top of page

Eilíf vanlíðan

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Oct 17, 2011
  • 2 min read

Updated: Jun 9, 2020


Þunglyndi. Er þetta þunglyndi? Ég hélt ekki. Ég hélt að það væri hlutur sem ég hefði losað mig við, eftir verstu árin þarna í grunnskóla. En að kvíða fyrir því að mæta í vinnu, að vera á meðal fólks, að langa að vera heima hjá mér þar sem ég er örugg, er það eitthvað annað en þunglyndi?


Ég horfði á þátt um daginn þar sem maður tók eigið líf með því að festa á sig lóð og hoppa ofan í sundlaug. Mín viðbrögð? Ég hugsaði: „sniðugt“. Þegar ég var í sjálfsmorðshugleiðingum þá hafði ég nefnilega útilokað drukknun þar sem mér fannst tilhugsunin um að fiskar myndu japla á líki mínu í sjónum ógeðsleg. Þarna var hins vegar komin lausn á því, og það fannst mér svona sniðugt. Að hugsa „sniðugt“ um sjálfsmorðstilraun er ekki merki um eðlilegan huga (förum ekki einu sinni út í það að ég hafi áhyggjur af líki mínu, en ekki líkama mínum og anda). Þannig að, ekki gott.


Mig langar ekki til að taka mitt eigið líf. Mig langar að lifa. En mér finnst dauðinn ekki hrikalegur. Mér finnst hann friðsæll. Ég lít svo á að með dauðanum hljótir þú hvíld. Frið. Frelsi. Frelsi frá þessum heimi sem er ekki fallegur, heldur miskunnarlaus.


Ég hef ekkert skrifað undanfarið um meðferðina mína, ekki eins og ég ætlaði að gera, einfaldlega vegna þess að mig langaði ekki til þess. Ástæðan er einföld, mér gekk svo vel til að byrja með. Ég talaði og ég fékk svör: „þú ert full af sorg, og reiði og depurð” frábært. „Þú ert haldin djúpum ótta við höfnun”, gott að vita, þetta er einmitt það sem ég vil heyra, að mér líði ekki svona út af engu, að þetta sé ekki aumingjaskapur, heldur sé eitthvað að! Það er maður sem segir við mig: „já, þú hefur rétt fyrir þér, það er eitthvað mikið að. Og við skulum laga það.”


En svo þegar átti að fara að laga það, þá gekk ekki svo vel lengur. „Segðu mér hvað þú segir við sjálfa þig. Í hvaða aðstæðum ertu? Hvernig líður þér þá?” En ég veit ekki hvernig mér líður þá. „Segðu mér hvernig þér líður, annars getum við ekki breytt orsakamynstrinu”. EN ÉG VEIT EKKI HVERNIG MÉR LÍÐUR! Ég fór frá því að hlakka til að mæta, frá því að fá svör, í það að kvíða fyrir fundum og æfa mig í að snúa út úr. Ég veit ekki svarið. Hættu að spyrja mig. Láttu mig vera.


Það er október og veðrið er leiðinlegt, og ég er alltaf veik, ég er svo slöpp, mig langar bara til þess að sofa, mig langar ekki að fara út úr húsi, mig langar ekki að tala við neinn. Ég er bara svo veik. Ég verð að vera heima. Þetta er bara þessi mánuður. Október er bara ömurlegur mánuður. Öllum finnst það. Þetta verður allt betra, um leið og þessi mánuður er búinn, ég veit það, ég þarf bara að bíða. Ég þarf bara að taka lítið pláss, þarf bara að anda, tíminn mun líða, það hefur sýnt sig, með hverjum deginum sem líður nálgumst við nóvember og þá verður allt í lagi. Allt verður í lagi.


Kannski er það ekki október. Kannski er það bara ég.

Comentários


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page