Byggjum umhyggjusamt samfélag
- Guðný Guðmundsdóttir
- May 22, 2023
- 3 min read
Updated: May 23, 2023
Það er eitthvað sem er ekki að virka við þetta samfélag sem við erum búin að skapa saman.

Til að byrja með vantar það sárlega við lítum á okkur sem búum í nálægð við hvort annað sem samfélag yfirleitt, þar sem við viljum vera til staðar fyrir hvert annað. Samfélag þar sem öllum getur liðið vel, þar sem allir hafa nóg að bíta og brenna og finna að þeir skipti máli, að einhver tilgangur sé með tilveru þess hér á jörð.
Eins og staðan er í dag þá fær fólk enga aðstoð í lífinu, ekki fyrr en allt er farið í bál og brand, og jafnvel ekki einu sinni þá. Við erum með heilbrigðiskerfi sem sinnir þeim sem eru þegar orðnir veikir og félagslegt kerfi fyrir þá sem þurfa á meiri aðstoð að halda í lífinu. En við erum ekki með neitt sem mætti kalla forvarnarkerfi.
Fólk kemur úr mismunandi aðstæðum, en það þurfa allir á stuðningi að halda, ekki aðeins þeir sem eru að ganga í gegnum erfiðleika eða glíma við félagsleg vandamál. Það þurfa allir á því að halda að hafa einhvern til þess að tala við. Sumir eiga gott bakland, á meðan aðrir eru einstæðingar. Fólk þarf á stuðningi að halda yfir ævina, frá vöggu til grafar.
Hvaðan á sá stuðningur að koma? Frá hjálpar- og góðgerðarsamtökum sem gera sitt besta til þess að veita fólki aðstoð, ráðgjöf og fræðslu? Hjá trúfélögum, í landi þar sem margir eru búnir að missa trúnna og fá þar af leiðandi enga huggun úr þeirri átt? Fólk þarf að sjálfsögðu ekki að trúa á neitt eða iðka andleg málefni, en þá reynir meira á velferðarkerfið og það sé ákveðinn stuðningur til staðar í veraldlegu samfélagi.
Það eru allir að ganga í gegnum eitthvað og það þurfa allir að tala við einhvern. Hvað það er, er mismunandi eftir æviskeiðum; ungt fólk þarf aðstoð við að finna út úr því hvað það vilji læra eða starfa við, verðandi foreldrar þurfa aðstoð við foreldrahlutverkið og heldra fólk sem er að hætta á vinnumarkaði þarf ráðleggingar um hvað það geti gert við sín efri ár.
Það hafa ekki allir fólk í kringum sig sem það getur rætt við og fengið góð ráð þegar eitthvað bjátar á. Það hefðu allir gott af því að geta leitað til aðila sem er hlutlaus, sem getur hlustað og veitt ábendingar, sama á hvaða ævistigi fólk er statt á eða hvaða áskoranir það er að takast á við.
Hvernig væri ef við fengjum öll úthlutað einhvers konar lýðheilsufulltrúa, sem við myndum hitta einu sinni á hálfs ár eða árs fresti til þess að taka stöðuna – alveg eins og við förum til tannlæknis einu sinni á ári til þess að athuga hvort að við séum nokkuð komin með skemmd?
Lýðheilsufulltrúi gæti lokið ákveðnu grunnnámi, til þess að geta verið fyrsta stopp þegar kemur að því að taka stöðuna á andlegri og líkamlegri heilsu fólks. Slíkur fulltrúi þyrfti ekki að vera læknir, hjúkrunarfræðingur eða sálfræðingur, heldur fyrst og fremst góður hlustandi með yfirsýn yfir það sem er í boði þegar fólk þarf frekari aðstoð.
Lýðheilsufulltrúi gæti fylgst með fólki og hvernig því gengur að takast á við áskoranir lífsins, veitt ráðleggingar um hvað sé hægt að gera ef eitthvað amar að, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt, eða vísað fólki áfram á sérfræðinga þegar þess þyrfti. Það gæti verið til staðar til þess að leiðbeina fólki eftir því sem ævi þeirra vindur fram.
Sumir þyrftu kannski frekari aðstoð á meðan aðrir eru kannski bara einmana. Ef fólk er að glíma við einhverja vanlíðan sem hefði kannski farið framhjá fólki að öðru leyti, kæmi það mögulega upp á yfirborðið í slíku samtali og þá væri hægt að fylgjast með viðkomandi og veita einhvers konar hjálp.
Fólk er oft týnt, vegna þess að það veit ekki hvað það á að gera eða hvernig það geti tekist á við þær aðstæður sem það er í hverju sinni. Margir þurfa bara á því að halda að tjá sig og fá að vita að hugsanir þeirra og tilfinningar eru fullkomlega eðlilegar. Lýðheilsufulltrúi gæti stutt við fólk sem stendur á tímamótum í sínu lífi og þarf að taka einhverjar ákvarðanir eða er að ganga í gegnum breytingar, enda taka breytingar yfirleitt á, jafnvel þær jákvæðu.
Það er auðvelt að líða eins og maður skipti ekki máli, sem manneskja. Að hafa einhvern til þess að leita til, að vita til þess að maður eigi þennan tíma, einu sinni til tvisvar á ári, þar sem maður getur hitt sinn fulltrúa og átt þetta spjall, spurt spurninga og fengið ráðleggingar, gæti verið nóg til þess að upplifa að það sé einhver sem sjái mann og heyri og vita að maður sé ekki einn heldur tilheyri samfélagi mannanna.
Comments