top of page

Allt er eins og það á að vera

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Sep 26, 2022
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég geng stundum í gegnum tímabil í minni sjálfsvinnu þar sem mér finnst hreinlega ekkert vera að gerast. Mér leið þannig nýlega en áttaði mig fljótlega á því að það væri alls ekki satt. Ég fór nefnilega að hugsa til þess þegar ég var í atvinnuleit árið 2016, hvernig ég fékk vinnu vegna þess að vinkona mín vann við mannauðsmál og fékk það verkefni að finna manneskju í starf sem ég hentaði vel fyrir.

Ég fór í atvinnuviðtal og fékk starfið en á nýja vinnustaðnum eignaðist ég vinkonu sem benti mér á að fara til Jóhönnu Jónasar Brennan heilara. Ég hafði samband við hana og fór að fara til hennar í heilun en eftir nokkur skipti sagði hún mér frá sjaman námi sem væri að hefjast, þar sem hún yrði aðstoðarkennari. Ég ákvað að fylgja innsæinu og byrjaði í því námi í janúar 2019.


Í sjaman náminu kynntist ég konu sem var í vikulegum hugleiðsluhóp. Ég hafði samband við þau Lárus og Shabönu, sem ég er búin að vera hjá í hugleiðsluhóp í tvö og hálft ár núna, sem er búið að hjálpa mér mikið í minni sjálfsvinnu. Á því tímabili missti ég vinnuna en sama hvað ég reyndi að finna mér svipað starf og ég hafði verið að sinna, kom ég alls staðar að lokuðum dyrum.


Eftir tvö ár fékk ég loksins vinnu hjá Geðhjálp, sem er fyrsta starfið sem ég hef verið í sem sameinar reynslu mína og menntun og það sem ég hef áhuga á og virkilega brenn fyrir. Fljótlega eftir að ég byrjaði þar fórum við að stað með verkefni sem heitir Geðlestin, sem varð til þess að ég fór að heimsækja skóla og ræða við krakka og unglinga um mikilvægi geðræktar og segja frá minni reynslu af því að vinna úr kvíða og vanlíðan.


Það er búið að vera nóg að gera hjá mér í vinnunni og mínum hugðarefnum, þar sem ég er t.d. að klára sjaman námið mitt núna í byrjun október. Ég var því alls ekki að leita mér að neinu nýju til þess að læra, að minnsta kosti ekki strax. Í lok ágúst hafði hins vegar manneskja samband við mig og bauð mér vinnuskipti; að ég myndi hjálpa henni með verkefni fyrir Starcodes Academy og fengi í staðinn að vera með í andlegu námi sem hófst núna í lok sumars.


Ég vissi af þessu námi og fannst það áhugavert en hafði ekki dottið í hug að skrá mig í það þar sem það skarast á við að ljúka náminu sem ég er í nú þegar. Það er einmitt þess vegna sem ég sagði já, vegna þess að ég leit svo á að þetta boð væri að koma til mín af einhverri ástæðu, að mér væri ætlað að fara og taka þátt í þessu verkefni hjá þeim á þessum tímapunkti.


Þegar ég lít svona til baka yfir síðustu ár, sé ég hvernig eitt hefur leitt af öðru hjá mér, líkt og fyrir tilviljun. Ég þarf raunar ekki að reyna að stjórna því hvernig og hvenær draumar mínir verða að veruleika, vegna þess að því meir sem ég vinn í sjálfri mér og sleppi tökunum af því gamla, því hraðar gerast hlutirnir af sjálfu sér.


Það sannast á þeim áhugaverðu tækifærum og því frábæra fólki sem ég hef verið að kynnast undanfarið, fólki sem hefur áhuga á sömu hlutum og ég og jafn mikla ástríðu fyrir geðrækt, sjálfsrækt og andlegri heilsu. Það þýðir ekki að líf mitt sé fullkomið, enda geta verkefnin sem koma til mín verið krefjandi, en það verður alltaf auðveldara og auðveldara að takast á við þau, svo lengi sem ég kýs að treysta því að allt sé eins og það eigi að vera.


Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Komentar


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page