top of page

Fullorðið barn alkóhólista

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Oct 20, 2012
  • 3 min read

Updated: Jun 9, 2020


Þegar ég las viðtal við unga stelpu sem sagði frá lífi sínu sem barn alkóhólista varð ég fyrir innblæstri. Hér var stelpa sem hefur gengið í gegnum, þó nokkuð verri útgáfu af, en engu að síður sama vandamálinu og ég: hún ólst upp við alkóhólisma og er þó nógu sterk, aðeins 14 ára að aldri, til þess að segja frá því hreinskilnislega í fjölmiðlum fyrir hvern sem vill lesa.


Mig tók þetta ferli aðeins lengri tíma. Foreldri mitt er alki og þó að ég hafi mestmegnis haft það gott heima hjá mér þá hefur það engu að síður ævarandi áhrif á mann sem persónu að alast upp í meðvirkri fjölskyldu. Að alast upp í svona aðstæðum er einfaldlega normið sem við venjumst, það er engin leið fyrir barn að vita að hlutirnir eigi að vera öðruvísi, að fjölskyldureglurnar séu öðruvísi en annars staðar. Maður lærir bara að fara eftir þeim án þess að gera athugasemdir. Og hver er aðalreglan í fjölskyldunni? Þögn.


Þögn. Ekki ræða málin. Ekki ræða tilfinningar. Ekki hrósa. Ef eitthvað kemur upp á, ekki segja orð um það eftir á. Láttu bara eins og ekkert hafi gerst. Reyndu að láta lítið fyrir þér fara. Ekki láta á þér bera. Reyndu bara að fúnkera, einhvern veginn.


Það tók mig langan tíma að fatta að þetta var ekki rétt. Jú ég var alltaf áhyggjufull, kvíðin, stressuð, en ég hélt að það væri bara ég. Þú veist, ég. Feimna, rólega ég. Ekkert við því að gera. Nema ég fékk þá flugu í höfuðið að lífið ætti ekki að vera svona erfitt. Að það væri mögulegt að lifa án þess að upplifa lamandi kvíða hvern einn og einasta dag. Að ég gæti, ef ég reyndi, breytt einhverju. Að það væri jafnvel einvörðungu undir mér komið.


Ég beið þangað til ég yrði 16 og flytti í burtu. Ég gerði mitt besta til þess að víkka þægindahringinn, fór í menntaskóla þar sem ég þekkti engan og neyddist því til þess að eignast nýja vini, ferðaðist ein til útlanda, fór í málaskóla erlendis, hélt áfram að læra, fékk mér nýja og svo aftur nýja vinnu. Ekki auðvelt fyrir manneskju sem hræddist sífellt að gera mistök, sem kveið fyrir öllu sem myndi setja mig í ókunnar aðstæður.


Einn daginn, 24 ára að aldri, sat ég á Kastrup flugvelli þar sem ég uppgötvaði skyndilega að mér líkaði ekki við sjálfa mig. Já. Hversu heimskulegt er það, hugsaði ég í framhaldinu. Hversu heimskulegt er það að lifa ævina verandi illa við sjálfan sig, þegar ég er eina manneskjan sem ég þarf að vera með, alltaf? Mér fannst það svo kjánalegt að mér hætti samstundis að líka svona illa við sjálfa mig, einfaldlega af því að mér fannst það svo vitlaust. Og vitlaus er ég nú ekki.


Það tók ár í viðbót áður en ég fann meðferðaraðila sem hjálpaði mér. Heilara sem hjálpaði mér líka. Í sameiningu tókst þeim að stinga að mér nýjum hugmyndum. Að ég væri fullkomlega góð nákvæmlega eins og ég er. Að ég þyrfti ekki að þykjast vera nein önnur en ég er. Að ég ætti fullkomlega rétt á því að vera reið og sár. Að fá mig til að kannast við það að ég væri reið og sár, sem ég hélt nú upphaflega ekki. Að læra að þekkja tilfinningar mínar. Að vera hreinskilin við sjálfa mig. Að vera hreinskilin við aðra. Að setja mörk. Að neita að leyfa fólki að koma fram við mig eins og þeim hentaði. Að lifa í sátt við sjálfa mig og aðra.


Ég er komin svo langt á einu ári að ég trúi því tæplegast sjálf. Það er þess vegna sem ég er að skrifa þetta. Af því að ég veit að það hefur mestu áhrifin þegar einhver þorir að segja hreinskilnislega frá sínum upplifunum. Því það getur hjálpað þeim sem les að stíga fyrstu skrefin á sinni braut. Sem er það sem ég vona að þú gerir. Því trúðu mér, lífið þarf ekki að vera svona erfitt. Það veit ég af persónulegri reynslu.


Þessi pistill birtist upphaflega á innihald.is

Comentários


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page