top of page

Í miðju umbreytingarferli

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Aug 18, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég hefði átt að vera að ljúka þriggja ára námi í sjamanisma núna í október, en það hefur frestast um ár vegna faraldursins, þar sem kennarinn minn og aðstoðarkennararnir hennar hafa ekki komist frá Bandaríkjunum og Evrópu til þess að kenna okkur.

ree

Námið gengur út á níu vinnustofur, þrjár á ári, en við náðum að ljúka fjórðu vinnustofunni í lok janúar 2020 og vorum loksins að hittast aftur í persónu núna í síðustu viku.


Þegar ég skráði mig í þetta nám vissi ég engan veginn út í hvað ég væri að fara, ég ákvað bara að stökkva á tækifærið til þess að fara út fyrir minn þægindaramma. Ef ég hefði vitað fyrirfram hvað námið fæli í sér, að það myndi hrinda af stað umbreytingarferli sem sér ekki fyrir endann á, er ég ekki viss um að ég hefði þorað að taka þátt, en ég er engu að síður ákaflega þakklát fyrir það. Þetta nám hefur gefið mér tækifæri til þess að dýpka sjálfsrækt mína á svo margan hátt.


Námið í sjamanisma hefur gengið út á tvennt; fyrri helmingur námsins hefur snúist um að styrkja grunninn okkar, með því að læra um það hvernig þroskumst frá fæðingu fram á fullorðinsaldur. Flest okkar, ef ekki við öll, berum einhver sár frá því að við vorum börn og unglingar, vegna þess að fæstir fá fullkomið uppeldi. Við höfum verið að vinna með það að heila þau sár, með það að markmiði að verða heilbrigðir fullorðnir einstaklingar.


Í náminu gerum við æfingar til þess að vinna úr því sem gæti hafa komið upp á í þroskaferlinu, hvort sem við munum eftir því eða ekki. Við vinnum með þroskaferlið alveg frá byrjun; frá því að við komum í heiminn, erum umvafin ást og hlýju, lærum að vera ein sem og með öðrum, þar til að við stígum inn í okkar styrk sem fullorðnir einstaklingar.


Þessi grunnvinna heldur áfram allt námið, en seinni helmingurinn snýst þó einnig um að vinna með það sem við erum tilbúin til þess að gera breytingar á í okkar lífi og umbreyta því þar með. Það felst í því að skoða sögurnar sem við segjum okkur, þá trú sem við höfum, um okkur sjálf, um heiminn, um lífið, sem eru ekki að gera okkur gagn og við þurfum að sleppa tökunum á til þess að geta haldið áfram veginn.


Ég hef séð hvernig þessi vinna hefur nú þegar hrundið af stað breytingum. Fólkið sem er með mér í náminu er að ganga í gegnum margvíslegar breytingar, auk þess sem ég sjálf missti náttúrulega vinnuna og virðist smá saman vera að taka aðra stefnu í lífinu. Mín upplifun er sú að ég sé stödd í miðri á, að ég muni ekki halda áfram að gera hlutina eins og ég gerði hér áður fyrr, þó svo að ég viti ekki ennþá hvað muni taka við hjá mér í staðinn.


Óvissan sem ég stend frammi fyrir þýðir þó aðeins að umbreytingarferlinu er ekki enn lokið. Ég lærði það á þessari vinnustofu að ég þarf að vera þolinmóð við sjálfa mig. Það tekur tíma að gera breytingar, sérstaklega í áfallavinnu, þarf sem ákveðið öryggi þarf að vera til staðar til þess að geta yfirleitt sleppt tökunum á því gamla. Ég fann það í þetta skipti að ég náði betri árangri þegar ég fókusaði á að slaka á og leyfa hlutunum að gerast af sjálfu sér.


Það góða er að ég hef þetta nám, kennarana mína og samnemendur til þess að styðja mig á þessari braut. Ég veit að ákveðinn árangur næst á hverri vinnustofu sem ég tek þátt í, en þess á milli get ég haldið áfram að vinna með sjálfa mig og nota æfingar sem kennararnir hafa sérstaklega mælt með fyrir mig. Áður en ég veit af, verður svo kominn febrúar og næsta vinnustofa, sem mun reyna á mig og fleyta mér enn lengra áfram á þessari vegferð.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.



Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page