 25
  • 3 min read

Updated: Apr 14

Það stærsta sem ég er að takast við á mínu andlega ferðalagi þessa dagana er kvíði og streita en taugakerfið mitt virðist halda að ég sé í bráðri lífshættu á hverju einasta andartaki.

Mitt helsta vandamál er að ég vakna þreytt á hverjum einasta morgni vegna þess að ég næ ekki almennilegum djúpsvefni. Ég er vön því að vakna nokkrum sinnum yfir nóttina, sem ég hélt að væri ekki vandamál vegna þess að ég sofnaði yfirleitt strax aftur, en það er truflun á svefni engu að síður.


Það er áhugavert vegna þess að ég sá viðtal við konu um daginn sem sagði að í fyrndinni hefðu ættbálkar haft manneskju sem sem sá um að vaka á næturnar á meðan hinir sváfu. Í dag sjáum við hins vegar um það sjálf, sem útskýrir kannski af hverju ég vakna svona af og til, til þess að vera viss um að ég sé örugg.


Það er kannski ekki skrýtið að ég sé alltaf þreytt, sama hversu mikið ég hvíli mig, vegna þess að þetta gerist ekki bara í svefni heldur er ég stöðugt að skanna umhverfið eftir hættu í mínu daglega lífi, sem gerist fullkomlega ósjálfrátt.


Stundum vakna ég kvíðin, eins og ég hafi gleymt einhverju. Ég held að það komi til vegna þess að ég hafi ekki verið með meðvitund og óttast að eitthvað hafi gerst á meðan ég svaf. Það er náttúrulega aldrei að vita nema ljón birtist skyndilega í svefnherberginu mínu!


Fólk hefur stundum sagt við mig að slaka á, eins og það sé ekki nákvæmlega það sem ég vil helst af öllu. En ég get ekki svo auðveldlega slökkt á kerfi sem er búið að vera fast í streituástandi alla mína ævi með því að ýta á einn takka.


Fólk sem hefur verið að vinna í þessu þekkir það að það er margra ára ferli að aflæra. Ég hef verið að vinna í þessu, t.d. með somatic æfingum, en ég hef áhuga á að læra meira um vagus taugina og hvernig hægt sé að róa taugakerfið.


Stundum er ég alveg að bugast á þessu ástandi, satt best að segja. Að vera föst í fight or flight felur í sér að vera alltaf smá á taugum. Mér finnst ég heldur aldrei geta fullkomlega notið neins af því sem ég tek mér fyrir hendur; ég finn enga ánægju í neinu, sama hvað ég geri.


Mig dreymir um að upplifa kyrrð og ró, bara við það að sitja og njóta kaffibollans eða horfa út í garð. Fyrir mér er hamingja innri friður, en það er enga hamingju eða ró að finna í kvíðaástandi. Það veldur einnig öðrum vandamálum sem ég er að glíma við, líkt og orkuleysi, meltingarvandamálum, þreytu og depurð.


Mér líður stundum eins og ég sé löt eða jafnvel algjör aumingi, en það er ekki leti þegar taugakerfið ræður ekki lengur við neitt meir. Það snýst ekki um persónulegan vilja. Það er ekki einu sinni þunglyndi, meira eins og doði .... Það veldur því að mér finnst stundum hálf tilgangslaust að vera til.


Ég gefst engu að síður ekki upp, vegna þess að mig langar að komast á þann stað að geta tekist á við verkefni dagsins, eftir því sem þau koma upp, án þess að verða stressuð yfir þeim eða hafa áhyggjur af framtíðinni.


Ég sveiflast oft fram og til baka varðandi hvernig best sé að komast þangað; mér finnst ég ýmist þurfa að vinna með líkamann og taugakerfið eða gefast fullkomlega upp og einfaldlega hvílast.


Stundum finnst mér ég vera að takast á við ákveðna líðan sem muni ganga yfir en á öðrum tímum finnst mér ég ekki þurfa að gera neitt sérstakt, heldur aðeins að vera meðvituð og taka eftir því hvernig mér líður hverju sinni, án þess að þurfa að breyta nokkru.


Sama hvað, þá held ég áfram að fikra mig áfram á þessari braut, til þess að sjá hvað virkar fyrir mig og hvað ekki á þessari vegferð.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page