Lærdómurinn í erfiðleikunum
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jun 9, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Þetta er búið að vera furðulegt eitt og hálft ár.

Eftir að ég missti vinnuna og Covid-19 greindist hér á landi, hef ég skiljanlega varið miklum tíma heima hjá mér. Ég hef forðast það að vera mikið á ferðinni að óþörfu til þess að verða ekki veik og hef heldur ekki þurft að fara út úr húsi frekar en ég vil, nema út í búð að versla í matinn.
Þegar ég fékk loks tímabundið starf, eftir að hafa sótt um ótal störf án þess að það hafi gengið upp hjá mér, reyndist hún þess eðlis að ég er fær um að sinna henni heiman frá mér, sem þýðir að ekkert hefur raunverulega breyst í mínu lífi, þar sem ég dvel ennþá mikið heima hjá mér og hitti fáa.
Þetta hefur ekki verið neitt sérstaklega auðvelt tímabil, enda hefur það einkennst af mikilli óvissu, og ég hef því mikið velt því mér af hverju ég er stödd í þessum aðstæðum. Fyrir það fyrsta þá hefur það neytt mig til þess að líta inn á við, enda hef ég ekki verið fær um að forðast hugsanir mínir og tilfinningar, jafnvel þó ég fegin vildi.
Í þessu ferli öllu hef ég nefnilega setið svolítið uppi með sjálfa mig. Ég hef hvorki getað eytt pening í einhver óþarfa til þess að láta mér líða betur, til dæmis með því að kaupa mér eitthvað fallegt, né verið fær um að nota afþreyingu til þess að beina athyglinni eitthvert annað, þar sem ég hef lítið gert af því að fara út að borða eða á einhverja viðburði.
Ég er auk þess að taka meltinguna í gegn, sem þýðir að ég get ekki drukkið kaffi eða áfengi, borðað mjólkurvörur, glúten eða viðbættan sykur. Ég er á afar sérhæfðu mataræði í að minnsta kosti þrjá mánuði til þess að endurræsa kerfið, ef svo má kalla, sem veldur því að ég get ekki leitað í mat mér til huggunar.
Ef eitthvað hefur verið að angra mig eða gerjast innra með mér, hefur það átt greiða leið upp á yfirborðið til úrvinnslu, sem er ekki skemmtilegt en að öllum líkindum ekkert nema gott fyrir mig til lengri tíma litið. Á þessu tímabili hef ég einnig haft nægan tíma til þess að dvelja með sjálfri mér og spyrja sjálfa mig spurninga.
Ég hef að sjálfsögðu mikið velt því fyrir mér af hverju ég er stödd í þessum aðstæðum og ekki síst í svo langan tíma, en þegar ég fór að hugsa mig um, skildi ég að það er ansi margt sem ég get lært af þessu tímabili. Það hefur til að mynda gefið mér tækifæri til þess að:
treysta því að hlutirnir séu í ákveðnum farvegi og að mér sé óhætt að sleppa tökunum og leyfa hlutunum að fara þá leið sem þeim er ætlað
vera þakklát fyrir það sem ég þó hef
leyfa öðrum að hugsa um mig (t.d. fjárhagslega) og vera ekki svona föst í því að ég þurfi að hugsa algjörlega um sjálfa mig frá a-ö
hugsa út í það hvað mig langar til þess að gera, svo að ég sé sé tilbúin til þess að taka ákvarðanir þegar tækifærin fara að lokum að bjóðast
undirbúa mig fyrir það sem tekur við hjá mér næst
æfa mig í því að vera glöð og njóta þess að vera til, jafnvel þegar ytri aðstæður eru langt frá því að vera fullkomnar
Ég vil trúa því að erfiðleikarnir sem maður gengur í gegnum séu að lokum til þess gerðir að styrkja mann. Það sem þetta tímabil hefur sýnt mér er að það er ekkert mál að vera andlega sinnaður og treysta alheiminum þegar vel gengur, það er fyrst þegar hlutirnir virðast ekki vera að ganga upp, að minnsta kosti á yfirborðinu, sem reynir á trú manns og traust. Það sem ég veit fyrir víst er að ég mun að minnsta kosti verða enn þakklátari fyrir það sem tekur við hjá mér næst, eftir allt sem á undan er gengið, sama hvað það svo sem verður.
Comments