top of page

Geðlestin: Sagan mín

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 30, 2022
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Þegar ég var yngri þá leið mér ekki nógu vel; ég glímdi við mikla vanlíðan, kvíða og áhyggjur. Á þeim tíma var ekki mikið verið að ræða um geðheilsu, geðrækt eða tilfinningar sínar almennt, svo ég vissi ekki hvað ég gæti gert og vissi ekki hvert ég gæti snúið mér.

Ég gerði því það eina sem mér datt í hug, sem var að gera mitt besta til þess að fara út fyrir minn þægindaramma. Ég ólst upp út á landi og þegar kom að því að fara í framhaldsskóla þá þurfti ég að flytja til þess að stunda frekara nám og ég valdi að flytja til Reykjavíkur og fara í skóla þar sem ég þekkti engan. Það var mjög erfitt fyrir mig en smá saman kynntist ég fólki og eignaðist vini og sá að þetta var eitthvað sem ég gat vel gert.


Í nokkur ár prófaði ég mig svona áfram, sjálfstraust mitt óx við það að prófa nýja hluti og setja sjálfa mig í ókunnar aðstæður og sjá að það gæti ég vel gert, sem varð til þess að mér leið aðeins betur með sjálfa mig. Ég fann samt að það var ekki nóg og þegar ég var 25 ára byrjaði ég því í viðtalsmeðferð hjá ráðgjafa.


Það var tvennt sem ég lærði í þessari meðferð; það fyrsta var að ráðgjafinn spurði mig að því hvað ég væri að hugsa þegar mér liði illa. Ég skildi ekki hvað hann átti við, ég vissi ekki til þess að ég væri að hugsa neitt sérstakt. Þegar ég fór að skoða það betur og fylgjast með hugsunum mínum, áttaði ég mig hins vegar á því að ég væri stanslaust að hugsa neikvæðar hugsanir.


Ég áttaði mig strax á því að þetta var alls ekki að gera mér gott; ég var að hugsa svo neikvæðar hugsanir um sjálfa mig allan liðlangan daginn og óttast að ég væri ekki nógu góð í því sem ég tæki mér fyrir hendur, ekki nógu klár, ekki nógu hugmyndarík og svo framvegis. Ég sá því að þarna væri verk að vinna, að ég þyrfti að vinna í því að breyta hugsunum mínum um sjálfa mig og vera bara almennt meira næs við sjálfa mig.


Annað sem ráðgjafinn spurði mig eitt sinn að var hvernig mér liði í líkamanum, hverju ég finndi fyrir. Aftur þá vissi ég ekki hvað hann átti við, ég fann ekki fyrir neinu, en meðan á þessari viðtalsmeðferð stóð þá lærði ég að ég væri uppfull af alls konar tilfinningum sem ég hafði ekki fengið útrás fyrir, eins og reiði og sorg, sem ég vissi ekki sinni að ég væri að geyma innra með mér.


Það að leita mér aðstoðar og fá hjálp við að átta mig á hugsunum mínum og tilfinningum gerði ótrúlega mikið fyrir mig. Þarna fékk ég ákveðin tæki og tól sem hjálpuðu mér að skilja sjálfa mig betur. Þetta var engu að síður bara upphafið að minni sjálfsvinnu, því ég þurfti að halda áfram að vinna í sjálfri mér eftir að ég hætti viðtalsmeðferðinni, en það er líka bara hluti af lífinu.


Það er eitt sem ég hefði viljað vita fyrr, sem ég vil nefna svona rétt í lokin, en það er að við þurfum öll að skoða okkur sjálf og finna út úr því hvað hentar okkur best þegar kemur að geðrækt og geðheilsu okkar. Við erum öll ólík og það er mismunandi hvað virkar fyrir okkur. Það er engin ástæða til þess að vera í einhverjum samanburði eða reyna að gera hlutina eins og aðrir.


Það er hluti af geðrækt að finna út úr því hvað virkar best fyrir mig ef ég á eitthvað erfitt – er það að hreyfa mig, skrifa í dagbók, fara út í náttúruna eða hlusta á tónlist? Að rækta sjálfan sig snýst um að læra á sjálfan sig. Hvenær þarf ég að fá að vera ein, hvenær þarf ég á því að halda að tala við einhvern? Hvenær get ég gert hlutina sjálf, hvenær þarf ég á aðstoð að halda?


Mér líður svo mikið betur í dag en mér leið þegar ég var unglingur og ung manneskja en það breytir því ekki að það kom upp alls konar verkefni og áskoranir í lífinu og það er ekkert að því að leita sér hjálpar. Mér finnst ennþá gott að leita til ráðgjafa ef ég er að glíma við eitthvað eða ganga í gegnum einhvers konar lægð. Það er ekkert til þess að skammast sín fyrir og á að vera jafn sjálfsrækt og að leita til læknis vegna líkamlegra meiðsla.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.



Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page