top of page

Hugvíkkandi ferðalag: Úr streituástandi yfir í slökunarástand

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Apr 10
  • 3 min read

Updated: Apr 15

Það er áhugavert að síðasti pistill sem ég skrifaði hafi verið um streitu og hversu buguð ég væri orðin, vegna þess að ég er á allt öðrum stað í dag en ég var þá.

Það sem breyttist er að ég ákvað að fara aftur í hugvíkkandi ferðalag. Síðan ég fór fyrst hef ég velt því fyrir mér hvort það væri eitthvað sem ég ætti að prófa aftur, en þar sem fyrsta skiptið var svo mikil opnun fyrir mig þorði ég ekki að fara aftur vegna þess að það var alveg nóg í gangi og ég var hrædd um að það myndi gera líf mitt erfiðara.


Hingað til hef ég getað lifað frekar hefðbundnu lífi og mætt til vinnu en það eru ekki allir sem geta það eftir svona opnun. Eftir rúmt ár, og með auknum skilningi á því sem ég er að ganga í gegnum, áttaði ég mig á því að það er ekki að fara að koma fyrir mig. Ég er búin að vinna svo mikla vinnu nú þegar að þetta yrði aldrei svo yfirþyrmandi.


Fyrst og fremst hafði ég það á tilfinningunni að ég væri ekki búin að upplifa það sem ég gæti fengið út úr meðferð með hugvíkkandi efnum. Ég vissi að varnarkerfið mitt og tilhneygingin til þess að halda hlutunum inni væri svo sterk að ég þarfnaðist aðstoðar við að sleppa tökunum.


Ég ákvað í mars að hitta sálfræðinginn sem ég fór til í ferðalagið til og átti góðan fund með henni. Það var gott að geta rætt við hana og farið yfir allt sem er búið að eiga sér stað síðan ég fór til hennar í byrjun janúar í fyrra. Hún var sérstaklega áhugasöm um ferlið sem ég er að ganga í gegnum.


Við ákváðum að ég kæmi til hennar í byrjun apríl í annað ferðalag. Á meðan á því stóð upplifði ég ekki endilega að það væri eitthvað stórkostlegt að gerast, annað en að ég var greinilega að losa hluti út og fá slökun í kerfið, en það sem ég gerði mér ekki grein fyrir, fyrr en eftir á, var að ég fór úr sympatíska kerfinu yfir í parasympatíska kerfið – úr streituástandi yfir í slökunarástand.


Ég get varla lýst því með orðum hversu mikill munur það er. Ég fór í ferðalagið á föstudegi og á laugardegi var eins og ég væri önnur manneskja. Þó svo að ég væri líkamlega eftir mig þá fann ég engu að síður að allt var breytt. Síðan þá hef ég uppgötvað að sú Guðný sem er föst í streituástandi – sem á við um alla mína ævi – er ekki sama Guðný og sú Guðný sem er í slökunarástandi.


Þetta tvennt er svo fullkomlega ólíkt að það er fyndið að upplifa raunverulega slökun í fyrsta sinn. Ég, 39 ára gömul, er að læra eitthvað nýtt í fyrsta sinn eins og um barn sé að ræða. Ég gæti alveg eins verið að læra að ganga, svo súrrealískt er þetta nýja ástand fyrir mér. Bara vó, er það svona að vera í slökunarástandi – sem oft kallað á ensku rest and digest – hversu flippað?!


Það tekur mig örugglega þrjá pistla að komast yfir allt sem hefur breyst síðan þetta var. Ég læt mér nægja í bili að segja að ég gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti að slaka á taugakerfinu en ég áttaði mig ekki á því að ég hefði hreinlega aldrei slakað á, aldrei nokkurn tímann. Það er ekki skrýtið að ég hafi verið að glíma við margvíslega heilsufarslega kvilla og að það hafi verið frekar erfitt að vera til.


Það er eins og ég hafi verið að ganga upp á fjall með vindinn í fangið en sé nú komin niður á jafnsléttu þar sem sól og blíða hafi tekið á móti mér. Allt sem var svo útrúlega erfitt, er nú ekkert mál. Í ferðalaginu fékk ég skilaboð sem komu til mín á ensku en þau voru; “You’ve suffered enough. Let go.”


Ég vil segja að hugvíkkandi efni eru ekki fyrir alla og ættu aldrei að mínu mati að vera það fyrsta sem fólk gerir þegar það leitar sér aðstoðar. Þeir einstaklingar sem þekkja sig í þeim lýsingum sem ég nota um sjálfa mig (sem ég mun fara betur yfir í næsta pistli), myndi ég engu að síður ráðleggja að kanna leiðir til þess að komast úr sympatíska kerfinu.


Ég hef áður á þessu bloggi fjallað um ýmis konar leiðir til þess, en fyrir mitt leyti þá var ég komin á endastöð með það hvar ég var stödd og því var meðferð með hugvíkkandi efnum svo sannarlega það sem ég þarfnaðist á þessum tímapunkti í mínu lífi.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page