Hugvíkkandi ferðalag: Mín upplifun
- Guðný Guðmundsdóttir
- Feb 8, 2024
- 3 min read
Í síðasta pistli fór ég yfir þá ákvörðun mína að fara í hugvíkkandi ferðalag og hvernig ég undirbjó mig fyrir það, en nú ætla ég að fara yfir ferðalagið sjálft, sem var allt öðruvísi en ég bjóst við.

Það sem gerðist þegar efnin byrjuðu að virka, var að ég fann hvernig allur líkami minn byrjaði að víbra. Ég fann þá fyrir ótta, ósjálfrátt, vegna þess að eitthvað var farið af stað sem ég gat ekki bakkað út úr. Það gekk fljótt yfir, en þá tók við ógleði, ekki vegna þess að mér væri
bumbult af efninu, heldur vegna þess að það var ákveðin losun sem þurfti að eiga sér stað.
Ráðgjafinn var tilbúin fyrir þetta, enda hafði hún sagt mér að koma fastandi, og það eina sem kom upp úr mér var slím. Ég spurði hana hvað væri að gerast, og hún sagði að þegar kerfið slakaði á við efnin væri eins og tappi væri tekinn úr flösku. Það væru ákveðin skref sem fólk upplifði á svona ferðalagi og að hún myndi fara í gegnum þau með með mér, eftir því sem þau kæmu upp.
Það næsta sem gerðist, eftir að ég hafði jafnað mig af ógleðinni, var að ég þurfti að standa upp og sveifla vinstri fætinum, eins og ég þyrfti að losa um eitthvað í vinstri mjöðminni. Ég byrjaði síðan að hristast, fyrst í vinstri löpp og mjöðm, en á einhverjum tímapunkti á öllum kviðnum (en það vildi svo merkilega til að þegar ég hristist sem mest reið yfir jarðskjálfti upp á 4,5).
Ég hristist og skalf, mismikið, en á tímabili fannst mér ég nánast geta setið og lesið dagblað á meðan á þessu stóð. Ég fann aðallega fyrir vinnslu á þessu svæði, auk þess sem hálsinn á mér víbraði í stutta stund. Það var allt og sumt sem gerðist, en ferðalagið gekk meira að segja fljótt yfir, þannig séð. Eftir þrjár klukkustundir var því að mestu leyti lokið.
Það sem kom mér á óvart var að ég upplifði engan veginn annan veruleika, engar sýnir eða neitt því um líkt, þrátt fyrir að búa yfir ákveðinni næmni. Ég varð meira að segja fyrir hálfgerðum vonbrigðum með það að hafa ekki fundið fyrir neinu handanheims eða fengið skýrari sýn á líf mitt. En það sem ég vissi ekki var að þetta var rétt að byrja, þó að sjálfu ferðalaginu væri lokið.
Í stuttu máli sagt þá er ég búin að vera að ganga í gegnum ferli síðan þá, sem er búið að taka nokkrar vikur. Ég hélt áfram að hristast eftir að ég kom heim og er búin að vera að því síðan ég fór. Ég hef sem betur fer getað tekist ágætlega á við það, vegna þess að ég hef reynslu af heilun og veit hvernig það lítur út þegar líkaminn vinnur úr gömlum áföllum.
Ég hef einmitt verið að kynna mér somatic æfingar, sem ganga út á að losa streitu og áföll út úr líkamanum með því að hristast og skjálfa. Þetta er þekkt hjá dýrum og eitthvað sem við mannfólkið ættum að gera líka, en við höfum misst tengslin við þessa náttúrulegu leið til þess að losa streitu út úr líkamanum.
Svona æfingar eru til þess gerðar að vinna með taugakerfið og koma því aftur í jafnvægi. Ég gerði slíkar æfingar daglega í fjóra mánuði í lok síðasta árs með The Workout Witch, sem hjálpaði mér, en ég náði engu að síður aldrei þeim árangri sem hún lofaði. Ég tel að það sé vegna þess að ég sé búin að vera svo lengi í daglegu streituástandi, sem hefur haft mikil áhrif á líf mitt og líðan.
Þess vegna sé ég svo sannarlega ekki eftir því að hafa farið í þetta ferðalag, þó svo að mér hafi kannski ekki fundist það merkilegt á meðan á því stóð. Það gerði nefnilega það sem mér hafði ekki enn tekist með daglegum æfingum, að koma líkama mínum úr sympatíska kerfinu yfir í parasympatíska kerfið, enda upplifði ég þvílíkan létti við það að geta loksins slakað almennilega á.
Það sem ferðalagið gerði fyrir mig var að taka niður eitthvað af mínum vörnum, svo þessi heilun gæti átt sér stað. Það þýðir ekki að líf mitt sé skyndilega fullkomið, enda er ég ennþá að takast á við alls konar tilfinningar og líkamlega verki sem ferðalagið opnaði á, en þetta er mikilvægt púsl á minni vegferð, sem hefur opnað á leið til þess að halda mínu sjálfsræktarferðalagi áfram.
Comentarios