top of page

Ferðalag mitt til bættrar heilsu: Kafli 1

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • May 28, 2020
  • 3 min read

Updated: Mar 2, 2021


Tómatar í lausu

Það leið yfir mig eitt kvöldið fyrir rúmum tveimur árum síðan. Ég var lögst til hvíldar rétt fyrir miðnætti en gat ekki sofnað vegna verks í síðunni sem hélt fyrir mér vöku. Ég hafði legið í rúminu í um það bil tvær klukkustundir þegar ég gafst upp og fór fram úr, en við það varð mér flökurt og ég fór fram á bað. Ég hafði sem betur fer látið kærastann minn vita, því það næsta sem ég vissi var að hann var að kalla nafnið mitt, en ég lá þá á gólfinu inni á baðherbergi. Hann varð svo skelkaður við þetta að hann hringdi umsvifalaust á sjúkrabíl.


Mér var farið að líða betur þegar sjúkraflutningamennirnir komu heim til okkar, en ákvað samt að fara með þeim upp á bráðamóttöku. Það vildi svo skemmtilega til að þetta var á sjálfan afmælisdaginn minn, sem ég varði fram á hádegi í sjúkrahússrúmi, þegar ég var send heim vegna þess að verkurinn var horfinn og ekkert hafði komið út úr þeim rannsóknum sem voru gerðar. Viku síðar fór ég til heimilislæknis en hann hafði svo sem engin frekari svör við þessu heldur.


Þetta atvik varð til þess að ég fór að taka heilsuna fastari tökum og skoða hluti sem voru að angra mig, en málið er að þessi verkur kom í kjölfarið á því að ég var farin að finna fyrir ákveðnum meltingarvandræðum. Til að byrja með truflaði það mig ekki það mikið, ég var líklega að borða eitthvað sem ég þoldi ekki, en ég átti erfitt með að átta mig á því hvað það væri og gerði lítið annað en að hætta að borða lakkrís. Þetta hélt áfram að angra mig, en þó ekki meira en svo að það leið annað ár áður en ég fór til læknis aftur, sem ég fékk til þess að senda mig til meltingarlæknis.


Sá meltingarlæknir staðfesti að það væri meira loft í meltingarveginum á mér en eðlilegt gæti talist, en gerði lítið annað en að stinga upp á því að ég prófaði að taka út brauð. Þetta voru hræðilegar fréttir að heyra, enda elska ég brauð. Vinur minn sagði jú við mig um daginn; “þú hefur nú alltaf verið mikil brauð og pasta manneskja”.


Heldur betur. Mér fannst lengi vel fátt betra en að fá mér pasta með rjómasósu. Ég verð hins vegar að viðurkenna að það eru liðin nokkur ár síðan ég fór að finna fyrir óþægindum við að borða slíkan mat, upplifað mikil þyngsli og næstum því ógleði eða hausverk sem ég tengdi við rjómann, bæði þegar ég hef verið að borða pasta eða súpur með rjóma. Ég er því mögulega búin að vera í afneitun hvað mataræði mitt varðar í afar langan tíma.


Mér fannst samt erfitt að fá þær fréttir að ég ætti að taka brauð út úr mataræðinu mínu og streittist á móti því að lifa brauðlausum lífstíl. Það var hins vegar alltaf að verða greinilegra og greinilegra að ég væri með einhvers konar mataróþol. Mér leið stundum ekki vel af því að borða súkkulaði, eða fá mér kakó eða latte í vinnunni, og að lokum var ég komin með nóg af þessum leiðindum öllum og skráði mig því fyrir jól á námskeið hjá Guðrúnu Bergmann þar sem ég fór í þriggja vikna hreinsun, sem ég byrjaði á í janúar 2020.


Ég lærði afar margt af námskeiðinu um mataræði og hvernig það hefur áhrif á líkamann og leið umsvifalaust betur á breyttu mataræði. Ég hafði hins vegar ekki skráð mig á námskeiðið til þess að kollvarpa því hvers konar mat ég borðaði, og þó svo að ég héldi í nokkrar góðar venjur sem ég hafði lært, fór ég smátt og smátt að borða aftur sama matinn og ég hafði borðað áður. Það sem gerðist við það var að ég fór að finna ennþá sterkar fyrir því að ég var að borða mat sem meltingarkerfið mitt réði ekki við og varð ennþá verri en áður en ég byrjaði á hreina mataræðinu.


Ég varð því loksins að horfast í augu við það, að meltingin mín kann ekki að meta það þegar ég borða mjólkurvörur eða matvæli sem innihalda glúten. Takk fyrir kærlega og vertu velkomin í nýjan veruleika. Frá því að ég komst að þessari niðurstöðu hef ég haldið áfram minni vegferð að breyttum lifnaðarháttum og er búin að læra margt og mikið um heilbrigðari matarvenjur, sem ég mun koma betur að síðar.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page