top of page

Hugvíkkandi ferðalag: Úrvinnsla

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Mar 15, 2024
  • 3 min read

Updated: Apr 15, 2024

Það tók mig viku að átta mig á því að hugvíkkandi ferðalagið sem ég fór í hefði opnað á kundalini, sem er sagt að sé orka sem við búum öll yfir sem getur farið af stað við ákveðna atburði, andlega iðkun eða jafnvel af sjálfu sér.



Eins og ég hef sagt frá, byrjaði ég að hristast og skjálfa á meðan á ferðalaginu stóð, sem hélt svo áfram eftir að ég kom heim og er ennþá í gangi rúmum tveimur mánuðum síðar. Ég var í sambandi við ráðgjafann sem ég fór til í viku eftir ferðalagið, aðallega til þess að reyna að átta mig á því sem ég var enn að upplifa.


Það var hennar mat að kerfið mitt hefði tekið svona vel við efnunum að vinnslan væri ennþá í gangi, en ég fór að lokum að velta því fyrir mér hvort það hefði opnast á að kundalini byrjaði að streyma, byggt á því sem ég hafði lesið mér til um.


Það sem gerist við það er að orkan fer að vinna við að ryðja út ölllum blokkeringum, sársauka og verkjum sem kerfið geymir, svo að hún geti flætt óáreitt. Það er það sem ég er búin að vera að upplifa í þetta langan tíma, með tilheyrandi óþægindum og verkjum.



Ég bjóst ekki við því fyrirfram að ég myndi opna á þessa orku og alls ekki að það færi af stað ferli sem myndi eiga sér stað vikum eða mánuðum saman. Þess vegna er svo mikilvægt að gera sér grein fyrir því fyrir hugvíkkandi ferðalag að það getur ýmislegt gerst.


Ég held að fólk verði hrætt eða eigi erfitt með að takast á við það sem kemur upp í ferðalaginu ef það er ekki vant að vinna með hugsanir sínar og tilfinningar eða hefur ekki reynslu af því að vinna með það hvernig við geymum þetta tvennt í líkamanum og veit ekki hvernig það er að finna fyrir því.


Heilun gengur út á að hlutirnir þurfa að koma upp á yfirborðið og við verðum að finna þá. Ef við geymum tilfinningar í kerfinu sem við gátum ekki fundið á sínum tíma, verðum við að gera það þegar þeir koma upp á yfirborðið til þess að vera losaðar út. Ég var ekki endilega meðvituð um það þegar ég byrjaði fyrst að vinna í sjálfri mér, heldur vildi ég aðeins vinna úr þeirri vanlíðan og kvíða sem var að plaga mig.


Ég hef hins vegar rekið mig á það í gegnum árin, að í hvert sinn sem mér tókst að vinna úr einhverju og ég hélt að það væri leyst, tók dýpra lag við. Það sem breytist hins vegar er að ég hef orðið næmari á mitt eigið kerfi, líkama minn, hugsanir og tilfinningar, eftir því sem ég vinn meira í sjálfri mér.


Það hjálpar mér ótrúlega mikið að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem ég hef tekist á við svipaða úrvinnslu, þó þetta sé meira yfirþyrmandi en vanalega. Ég er búin að vera á þessu ferðalagi í rúman áratug, en hugvíkkandi ferðalagið mitt opnaði kannski á meira en ég er vön að takast á við á einum tímapunkti. Það er erfitt og óþægilegt og sumir dagar eru verri en aðrir.


Það er ekki aðeins það að ég sé að upplifa líkamlega vinnslu, með þessum skjálfta og verkjum hér og þar um líkamann þar sem orkan er að vinna, heldur sé ég núna þegar ég lít til baka að það er líka búin að eiga sér ákveðin hreinsun þegar kemur að hugsunum mínum, tilfinningum og því sem ég trúi um sjálfa mig og veröldina.


Ég tel mig hafa ágætis skilning á því sem er að eiga sér stað, að þetta sé heilunarferli sem mun ganga yfir, þó ég geri mér ekki grein fyrir því hvað það geti tekið langan tíma. Það breytir því ekki að þetta er mikið þolinmæðisverkefni og raunar verkefni fyrir lífstíð. Ég þarf að minna sjálfa mig á að sýna sjálfri mér væntumþykju og gefa mér tíma og rúm til þess að takast á við það.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page