top of page

Heilbrigð niðursveifla

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Apr 23, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Brátt verð ég búin að vera atvinnulaus í eitt og hálft ár.

Þegar ég missti vinnuna grunaði mig ekki að ég yrði enn í sömu sporum að þessum tíma liðnum, ég gerði einfaldlega ráð fyrir að ég gæti slakað á í svona 2-3 mánuði og að þá myndi eitthvað nýtt taka við hjá mér. Þegar svo fór ekki, velti ég því mikið fyrir mér af hverju staðan er eins og hún er hjá mér í dag.


Mögulega fékk ég svarið við þeim vangaveltum í umræðum sem áttu sér stað í sjamanhópnum mínum um daginn, þegar leiðbeinandi okkar fór að tala um hugtak sem hún kallaði lífspúls, en hún útskýrði að innra með okkur öllum, sem og í heiminum í heild sinni, sé ákveðinn lífspúls sem sveiflist stöðugt.


Dæmi um þetta er hvernig orka manns sveiflast yfir daginn, en ég er t.d. lengi að komast í gang á morgnana, verð hressari í kringum hádegi, svæfin um eftirmiðdaginn, orkumeiri aftur um kvöldmatarleytið, þangað til ég kemst í meiri ró um kvöldið (en eftir klukkan tíu er varla hægt að ná neinu almennilegu sambandi við mig).


Líf manns í heild sinni sveiflast svo á svipaðan hátt. Á ákveðnum tímabilum eru hlutirnir í blússandi gír; það er mikið um að vera, jafnvel á öllum vígstöðum. Á öðrum tímum gengur hins vegar allt á afturfótunum. Það ganga allir í gegnum mismunandi tímabil, sem ganga mislengi yfir. Það getur verið ákveðin niðursveifla í lífi manns sem getur tekið vikur, mánuði eða jafnvel ár.


Þegar slík niðursveifla gengur yfir er erfitt að skilja af hverju. Ég hef svo sannarlega verið í þeim sporum síðastliðið rúmt ár, þar sem ég hef verið að sækja um störf sem ég ætti í venjulegu árferði að eiga möguleika á að fá en ekkert gengur, á meðan ég ber mig saman við fólk sem er að ganga í gegnum blómaskeið í sínu lífi og skil ekki af hverju hlutirnir eru ekki að ganga upp hjá mér.


Það skiptir ekki máli hvort að ég sé að upplifa orkuleysi í mínu daglega lífi eða að hlutirnir séu ekki að ganga upp hjá mér í lífinu almennt, ég virðist hafa tilhneigingu til þess að bregðast á sama hátt við; með því að gagnrýna sjálfa mig. Ástæðan fyrir niðursveiflunni hlýtur að vera sú að það sé eitthvað að hjá mér; ég hljóti að vera að gera eitthvað rangt eða það sé eitthvað sem ég þurfi að bæta í mínu fari.


Þetta er samt afleiðing af óraunhæfum væntingum sem ég hef til lífsins og hvernig það á að virka. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að líf manns og orka sé alltaf í uppsveiflu. Það er bæði eðlilegt að verða þreyttur og að það gangi ekki allt hjá manni vel, vegna þess að það eru alltaf einhver verkefni sem maður þarf að takast á við, læra af og þroskast.


Mér finnst hjálplegra að hugsa sem svo að það sé eðlilegt að sveiflast á milli þess að vera uppfullur af orku og þess að þurfa hvíld, að líf manns sé í ákveðinni útþenslu og að hlutirnir dragist síðan saman. Þá er hægt að sjá svona niðursveiflu tímabil fyrir það sem þau eru; tækifæri til þess að hvíla sig og undirbúa fyrir það sem mun taka við næst.


Þetta eina og hálfa ár hefur verið æfing fyrir mig í að sætta mig við það hvar ég er stödd og hætta að bíða eftir að þessu tímabili ljúki. Ég get valið að nota þennan tíma í það sem honum er ætlað, að leyfa mér að slaka á og byggja mig upp. Ég er að æfa mig í að treysta því að allt sé eins og það eigi að vera og að hlutirnir muni gerast nákvæmlega þegar þeim er ætlað að gerast, eins og þeim er ætlað að gerast, og ekki mínútu fyrr.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page