top of page

Fórnarlömb eineltis

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Oct 8, 2013
  • 2 min read

Updated: Jun 9, 2020


Fyrir tveimur árum tók 11 ára drengur líf sitt því hann gat ekki hugsað sér að lifa lengur við það einelti sem hann hafði búið við. Ég man hversu sjokkeraðir allir voru, eðlilega. Á meðan þetta var rætt gat ég ekki annað en hugsað um alla þá, börn sem fullorðna, sem verið var að leggja í einelti á þessari sömu stundu, án þess að fá nokkra hjálp. Já, öllum leið illa yfir þessum litla strák. En eins og mig grunaði þá gleymdu þeir sem þekktu hann ekki persónulega þessum atburði fljótt.


Ég skrifa um þetta í dag vegna þess að ég var lögð í einelti nokkurn veginn frá því að ég hóf grunnskóla þangað til honum lauk og ég yfirgaf heimabæ minn til þess að fara í menntaskóla. Ég gat ekki beðið eftir að komast í burtu, ég hafði í langan tíma talið dagana. Eins og þessi litli strákur íhugaði ég sjálfsmorð – þó ég hafi aldrei komist nálægt því að framkvæma það. Ég held að fólk hafi ekki vitað hversu illa mér leið – þó það hafi vitað af eineltinu, það veit ég fyrir víst.


Það tók mig langan tíma og mikla vinnu að fyrirgefa, ekki bara gerendunum sem voru aðeins börn, heldur fólkinu í kringum mig sem hefði átt að hjálpa mér. Það er erfitt að sjá að það hafi haft afsökun fyrir aðgerðarleysinu. Þeir vissu af vandamálinu. Ég sagði fjölskyldunni og vinum mínum frá. Mamma talaði meira að segja við skólastjórann. Af hverju gerðist þá ekki neitt? Af hverju þurfti ég að hjálpa mér sjálf?


Þegar ég hugsa um þetta málefni þá verð ég að segja þetta: það getur ekki verið svona flókið að hjálpa börnum og fullorðnum sem lögð eru í einelti. Það þarf aðeins að tækla vandamálið. En kannski er það einmitt ástæðan. Það er of flókið, of mikið vesen, og það felur í sér að ræða þurfi tilfinningar. Það felur í sér að láta ekki eins og allt sé í lagi, ef við bara þegjum. Það felur í sér að „búa til“ vandamál. Í litlum bæjarfélögum gæti það falist í því að þú þurfir að segja vinum þínum að barnið þeirra sé að leggja annað barn í einelti. Hvern langar að eiga það samtal? Sumum gæti jafnvel fundist að þeir vissu hreinlega ekki hvernig eigi að taka á svona máli.


Sem er algjört kjaftæði, satt best að segja. Ef þú ert skólastjóri eða yfirmaður og einhverjum á þínu sviði líður illa þá er það þitt vandamál. Ef þú veist ekki hvað þú átt að gera þá eru til sérfræðingar sem geta aðstoðað þig. Þú hjálpar barni sem líður illa. Þú hlustar á barn sem segir þér frá vanlíðan sinni, þú segir þeim EKKI að herða sig! Ef þú getur þetta ekki, þá ættir þú alvarlega að íhuga aðra starfstétt.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page