top of page

Eilífur byrjandi

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 4, 2020
  • 2 min read

Updated: Mar 2, 2021


ree

Ég hef alltaf átt voðalega erfitt með það að vera byrjandi. Það eru yfirleitt sömu hlutirnir sem ég hef áhuga á að taka mér fyrir hendur; mig langar til þess að iðka jóga reglulega, læra að syngja og að dansa salsa. Margoft hef ég tekið námskeið í þessum hlutum en ég tek það aldrei nógu langt til þess að öðlast töluverða þekkingu eða hæfni – ég er eilífur byrjandi í þeim áhugamálum sem ég tek mér fyrir hendur.


Þetta árið hef ég haft nægan tíma í atvinnuleysinu til þess að velta því fyrir mér af hverju það að læra eitthvað nýtt veldur mér oft á tíðum svona miklum vandræðum. Síðastliðin ár hef ég nefnilega tekið mér ýmislegt fyrir hendur sem ég hef ekki þurft að sinna áður; ég var hvött til þess að byrja að læra á gítar, ég tók að mér eldamennskuna á heimilinu og nú síðast hef ég fengið áhuga á því að vera með plöntur hérna heima hjá mér.


Í öllum þessum áhugamálum, ef svo má kalla, hef ég þurft að glíma við það að ég sé ekkert sérstaklega góð í því sem ég er að gera. Óhjákvæmilega hef ég gert mistök við eldamennskuna, greyið plönturnar hafa ekki allar lifað af vegna rangrar meðhöndlunar og gítaræfingar hafa gengið erfiðlega, því að um leið og ég er búin að ná tökum á einhverju einu tekur næsta lexía við með tilheyrandi byrjunarörðugleikum.


Ég áttaði mig á því á þessu ári að mér fannst svo erfitt að sinna því sem ég var að gera vegna þess að ég setti samansemmerki á milli þess sem ég var að gera og sjálfrar mín. Ef mér gekk ekki nógu vel að spila á gítarinn, var ég ómöguleg. Ef ég var að brasa við eldamennskuna og gerði einhver mistök, var ég ómöguleg. Ef ég fór illa með greyið plönturnar, var ég ómöguleg.


Það er skiljanlega erfitt að læra nýja hluti þegar maður er svona óvæginn við sjálfan sig alltaf hreint. Það er líklega fullkomnunaráráttan sem veldur því að mér finnst ég eiga að standa mig vel í öllu, jafnvel þó engar forsendur séu fyrir því. Það sem ég skildi loksins var hversu eðlilegt það er að ég sé ekki góð í hlutum sem ég hef ekkert vit á. Ég þurfti að sætta mig við það að ég sé byrjandi í því sem ég hef áhuga á að taka mér fyrir hendur og að það taki mig tíma og ástundun að ná árangri.


Ég vildi að ég hefði lært þetta fyrr í lífinu, en það er svo sem nægur tími eftir til þess að lifa og læra. Ég er að mestu hætt að ofvökva plönturnar mínar, ég elda mat eftir alls konar uppskriftum vegna þess að mér finnst svo leiðinlegt að borða alltaf sömu máltíðirnar og hver veit nema ég taki gítarinn aftur upp við tækifæri. Síðustu fimm vikurnar hef ég verið að stunda jóga hérna heima og þrátt fyrir að ég sé óttalega stirð, þá mun ég halda áfram að iðka því það er jú eina leiðin til þess að verða eitthvað annað og meira en „bara“ byrjandi.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page