Ég gerði ekkert rangt
- Guðný Guðmundsdóttir
- May 9, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Eins og margir hef ég verið hugsi yfir umræðunni sem hefur átt sér stað í samfélaginu undanfarna daga. Það hefur sem betur fer aldrei verið brotið á mér kynferðislega en ég á of margar vinkonur sem hafa verið beittar slíku ofbeldi og það er ótrúlegt að slíkt viðgangist í svona miklum mæli enn þann dag í dag.

Eina atvikið sem ég hef upplifað sem fór yfir mín mörk var þegar ég fór til heilara sem ég hafði heimsótt nokkrum sinnum áður. Mér fannst ég geta farið til hans óhrædd enda hafði ég kynnst honum á miðilsnámskeiði sem ég hafði farið á og séð að hann bjó yfir andlegum hæfileikum, auk þess sem hann var gamall og hrumur og því ekki líklegur til þess að vera fær um að gera eitthvað af sér.
Ég hafði farið til hans nokkrum sinnum áður í heilun en það hafði alltaf liðið langt á milli. Í þetta skipti, og það síðasta, fannst mér hann ekki vera að heila mig eins og vanalega – með því að vera kyrr með hendurnar – heldur að meira væri um strokur að ræða. Hann byrjaði niður við fæturnar og fór svo ofar, en þegar hann var að verða kominn upp að mjöðmum, þar sem ég lá á bakinu, straukst hann aðeins við lífbeinið á mér.
Ég get ekki sagt að ég hafi frosið en af einhverri ástæðu fannst mér ég ekki geta sagt að þetta væri ekki í lagi. Ég var of kurteis, of hlýðin, of góð stelpa til þess að hreyfa við einhverjum andmælum. Hann hélt áfram að vinna, ég sneri mér yfir á magann og hann setti hendurnar á bakið á mér. Ekkert gerðist frekar, annað en það að hann ýjaði að því að ég gæti haldið áfram að koma til hans og hann gæti hjálpað mér að fá „útrás“.
Ég ætlaði alls ekkert að skrifa um þetta eða blanda mér mikið í þessar umræður, vegna þess að ég veit að aðrir eru hæfari en ég til þess að ræða þetta alvarlega málefni. Það kom bara til mín eftir hugleiðslu að skrifa um þetta, vegna þess að mig hefur einmitt lengi langað að fjalla um það sem hafa þurfi í huga þegar maður velur sér meðferðaraðila (þó það að viðkomandi fari ekki yfir mörk manns ætti ekki að þurfa að vera á þeim lista).
Því miður er það þó þannig að það er til fólk sem beitir grófu ofbeldi en það er líka til fólk sem fer aðeins yfir línuna og nýtir sér það að til sé fólk sem á erfitt með að setja mörk. Ég átti mér ekki fyrri sögu um kynferðislegt ofbeldi eða hvers kyns líkamlegt ofbeldi þegar þetta atvik átti sér stað en ég á mér að sjálfsögðu sögu um meðvirkni og erfiðleika við að segja nei.
Ég skammaðist mín lengi vel fyrir að hafa ekkert gert í þessum aðstæðum sem ég lenti í. Ég skammaðist mín fyrir að hafa ekki staðið samstundis upp og labbað út. Ég skammaðist mín fyrir að hafa engum sagt frá, hafa ekki varað neinn við þessum einstakling, látið einhvern vita, en ég vissi svo sem ekki hvern ég átti að láta vita.
Þessi upplifun sýndi mér hversu auðvelt það er að lenda í slíkum aðstæðum og hversu erfitt það getur verið að segja einfaldlega nei, ég vil þetta ekki. Mér fannst ég ekki geta sett þau mörk, ég kláraði einfaldlega tímann og gekk svo út og fór aldrei til þessa manns aftur.
Ég er ekki með neinar töfralausnir varðandi það hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að einstaklingur beiti aðra manneskju ofbeldi. Ég er ekki einu sinni með neina almennilega hugmynd um hvernig ég eigi að enda þennan pistil. Kannski með því að segja að ég á auðvitað ekki að skammast mín fyrir neitt, vegna þess að ég gerði ekkert rangt.
Comments