Grunnurinn að sjálfsrækt
- Guðný Guðmundsdóttir
- Dec 8, 2020
- 2 min read
Updated: Mar 2, 2021

Ég kynntist hugleiðslu og núvitund fyrir um það bil tíu árum síðan en að nýta mér slíka iðkun hefur haft ómetanleg áhrif á líf mitt til hins betra. Upphaflega lærði ég bæði að taka eftir hugsunum mínum í viðtalsmeðferð hjá sálgreiningaraðila, auk þess sem ég kynntist leiddri hugleiðslu þegar ég fór fyrst að fara á námskeið í andlegum málefnum.
Ég vissi lengi vel að það væri gott fyrir mig að hugleiða, enda hafa andlegir kennarar mínir ávallt lagt áherslu á að það væri það sem skipti mestu máli þegar kemur að því að komast lengra á manns andlegu þroskabraut, en samt hugleiddi ég aðeins endrum og eins.
Fyrir um það bil þremur árum síðan byrjaði ég hins vegar að hugleiða á hverjum degi. Ég var vön að koma heim úr vinnunni og leggjast upp í sófa og hugleiða þar í 20 mínútur. (Já, ég átti það til að sofna, nei, maður á ekki að hugleiða liggjandi af einmitt þeirri ástæðu).
Engu að síður var ég yfirleitt vakandi og ég fór fljótt að taka eftir ákveðnu mynstri; nánast undantekningarlaust fóru þessar 20 mínútur í að hugsa um vinnuna. Ég gat ekki hætt að hugsa um ákveðin vandamál sem ég þyrfti að leysa eða atvik eða aðstæður sem voru í gangi hverju sinni.
Ég get alveg sagt það núna strax að ég var ekki að leysa þessi vandamál í huganum eða fá frábærar hugmyndir. Ég var bara að velta mér upp úr hlutum sem ég hafði ekkert endilega stjórn yfir. Að hugsa svona var því ekki aðeins mikil tímasóun fyrir mig, heldur fór dýrmætum frítími minn í vangaveltur sem voru gjörsamlega tilgangslausar.
Þegar ég fór að taka eftir þessu, gat ég stoppað mig af með því að hugsa, „Æ, ertu nú farin að hugsa um þetta aftur?“ og velja aðrar hugsanir í staðinn. Að hugleiða varð því til þess að ég gat hætt að fókusa á einhver vandamál sem ég taldi mig vera að glíma við, raunveruleg eða ímynduð, og velja þess í stað hvað ég vildi frekar gera við tímann sem ég hafði fyrir sjálfa mig.
Hugurinn getur verið frábært tól, en við leyfum honum svo oft að hlaupa með okkur í gönur. Hugleiðsla og núvitund eru bestu tólin sem ég hef fundið til þess að líta inn á við, taka eftir og gagnrýna þær hugsanir eða sögur sem ég segi sjálfri mér, sem eru ekki hvorki jákvæðar né uppbyggilegar fyrir mig. Þessi tól, sem gera það að verkum að maður er fær um að taka eftir hugsunum sínum, tilfinningum og viðhorfum, eru það sem gerir sjálfsrækt mögulega.
Comentarios