Dapurleiki á tímum veiru
- Guðný Guðmundsdóttir

- Apr 24, 2020
- 3 min read
Updated: Mar 2, 2021

Ég er döpur. Ég veit að ég hef það gott, ég á heimili og nóg af mat, og jafnvel þó svo að ég sé atvinnulaus þá hef ég það engu að síður ágætt fjárhagslega, að minnsta kosti eins og staðan er í dag. Um allan heim er að finna fólk sem á í kröggum, er búið að missa vinnuna eða sér fram á það, á mögulega ekki fyrir nauðsynjum, er lasið eða hefur misst ástvin. Samt sit ég hér í 100 fermetra íbúðinni minni, södd eftir holla og góða máltíð, og ég er leið.
Leið á tilbreytingarleysinu, leið á tómleikanum, leið á að geta ekki hitt fólk eins og eðlilegt getur talist, farið í bíó eða út að borða. Leið á að geta engin plön gert af viti né horft fram á veginn. Leið á að vera búin að vera heima atvinnulaus í meira en þrjá mánuði og vita ekki ennþá hvað tekur við næst. Leið á að vera alltaf að reyna að vera svo dugleg, svo samviskusöm, að vera alltaf að reyna að bæta líf mitt og líðan.
Ég hugleiði nefnilega á hverjum degi, sjáðu til. Hvern dag fæ ég mér safa í morgunmat, (því ég er aftur komin í hreinsun til þess að bæta meltinguna), og græja svo annan safa fyrir næsta dag. Ég hugleiði, ég æfi mig á gítar, í von um að verða smá saman aðeins betri en ég er. Við kærastinn minn förum í gönguferðir. Ég skrifa í dagbók og huga að pottaplöntunum mínum. Ég hitti hugleiðsluhópinn minn yfir netið á þriðjudagskvöldum og stundum aukalega á fimmtudagskvöldum. Á föstudögum fer ég í sjamanískt ferðalag með kennaranum mínum. Ég reyni að vera jákvæð og horfa bjartsýn fram á veginn.
Þetta er gott líf, en samt verð ég stundum leið. Ég tók alveg tvær vikur í þessum mánuði þar sem ég var frekar örg og þreytt, en ég vissi ekkert endilega af hverju. Ég taldi mig vera á góðum stað. Frá því að ég missti vinnuna í janúar hafði ég fylgt andlegum fræðum og sleppt tökunum, algjört surrender, og leyft lífinu, alheiminum eða æðri mætti að stýra mér eftir því sem hentar best í þessu ferðalagi sem ég er á í þessum heimi, eða svo hélt ég. Ég fattaði nefnilega um daginn að ég hafði ekki sleppt tökunum – ég var bara búin að vera að bíða þolinmóð eftir því að hlutirnir æxluðust nokkurn veginn eins og ég gerði ráð fyrir, á þeim tíma sem hentaði mér best.
Ég áttaði mig skyndilega á því að ég var leið vegna þess að það var ekki að gerast. Ég var ekki að fá vinnu sem hentaði mér, einmitt þegar mér fannst tíminn vera réttur. Ég hafði ekki gefist upp fyrir æðri mætti, ég var bara að bíða eftir því að það sem ég sá fyrir mér yrði að veruleika. Ég var örg og leið og fúl yfir því að hlutirnir væru ekki að ganga upp. Það er í lagi.
Það er í lagi að líða stundum illa eða vera smá blúsaður þó svo að aðrir hafi það verra. Það er heiðarlegra að vera hreinskilinn við sjálfan sig um hvernig manni líður. Það er ekki alltaf allt eins og best verður á kosið og það er ekki alltaf gaman eða gleðilegt að vera til. Við erum jú uppi á flóknum tímum og það er alltaf erfitt að eiga við óöryggi og óvissu. Ég er leið. Ég ætla að kúra mig niður núna og horfa aðeins á Netflix. Á morgun kemur svo annar dagur.



Comments