top of page

Betri venjur, betra líf

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jun 1, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég hef lengi vel streist á móti því að koma mér upp góðri rútínu í mínu daglega lífi.

Mér fannst tilhugsunin um það að gera nákvæmlega sömu hlutina kvölds og morgna, þegar dagarnir sjálfir eru yfirleitt ákveðin endurtekning (fara í vinnu, græja kvöldmat o.s.frv.), alveg skelfileg og lífið í heild sinni verða svo fyrirsjáanlegt.


Það er fyrst núna að ég er farin að sjá virði þess að hafa ákveðna hluti í föstum skorðum. Fyrir það fyrsta, þá er rútína eina leiðin til þess að ná árangri í því sem maður tekur fyrir sér hendur, enda verður enginn þróun eða aukin lærdómur án þess að hlutirnir séu endurteknir, yfirleitt dag eftir dag.


Það er þó kannski ekki það sem veldur því að ég er byrjuð að koma mér upp betri venjum, heldur er það farið að skipta mig meiru máli að koma mér upp ákveðnu jafnvægi í lífi mínu, sem verður helst að veruleika ef mér tekst að koma mér upp reglu í kringum mataræði, hreyfingu, hvíld, slökun og svefn.


Ég hef einnig verið að átta mig á því að rútína og góðar venjur þurfa ekki að verða til þess að allir dagar verði eins, heldur sé það á minni ábyrgð að vera dugleg við það að brydda upp á hversdagsleikann, til dæmis með því að fara í ferðalög, á tónleika, út að borða og almennt að prófa nýja hluti.


Í mörg ár hef ég verið að reyna að koma mér upp góðum venjum í mínu lífi en það sem hefur reynst mér best er að taka einn hlut fyrir í einu. Það er erfitt að breyta því sem maður gerir dagsdaglega en það er talað um að það sé líklegra að það takist að breyta venju ef maður gerir sama hlutinn í 21 dag eða einn mánuð.


Það er þannig sem mér hefur tekist að gera það að vana að drekka reglulega vatn yfir daginn og taka vítamínin mín og önnur bætiefni. Á kvöldin reyni ég að vera dugleg við að þvo mér um andlitið og nota tannþráð en ég hef lært að þetta þarf ég að gera áður en ég er orðin of þreytt og nenni ekki lengur neinu fyrir svefninn.


Sumar venjur hef ég reynt við lengi vel og þarf alltaf að vera að reyna að koma þeim inn í mína rútínu aftur og aftur. Mig hefur til dæmis lengi langað að rifja upp spænskuna sem ég lærði í framhaldsskóla og í málaskólanum í Barcelona á sínum tíma. Ég er búin að vera með tungumála appið Duolingo í símanum mínu frá árinu 2016 en það er fyrst núna á þessu ári sem ég byrjaði loksins að nota það daglega.


Venjurnar sem ég sinni yfir daginn eða ætla mér að sinna eru að drekka sítrónuvatn og taka góðgerla í byrjun dags, drekka að minnsta kosti tvo lítra af vatni yfir daginn, hugleiða í að minnsta kosti 15 mínútur annað hvort kvölds eða morgna, taka vítamín og bætiefni, æfa mig í spænsku í nokkrar mínútur, muna að anda djúpt og slaka á, fara í hálftíma gönguferð, þvo mér um andlitið og nota tannþráð fyrir svefninn.


Góðar venjur eru lykilinn að því að skapa heilsusamlegt líf, andlega, tilfinningalega og líkamlega. Þó þetta séu ekki merkilegar venjur í sjálfu sér er markmiðið mitt með þeim að komast sífellt í betra jafnvægi og taka ábyrgð á því að ég eigi góðan dag. Ég hef ekki getað gert nóg undanfarið til þess að brjóta upp á daginn vegna fjárhagserfiðleika og farsóttar en þá er hins vegar áskorunin að finna undrið í hinu hversdagslega, njóta litlu hlutanna í deginum og sjá hlutina frá öðru sjónarhorni en maður er vanur.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page