Í miðju stresskasti
- Guðný Guðmundsdóttir

- May 20, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég var að byrja í tímabundnu starfi en ég var ráðin af dósent í Háskóla Íslands til þess að setja upp vefsíðu fyrir ákveðið verkefni. Ég taldi mig vita nokkurn veginn hvað ég væri að taka að mér í þessu starfi, enda er ég vön því að vinna með vefsíður og ýmiss konar vefumsjónarkerfi.

Þegar ég var hins vegar komin með aðgang að kerfinu og ætlaði að byrja að vinna, fékk ég það sem mætti kalla vægt kvíðakast. Ég hef ekki þurft að setja upp vefsíðu í þessu tiltekna vefumsjónarkerfi frá grunni í einhvern tíma og var ekki alveg að átta mig á því hvernig hlutirnir virkuðu fyrst um sinn.
Það sem gerðist þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti tíma til þess að finna út úr þessu var að hugurinn fór á fullt við að segja mér hvaða rugl þetta væri að selja mig sem sérfræðing, þegar ég vissi greinilega ekki 100% hvað ég væri að gera, og ég fór samstundis að hafa miklar áhyggjur af því hvað í ósköpunum ég ætti að gera ef ég finndi ekki út úr þessu.
Það breytti engu þó að ég viti það sjálf vel að það taki tíma að koma sér inn í málin í svona verkefnum, vegna þess að það er til mikið af mismunandi vefumsjónarkerfum sem virka augljóslega ekki öll nákvæmlega eins. Ég gaf sjálfri mér hins vegar ekki það rými að skoða hlutina og átta mig á hlutunum í rólegheitunum, þar sem þessar neikvæðu hugsanir tóku mig fullkomlega yfir.
Ég hef sem betur fer aldrei átt erfitt með að biðja um hjálp. Ég vissi af því að annar einstaklingurinn hafði verið ráðinn af yfirmanni mínum til þess að setja upp aðra vefsíðu en sá aðili hefur meiri tæknilegan bakgrunn en ég, sem þýddi að ég get leitað til hans með atriði sem mig vantar aðstoð við. Það var hjálplegt en á sama tíma var ég einnig að nota þá aðstoð sem hækju.
Þegar ég rak mig á atriði sem ég var ekki viss um hvernig ég ætti að leysa umsvifalaust, var ég nefnilega gjörn á að hafa fljótt samband við þennan kollega minn og biðja um hjálp. Um leið og ég var búin að senda honum tölvupóst, gat ég slakað á í þeirri fullvissu að ég myndi fá lausn við þessu vandamáli, en það varð oftar en einu sinni til þess að ég gat hugsað málið í rólegheitum og fundið á því lausn sjálf.
Þessar neikvæðu hugsanir og viðhorf höfðu nefnilega ekkert með mína hæfileika eða reynslu að gera. Ég var í flestum tilvikum fyllilega fær um að finna út úr því sem ég var að reyna að gera, en stressið varð þess valdandi að ég bað hljóp til og bað um hjálp, frekar en að róa mig niður og komast í framhaldinu að því hvernig ég gæti leyst úr málunum.
Við ræddum þetta í hugleiðsluhópnum mínum um daginn og kennarinn minn sagði okkur einmittt að byrja á því að anda þegar eitthvað kemur upp á. Gera ekki neitt annað, bara anda. Það leysast engin vandamál í miðju stresskasti eða þegar maður er í tilfinningalegu uppnámi. Í svona aðstæðum, sama hverjar þær eru eða hver streituvaldurinn er, er best að byrja á því að róa sig niður, til þess að geta síðar fundið lausn á vandamálinu sem um er að ræða.
Svona voru fyrstu þrír dagarnir hjá mér í þessari vinnu, algjör tilfinningarússíbani, þangað til ég áttaði mig á því að ég þyrfti að koma mér upp þeirri venju að vera róleg þegar ég skildi ekki eitthvað. Ég veit núna að ef ég byrja á því að anda djúpt, og standa svo jafnvel upp og gera eitthvað annað í smástund, er ég auðveldlega fær um að koma til baka að verkefninu sem ég er að vinna að og finna út úr því sem þarf að gera.
Það er góð byrjun en ég veit líka að ég þarf að skoða það betur af hverju ég verð svona stressuð, af hverju ég hef svona miklar áhyggjur af því að ég viti ekki hvað ég sé að gera, af hverju mér finnst að aðrir gætu unnið verkefnin mín betur en ég, af hverju ég sé að hafa svona miklar áhyggjur af því að ég standi mig ekki nógu vel – það er hins vegar efni í frekari naflaskoðun og í framhaldinu af því annan pistil.



Comments