top of page

Inngangur að sjamanisma

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Mar 27, 2020
  • 2 min read

Updated: Mar 2, 2021


Úlfur úti í náttúrunni

Fyrir fólk sem elst upp í hinum vestræna heimi er tilhugsunin um sjamanisma og hvað hann stendur fyrir þokkalega fjarlæg. Samt kemur sjamanismi okkur öllum við, enda erum við flest ef ekki öll komin af fólki sem iðkaði sjamanisma, því sjamanismi var á sínum tíma iðkaður um allan heim í mismunandi menningarheimum. Það eimir meira að segja enn af sjamanisma í okkar nútíma, en hlutir eins og lukkudýr íþróttateyma (að setja sig í spor dýra) og flugeldasýningar (að dýrka orku eldsins) eiga sér rætur úr þessari fornu iðkun.


Sjamanismi eru ekki trúarbrögð; það eru engar bækur til þess að fylgja né prestar sem virka sem milliliðamenn eða um nokkurs konar stigveldi að ræða. Þvert á móti er sjamanismi andleg iðkun sem hver sem er getur lært og nýtt sér þekkinguna sem hún geymir, fullkomlega milliliðalaust, svo lengi sem viðkomandi búi yfir hæfni til þess. Þó svo að sjamanismi hafi verið iðkaður í ólíkum menningarheimum víðsvegar um veröldina, og að slíkir menningarheimar búi yfir ólíkum söngvum, dönsum og klæðnaði, snýst sjamanismi í grunninn um það sama um heim allan.


Sjamanismi gengur fyrst og fremst út á tengsl við náttúruna og það að eiga í samskiptum við plöntur, dýr, frumefnin og veðrið en sjaman telur að allt sé lifandi og tengist sín á milli. Sjamaninn var hér til forna heilari þorpsins eða ættbálksins en hann hjálpaði fólki sem varð veikt eða slasaðist, spáði fyrir um veðrið, komst að því hvar hjarðir dýra til þess að veiða var að geyma og gaf tilmæli um að færa viðverustað ættbálksins eða safna mat fyrir veturinn ef von var á slæmri veðráttu. Hann sá lengra en nef hans náði og notaði þá innri sjón til þess að eiga í samskiptum við aðra sjaman, jafnvel í öðrum hornum heimsins. Hann vissi hverjum var hægt að treysta og hverjum ekki og verndaði ættbálkinn sinn gegn hvers konar hættu.


Sjamaninn gaf fólkinu sínu tæki og tól til þess að eiga í heilbrigðum samskiptum við náttúruna á sjálfbæran máta en það gerði hann valdamiklann. Sjamaninn hefur hins vegar ekki áhuga á að stúdera orku og kraft til þess að stjórna eða drottna yfir öðru fólki, heldur vill hann nýta þessi öfl til þess að hjálpa og heila aðra með því að annast þá og þjónusta. Sjamaninn fær þær upplýsingar sem hann þarfnast í gegnum ákveðið hugarástand sem hann kemst í með því að hlusta á drumbuslátt eða ákveðin lög og fara í huganum í ferðalag til andaheims (e. shamanic journey) þar sem hann á í samskiptum við dýr og verndarverur sínar.


Á Íslandi er ört vaxandi hópur fólks farinn að kynna sér sjamanisma en ég stunda til að mynda nám í sjamanisma hér á landi með um það bil 20 öðrum Íslendingum (ásamt fleirum erlendis frá) undir leiðsögn Patricia WhiteBuffalo. Ég fylgist líka með starfi The Power Path yfir netið en þau bjóða upp á nám yfir netið og birta umfjöllun um þema hvers mánaðar. Á Íslandi er einnig að finna sjamanískt samfélag við Esjurætur, Sólsetrið, auk þess sem Seiðlist skapar sjamanísk listaverk (e. shamanic art) á meðan aðrir stunda sjamanískar öndunaræfingar eða fara í svett. Að kynnast sjamanisma hefur reynst mér ómetanlegt á mínu heilunarferðalagi og tekið sjálfsvinnu mína bæði lengra og dýpra.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comentarios


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page