Fyrstu skrefin á andlegri þroskabraut
- Guðný Guðmundsdóttir

- Jul 8
- 3 min read
Ég hef alltaf verið opin fyrir andlegum málum, mögulega vegna þess að mig hefur alltaf dreymt svo mikið, en ég varð ekki vör við neitt handan heims fyrr en upp úr tvítugu þegar ég fór á mitt fyrsta tarot námskeið og í kjölfarið á ýmiss konar námskeið í heilun og miðlun.

Um svipað leyti dreymdi mig draum sem virtist vera til þess gerður að vekja mig til meðvitundar um hinn andlega heim en fyrst og fremst byrjaði ég að skynja orku vegna þess að ég sat þessi námskeið en sérstaklega vegna þess að ég byrjaði að iðka hugleiðslu.
Á svipuðum tíma hóf ég viðtalsmeðferð og fór reglulega í heilun, sem varð til þess að ég fór að vinna með hugsanir mínar, tilfinningar og viðhorf sem byrjuðu að koma upp á yfirborðið til úrvinnslu. Ég fór einnig að finna fyrir orku í höndunum, sem var undirbúningur fyrir heilunarvinnu, og orku í kringum mig sem virtist til þess gerð að heila mig.
Ég skildi ekki hvað væri að gerast en ég vildi komast að því, svo ég hélt áfram að taka námskeið og sat í hugleiðslu- og þróunarhópum fyrir næma einstaklinga. Að nokkrum árum liðnum hóf ég nám í sjamanisma hjá Patriciu WhiteBuffalo en það sem gerðist við það var að ég komst betur í tengsl við líkama minn og fann enn betur fyrir því sem ég þurfti að vinna með og heila.
Áður en ég byrjaði í því námi hafði ég farið að finna fyrir vinnslu í orkustöðvunum, sem lýsti sér í því að ég fann fyrst fyrir miklum þrýsting á enninu. Það var í fyrsta sinn sem ég skynjaði orkustöð, sem var ennistöðin, sú sjötta. Í sjaman-náminu byrjaði ég svo að finna fyrir kitli á höfðinu, sem var merki um opnun hjá mér í höfuðstöð.
Þegar ég varð fyrst vör við hjartastöðina fann ég fyrir miklum sársauka og sorg sem ég geymdi þar en síðar fór ég að finna fyrir orku í kringum andlit og háls og tinnitus í eyrum þegar vinnslan hófst í hálsstöðinni. Við heilun í sjaman náminu opnaðist á rótarstöðina hjá mér en við það fór ég að finna fyrir því sem ég var að geyma í fótunum og fótleggjum upp að mjöðmum.
Þessi vinnsla hélt áfram í gegnum námið Þín persónulega umbreyting hjá Starcodes Academy, þar sem við vorum að vinna með tólf orkustöðvar, en það var ekki fyrr en ég prófaði hugvíkkandi meðferð sem ég “gubbaði” orku upp úr magastöðinni og opnaði á rými fyrir það sem var þar að byrja að hreyfast. Af orkustöðvunum sjö á ég aðeins eftir að skynja þá þriðju, sólarplexus.
Þetta allt saman er búið að vera mikið umbreytingarferli. Það sem mér hefur fundist erfiðast, fyrir utan óþægindin sem fylgja þessari miklu heilunarvinnu og hreinsun, er að skilja ekki alltaf það sem ég er að ganga í gegnum og hafa um það endalausar efasemdir. Þess vegna skiptir svo miklu máli að fara á námskeið og viðburði þar sem maður kynnist fólki sem er að upplifa eitthvað svipað.
Það er ekki svo að allir upplifi þetta ferðalag á sama hátt, en með því að tilheyra hóp er sá möguleiki til staðar að geta rætt upplifanir sínar og speglað í öðrum. Sama hvort fólk fæðist skyggnt, það opnast á skynjun þeirra síðar á lífsleiðinni, eða það skynjar aldrei neitt en er engu að síður á ákveðinni þroskabraut, þá er um að ræða þroskaferðalag sem tekur tíma.
Ég er búin að vera að ganga í gegnum þetta ferli í næstum fimmtán ár og ég veit ekki hvar ég væri stödd ef ég hefði ekki kynnst fólki í gegnum árin sem ég hef talað við og lært af því svo margt og mikið. Ég get ekki mælt meira með því að fara í nám til þess að læra betur á sjálfan sig og kynnast fólki í svipuðum hugleiðingum.
Nú er einmitt tíminn til þess að skoða hvað sé áhugavert í boði í haust. Ég sjálf er búin að skrá mig í nám í markjálfun hjá Virkja sem hefst í lok ágúst. Starcodes Academy fer af stað með Þín persónulega umbreyting í lok ágúst, svo það er um að gera að tékka því. Þær bjóða einnig upp á námskeið í Engla Reiki reglulega, sem er heilunaraðferð sem ég er afar hrifin af.
Það er gott að vera gagnrýninn og nota innsæið þegar kemur að því að velja, en ekki má heldur gleyma því að það er orðið nóg til af efni sem er frítt á netinu, a.m.k. fyrir þá sem tala ensku. Ég uppgötvaði um daginn frábærar hugleiðslur á YouTube hjá Divine Light Meditation auk þess sem mér finnst alltaf gott að lesa góða bók. Þitt er valið!



Comments