top of page

Í bráðri lífshættu

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Sep 16
  • 3 min read

Updated: Sep 30

Ég er búin að vera í andlegum málefnum í fjórtán ár og hef heyrt flest af því sem fólki er ráðlagt til þess að það geti verið heilbrigt á líkama og sál.

ree

Eitt af því sem er mikið talað um í andlegum málefnum er mikilvægi þess að iðka þakklæti og að fara með jákvæðar staðhæfingar. Lengi vel vissi ég ekki hvers vegna, en það hefur alltaf verið eitthvað innra með mér sem streitist mjög svo á móti því.


Þegar ég hugsa um það, þá hefur mér fundist erfitt að vera þakklát þegar mér líður ekki vel. Það er eitthvað við það að kyrja möntrur, sem ég trúi innst inni ekki á, sem virkar falskt á mig. Að endurtaka jákvæðar staðhæfingar breytir ekki viðhorfum mínum; mér líður frekar eins og ég sé að ljúga.


Ég skil betur þessa tilfinningu eftir að ég fór í mitt annað hugvíkkandi ferðalag, sem kom mér út úr survival mode. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég er líklega búin að vera í survival mode frá barnæsku en ég tel að í þessu hugvíkkandi ferðalagi hafi ég verið að losa streituhormónið cortisol út úr líkama mínum.


Eftir það ferðalag fannst mér ég upplifa raunverulega slökun í fyrsta sinn. Ég vissi hreinlega ekki hvernig tilfinning það væri. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég gat ekki slakað á, að minnsta kosti ekki á meðan líkami minn var fastur í streituástandi.


Þegar talað er um þakklæti og jákvæðni þá finnst mér vanta að fjallað sé um mikilvægi þess að vera í líkama sem upplifir sig öruggan. Þú segir ekki hermanni í stríði að hætta að hafa áhyggjur og slaka á. Það væri óábyrgt, enda verður hann að vera vakandi fyrir hættum og það gefur auga leið að það er ekki hægt að slaka á fyrr en hættan er liðin hjá.


Mikið af fólki sem hefur gengið í gegnum áföll sem það hefur ekki unnið úr býr við taugakerfi sem telur að það sé ennþá í lífshættu. Kerfið gerir sér jafnvel ekki grein fyrir því að það sé langt síðan viðkomandi var í hættu eða í aðstæðum sem voru óöruggar.


Fólk sem þarf að vinna úr áföllum sem það hefur orðið fyrir, eða býr jafnvel enn við erfiðar aðstæður, þarf að fókusa á þá vinnu áður en það getur farið að upplifa tilfinningar líkt og þakklæti og gleði. Það er ekki hægt að neyða þakklæti og jákvæðni upp á manneskju sem er að ganga í gegnum mikla erfiðleika.


Það breytir ekki neinu, þvert á móti gæti það orðið til þess að viðkomandi upplifir skömm fyrir að standa sig ekki betur. Það væri meiri hjálp í því að vísa á meðferðarúrræði sem geta aðstoðað fólk við að upplifa sig öruggt eða við að fá að líða eins og þeim líður, hvort sem það þarf að fá að vera sorgmætt eða reitt.


Ég hef mikið til verið hörð við sjálfa mig og skammað mig fyrir það sem ég átti erfitt með, frekar en að sjá að það var ástæða fyrir því hvernig mér leið. Ég sé núna að hlutirnir eiga sér sína orsök og að það er ekki hægt að ná árangri nema viðurkenna vandann.


Innra barnið manns þarf kannski einmitt á því að halda að fá að líða eins og því líður, ekki að vera sagt að allt sé í lagi þegar það er það ekki eða hætta að kvarta þegar það á erfitt. Að vera séð og heyrt og finna að einhverjum sé ekki sama, þó það komi ekki nema frá af fullorðna partinum af manni sjálfum.


Það á allt sér sinn tíma. Ég finn það núna að ég get í fyrsta sinn dvalið í sjálfri mér og upplifað kyrrð, eftir að hafa fengið ró í taugakerfið. Það er fyrst núna sem ég get yfirleitt fundið fyrir tilfinningum eins og þakklæti, jákvæðni og gleði. Hingað hefði ég hins vegar aldrei komist ef ég hefði ekki unnið úr því sem ég þurfti að vinna úr og gefið sjálfri mér tíma til þess að leyfa þeirri vinnu að eiga sér stað.

Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page