Aftur í skóla
- Guðný Guðmundsdóttir
- Apr 12, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég hef lítið náð að sinna skrifunum síðustu vikur, enda er ég að ljúka önn í Háskóla Íslands og hef haft lítið næði vegna skila á alls konar kynningum og lokaverkefnum, sem ég mun loks ná að klára núna um mánaðarmótin apríl-maí.

Þetta er í fyrsta sinn sem í sjö ár sem ég hef stundað háskólanám. Það hefur verið áhugavert að fara aftur í slíkt nám, nú þegar ég er orðin ögn eldri og reyndari, og sjá muninn á því hvernig geri hlutina núna miðað við hér áður fyrr, sem og gildrurnar sem ég virðist gjarnan detta í, sama hversu reynd ég er orðin.
Þegar ég var yngri var ég afar upptekin af því að standa mig vel í námi og fannst mikilvægt að gera eins vel og ég gat, ljúka við áfangana einn af einum og fá loks útskriftarplaggið í hendurnar. Ég reyndi að vera vakandi fyrir því til hvers var ætlast af mér og hvernig kennararnir vildu að verkefnin yrðu unnin og skilað inn, frekar en að gera hlutina eftir mínu eigin höfði.
Í þetta sinn velti ég því meira fyrir mér hvað ég gæti fengið út úr þeim námskeiðum sem ég hafði valið mér og vildi nýta þau til þess að vinna í þeim verkefnum sem ég var þegar að sinna. Ég vissi hvað skipti mig máli og ég leyfði sjálfri mér að vinna með mitt eigið áhugavið og sköpunarkraft.
Ég tók líka eftir því að ég bý auk þess yfir meira sjálfsöryggi en áður. Ég ákvað þegar ég byrjaði í skólanum í janúar að taka meira þátt í tímum og umræðum en ég gerði þegar ég var yngri og meira til baka. Ég valdi að setjast framarlega í skólastofunni (ekki fremst, verum alveg róleg) og vera dugleg við að koma með athugasemdir og spyrja spurninga þegar svo bar undir.
Eftir því sem leið á önnina, og sérstaklega þegar hún var að líða undir lok og meira var að gera, fór ég þó að finna meira fyrir álagi og streitu. Á hverjum degi var ég að renna yfir verkefnalistann og átta mig á því hvað það væri sem ég þurfti að vera að gera og ljúka á réttum tíma. Ég varð stressuð við tilhugsunina um að ná að gera allt sem var eftir fyrir lok annarinnar.
Lífið er þó þannig að maður þarf að leysa alls konar verkefni á degi hverjum, bæði í vinnuna sem og heima við. Ég fór að hugsa um að ef ég ætlaði að vera að hafa áhyggjur af öllu því sem ég þyrfti að gera þá væri ég í stöðugu streituástandi dag hvern, sem getur haft afar slæm áhrif heilsufarslega til lengri tíma litið.
Staðreyndin er nefnilega sú að mér tekst yfirleitt að komast yfir allt það sem ég þarf eða hafði hugsað mér að framkvæma, nema þegar ég ætla mér um of. Það er því mikilvægt að treysta því bara almennt að hlutirnir verði í lagi og ekki vera að hafa óþarfa áhyggjur af einhverju sem mun að öllum líkindum leysast, sem og að taka ekki meira að sér en maður ræður við.
Ég er alltaf að átta mig meira og meira á því hversu mikið streita og álag hefur áhrif á mann, ekki bara andlega og tilfinningalega, heldur einnig líkamlega. Það er ekki hægt að lifa lífi sínu undir slíku álagi alltaf hreint. Það að slaka á snýst ekki um að fara af og til nudd eða spa ef fjárhagurinn leyfir, heldur um að upplifa ró og kyrrð í hinu daglega lífi.
Ég er búin að læra margt af því að fara aftur í nám, t.d. hverju ég hef raunverulega áhuga á. Síðastliðin ár hef ég hugsað svo oft út í hvort ég ætti að fara að læra hitt eða þetta, en með því að hafa farið í þetta nám og ýmiss konar námskeið síðastliðið rúmt ár, hef ég skýrari sýn á það sem skiptir mig máli.
Það sem er nýtt fyrir mér í þessum málum er að leyfa mér að prófa mig áfram, án þess að setja þá kröfu á sjálfa mig að klára það sem ég byrjaði á. Ég gæti auðveldlega tekið eina önn í viðbót í þessu námi og klárað þetta diplómanám, en þegar ég skoðaði þau námskeið sem eru í boði sá ég fátt sem ég hafði áhuga á. Ég gef sjálfri mér leyfi til þess að prófa mig áfram með því að stunda nám, án þess að ljúka endilega við það. Það er frelsandi hugmynd í sjálfu sér.
Comments