top of page

Kvíðasjúklingur í bata

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 30, 2020
  • 3 min read

Updated: Mar 2, 2021


Ég var lengi vel mikill kvíðasjúklingur, en kvíði og áhyggjur höfðu mikil og hamlandi áhrif á mitt daglega líf. Ég hef sem betur unnið úr þeim kvíða og kalla sjálfa mig stundum í gríni kvíðasjúkling í bata, því maður getur jú alltaf fengið smá bakslag. Ég vann úr mínum kvíða með hjálp meðferðaraðila, sem nýtti sér hugræna atferlismeðferð í minni viðtalsmeðferð, auk þess sem ég hef sjálf notast við hugleiðslu og núvitund.


Þessar aðferðir aðstoðuðu mig við að breyta hugsunarmynstrum mínum og gömlum og úreltum viðhorfum. Það sem ég hef hins vegar einnig gert var að koma mér upp ákveðnum venjum og hegðun sem eru til þess gerð að koma í veg fyrir að setja sjálfa mig í streituvaldandi aðstæður. Eftirfarandi eru atriði sem hjálpa mér að komast hjá því að upplifa streitu sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir:


Mæta tímanlega


Ég legg gjarnan snemma af stað þegar ég er á leið á fund eða viðburð sem ég verð helst að vera mætt tímanlega á. Ég vil frekar vera mætt aðeins of snemma og þurfa að bíða aðeins, heldur en að vera stressuð yfir því að mæta of seint. Það getur alltaf eitthvað komið upp á, mikil umferð eða tafir í umferðinni, eða það gæti tekið tíma að finna bílastæði.


Stundum hef ég reynt að vera meira slök, leggja af stað á „réttum“ eða „eðlilegum“ tíma, en ég sé yfirleitt eftir því. Þegar ég tek eftir því að tíminn líður og að ég gæti orðið of sein, verð ég stressaðri og meira viðutan í umferðinni, sem gæti jafnvel leitt til umferðarslyss. Persónulega vil ég þá frekar að það sé gert góðlátlegt grín að mér fyrir að vera oft á tíðum full stundvís.


Leggja fyrir


Ég kýs að spara eins og ég get (pabbi minn kallaði mig einu sinni nirfill, en ég vil frekar meina að ég sé skynsöm með peninga). Ég lifi einföldu lífi; við kærastinn minn eigum íbúðina okkar, við erum hvorki með börn né gæludýr og hvorugt okkar á sér dýr áhugamál. Ég ver pening í hluti sem skipta mig máli, ég fer á kaffihús og stundum út að borða, en ég ver aðallega pening í mína sjálfsrækt og nám sem ég get lært og þroskast af.


Mér líður betur að eiga smá sjóð inni á bankabók, en það róar mig að þurfa ekki að hafa óþarfa fjárhagsáhyggjur. Það kom sér vel í byrjun árs þegar ég missti vinnuna, en ég sá fram á að geta borgað reikningana og haldið áfram að lifa tiltölulega áhyggjulaust. Ef það er á annað borð einhver möguleiki, finnst mér það að spara geta veitt manni ákveðna hugarró.


Vera undirbúinn


Ég byrja snemma að undirbúa mig fyrir tímabil eða viðburði sem eru streituvaldandi, eins og til dæmis jólin sem nú eru framundan. Ég á fjölskyldu erlendis og ég set það alltaf í fyrsta sæti að klára gjafirnar til þeirra, svo ég geti farið á pósthús og sent pakkann til þeirra áður en mesta ösinn á pósthúsinu byrjar. Ég byrja líka að huga að jólagjöfunum snemma, svo ég geti dreift kostnaðinum við jólagjafirnar yfir fleiri mánuði og verið minna vör við þau útgjöld.


Margir hafa mikið á sinni könnu yfir jólin og því gæti það verið ómetanlegt að byrja undirbúninginn fyrr og vera rólegri þegar hátíðirnar nálgast. Það er ekki jafn mikið álag á mér og mörgum öðrum fyrir jólin, en ég þekki mig samt nógu vel til þess að vita að ég get auðveldlega farið úr jafnvægi ef eitthvað bjátar á. Þá kýs ég frekar að vera skipulögð og með minn verkefnalista á hreinu.


Gera minni kröfur


Það er svo oft sem manni finnst að hlutirnir þurfi að vera gerðir á einhvern hátt, eða helst óaðfinnanlega, til þess eins að uppgötva að enginn gerir þær kröfur á mann að vera fullkominn, nema náttúrulega maður sjálfur. Svo ég taki aftur dæmi um jólin, þá er til dæmis hægt að minnka kröfurnar sem maður setur á sjálfan sig með því að sleppa miklum bakstri og kaupa frekar tilbúið smákökudeig, svona rétt til þess að fá ilminn í húsið. Það þarf heldur ekkert endilega að gefa dýrustu eða flottustu gjafirnar, því jólin snúast jú ekki um það, heldur að njóta hátíðanna með fólkinu sem maður elskar.


Þetta eru aðeins nokkur dæmi um leiðir sem mér hefur dottið í hug til þess að koma í veg fyrir að ég finni mig í aðstæðum þar sem áhyggjur og kvíði getur auðveldlega dúkkað upp á. Það er mismunandi eftir einstaklingum hvað truflar þá mest, svo það er mikilvægt að hver og einn finni út úr því hvaða aðstæður þeir eiga erfiðast með og leiðir til þess að undirbúa sig fyrir þær. Að lokum er að sjálfsögðu alltaf hjálplegt að hafa góða rútínu, passa upp á að fá nægan svefn og gera sitt besta til þess að vera í góðu jafnvægi.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page