Leiðir til þess að vinna úr áföllum
- Guðný Guðmundsdóttir
- Aug 9, 2023
- 3 min read
Updated: Sep 5, 2023
Ég er alltaf að leita leiða til þess að vinna í sjálfri mér og auka lífsgæði mín og vellíðan.

Það nýjasta sem ég er að skoða er að vinna með líkamann, sem ég hef verið að gera í mörg ár nú þegar með því að fara í heilun og stunda nám í sjamanisma, en að þessu sinni er ég áhugasöm um ákveðnar líkamsræktaræfingar sem eiga að hjálpa við úrvinnslu áfalla.
Ég var búin að vera að fylgjast með konu á Instagram sem kallar sig The Workout Witch og er með námskeið í Somatic Therapy, sem eru æfingar til þess gerðar að losa áföll úr líkamanum. Hún býður upp á mismunandi pakka eftir því hvort þú vilt vinna með mjaðmir, axlir og háls, kjálka eða mjóbak. Ég ákvað að taka þetta alla leið og fékk heildarpakkann, sem fer yfir þetta allt saman á 90 dögum með daglegum æfingum, auk styrktaræfinga í lok námskeiðsins.
Æfingarnar eru einfaldar og rólegar, enda eru þær fyrir fólk sem hefur verið fast í fight or flight ástandi (survival mode) og þarf að ná að draga úr spennu og koma jafnvægi á taugakerfið. The Workout Witch talar um að þetta séu 10 mínútur á dag, en æfingarnar hafa verið á bilinu 6-18 mínútur, svo þær taka aldrei langan tíma frá manni. Það sem ég finn helst mun á mér með er að ég er í fyrsta sinn á ævinni tilbúin að vinna með líkama minn, alveg frá grunni.
Ég hef margoft farið í jóga eða aðra líkamsrækt en aldrei náð neinum árangri af viti, enda hef ég yfirleitt lent í þeirri gildru að bera mig saman við fólk sem hefur stundað líkamsrækt mun lengur en ég eða gert of miklar kröfur til sjálfrar mín. Í þetta skipti er ég sátt við að vera byrjandi og tilbúin að mæta sjálfri mér þar sem ég er, algjörlega á núlli. Ég hlakka til á hverjum degi að gera æfingu þess dags og er spennt fyrir því að sjá hvort að ég finni einhvern raunverulegan mun á mér að 90 dögum liðnum.
Ég hef strax séð jákvæðar breytingar en fyrstu dagana fann ég mikið fyrir verk í mjóbakinu hægra megin þar sem ég hef lengi verið aum og mér fannst nánast allir vöðvar í líkama mínum vera stífir – ekki skrýtið fyrir manneskju sem starfar á skrifstofu og hreyfir sig lítið sem ekkert. En eftir tíu daga fann ég mun á mér, að minnsta kosti í mjóbakinu, en ég varð ekki lengur svona hrikalega aum á því svæði af æfingunum.
Af einhverri ástæðu hefur mér fundist það vera eðlilegt ástand að finna fyrir vægum verkjum og vera viðkæm á ýmsum stöðum í líkamanum og hugsað með sjálfri mér að það sé jú öllum illt einhvers staðar. En nú hugsa ég að það sé kannski fásinna, að ég geti vel komið mér í betra líkamlegt ástand, án verkja og aukins styrks. Ég er farin að sjá fyrir mér að ég geti haldið áfram þegar þessu námskeiði er lokið og gert hreyfingu að lífstíl.
Ég hef einu sinni áður prófað svona æfingar en ég fór þá á námskeið hjá Svövu Brooks, sem kennir svipaðar æfingar hér á Íslandi. Hún býður upp á námskeið í TRE® (Tension, Stress & Trauma Release), sem er samkvæmt henni ný leið til að hjálpa líkamanum að losa um spennu, streitu og áföll sem liggja djúpt í vöðvum líkamans, en það á að minnka áhyggjur og kvíða, draga úr einkennum áfallastreituröskunar og auka orku, þrek og bæta svefn.
Á þeim tímapunkti vissi ég ekki nóg um þessar æfingar og gerði mér ekki grein fyrir mögulegum ávinning af þeim eða því að líkami minn væri í survival mode og uppfullur af cortisoli á degi hverjum, svo ég tók það ekki lengra í það skiptið, en nú er ég mjög spennt fyrir því að prófa mig áfram í þessu ferli og sjá hvernig það muni ganga. Þetta er næsta skref á minni vegferð, en ég trúi því að það sé nauðsynlegt að vinna með hugsanir, tilfinningar og líkama til þess að ná árangri þegar kemur að geðheilbrigði.
Comments