Innri gagnrýnandinn
- Guðný Guðmundsdóttir
- Nov 24, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Flestir kannast við innri gagnrýnandann, neikvæðu röddina hið innra sem virðist hafa þann tilgang einan að halda aftur af manni og draga mann niður.

Ráðin sem eru gefin við þessu vandamáli eru yfirleitt að reyna að hunsa þessa rödd eða reyna að sannfæra hana um að hún hafi rangt fyrir sér. Nýlega sá ég hins vegar umfjöllun Teal Swan, þar sem hún heldur því fram að innri gagnrýnandinn sé ekki óvinur manns, heldur hluti af manni sjálfum sem sé að reyna að vernda mann.
Markmið innri gagnrýnandans er að koma í veg fyrir að maður upplifi óþarfa sársauka, með því að forða manni frá ákveðnum gjörðum eða aðstæðum sem gætu valdið manni vanlíðan. Minn innri gagnrýnandi gerir t.d. allt sem hann getur til þess að koma í veg fyrir að ég veki athygli á einhvern hátt eða nái of mikilli velgengni, vegna þess að ég lærði það þegar ég var yngri að það væri öruggast fyrir mig að láta sem minnst fyrir mér fara.
Þessi sýn á innri gagnrýnandann hefur hjálpað mér að skilja hvers vegna mér gengur ekki betur í þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur eða næ ekki að láta drauma mína rætast. Það er augljóslega ákaflega erfitt að ná árangri þegar ég óttast ekkert meir en velgengni og að vera séð. Minn innri gagnrýnandi tekur hlutverk sitt af fullri alvöru og sér til þess að ég sé ekkert að láta ljós mitt skína, neitt svona að óþörfu!
Ef ég leyfi innri gagnrýnandanum að taka völdin, hefur það þau áhrif á mig að mér gengur ekkert að skrifa. Á slíkum tímabilum finnst mér ég ekki vera neitt sérstaklega góður penni, líður eins og ég hafi ekkert merkilegt að segja og hugsa með mér að enginn lesi þessi skrif mín hvort sem er. Sama hvað ég reyni kem ég ekki pistli saman, heilu og hálfu málsgreinar og setningar liggja eins og hraðak á blaðinu, lengi vel ósnertar, jafnvel vikum saman.
Ég veit hins vegar að áhrif innri gagnrýnandans á mig er aðeins verkefni sem ég þarf að vinna í. Ég þarf að sannfæra hann um að mér sé óhætt að tjá skoðanir mínar og sýna heiminum það sem ég hef fram að færa. Innri gagnrýnandinn byggir sínar staðreyndir á fyrri upplifunum. Ég veit af hverju ég óttast að vera séð, ég vil ekki verða fyrir einhverjum leiðindum, upplifa höfnun eða verða gagnrýnd fyrir það sem ég hef að segja.
Ég þarf ekki að hunsa innri gangrýnandann eða reyna að losna við hann, ég þarf aðeins að sýna honum fram á að hlutirnir eru ekki lengur eins og þeir voru áður fyrr. Í dag er ég ekki lengur barn eða unglingur, ég er fullorðin manneskja. Ég get valið að taka það ekki inn á mig hvað fólki finnst um það sem ég hef að segja. Ég þarf ekki heldur að vera fullkomin til þess að hafa rétt á því að taka upp mitt pláss.
Að lokum vil ég taka fram að þessi útskýring á innri gagnrýnandanum hjálpaði mér að skilja sjálfa mig betur, á þeim stað sem ég er stödd akkúrat núna. Engu að síður er upplifun mín af sjálfsvinnu sú að það getur verið nauðsynlegt að heyra útskýringar á hugtökum, líkt og innri gagnrýndanum, aftur og aftur, gjarnan á ólíkan hátt, til þess að ná böndum yfir þau. Þessi útskýring hjálpar mér í dag, en ég gæti þarfnast annarrar nálgunnar á þetta sama hugtak á morgun – það er allt hluti af ferlinu og því ferðalagi sem ég er á.
Comments