Langvarandi atvinnuleysi
- Guðný Guðmundsdóttir
- May 26, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég er áhyggjufull. Ég missti vinnuna fyrir einu og hálfu ári síðan og þó svo að ég sé í tímabundu starfi þessa dagana gerir það lítið til þess að bæta upp fyrir að það hefur gengið á sparnaðinn minn frá því að ég byrjaði á grunnatvinnuleysisbótum í byrjun janúar á þessu ári.

Ég hef tekið eftir því áður hvers fjárhagslegt öryggi skiptir mig miklu máli. Mér finnst allt geta gengið upp, svo ég lengi sem ég get borgað reikningana mína og átt eitthvað afgangs til þess að leggja fyrir eða geta gert eitthvað skemmtilegt, eins og að fara út að borða endrum og eins eða ferðast.
Ég hef alltaf verið skynsöm í fjármálum og fundist þægilegast að vita af því að ég eigi eitthvað inni á bók ef eitthvað skyldi koma upp á. Það er fyrst og fremst þannig sem ég hef náð að fleyta mér svona langt í þessu langa atvinnuleysi, sem sýnir einmitt fram á nauðsyn þess að spara þegar vel gengur.
Mér finnst því óþægilegt að vera í þessari stöðu, jafnvel þó að ég geri ráð fyrir að hlutirnir verði örugglega í lagi á endanum. Ég hef mikla þörf fyrir öryggi, sem ég held að við höfum öll, ekki aðeins sem börn heldur einnig sem fullorðnir einstaklingar. Öryggi manns er óhjákvæmilega ógnað þegar maður er ekki viss um að eiga eftir að geta borgað alla sína reikninga; átt fyrir húsnæði, mat og öðrum nauðsynjum.
Áhyggjurnar minnka svo ekki við að fylgjast með því sem á sér stað í heiminum. Ég les fréttirnar á hverju degi og geri mér fulla grein fyrir því hversu flókið og erfitt það getur verið að búa í þessum heimi. Á hverjum degi gerist eitthvað slæmt; slys eða hamfarir. Þó svo að ég sé sjálf ekki í neinni bráðri hættu, finnst mér ég kannski meðvituð um erfiðleikar geti bankað óvænt upp á.
Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að vera í þessum aðstæðum til lengri tíma litið eða búa jafnvel við fátæktarmörk. Það sem hefur hjálpað mér er að vita að ég eigi fjölskyldu og vini sem ég get leitað til en það geta ekki allir reitt sig á slíkt, sem er ástæðan fyrir því að við þurfum að hafa kerfi sem er tilbúið til þess að grípa fólk sem getur ekki stólað á vini og vandamenn þegar eitthvað bjátar á.
Þrátt fyrir að ég viti að ég geti fengið hjálp og að ég þurfi raunverulega ekki að hafa áhyggjur af því að reikningarnir verði ekki borgaðir, finnst mér samt erfitt að hugsa til þess að ég þurfi að stóla á aðra. Það tengist inn á þá ímynd sem ég hef af sjálfri mér, að ég sé dugleg og samviskusöm og fær um að sinna mínu án aðstoðar annarra. Ég vil vera sjálfstæð og vita til þess að ég leggi mitt af mörkum.
Kannski er það æfing í sjálfu sér að þurfa að biðja um hjálp. Að vita að þó svo að hlutirnir gangi illa tímabundið, sé einhver aðili eða eitthvað kerfi sem grípur mann. Að hlutirnir reddist að lokum, þó maður viti ekki hvernig eða hvenær. Hugleiðslukennarinn minn segir að maður fái allt það sem maður þarfnast, kannski ekki allt sem mann langar í, en það sem mann vantar nauðsynlega hverju sinni.
Ég hugleiði á hverjum degi og minni mig á að allt sé í lagi. Í þessu augnabliki, á þessum degi, er allt alveg í lagi. Ég anda djúpt, inn og út. Ég er heilbrigð, ég bý yfir hæfileikum. Ég treysti sjálfri mér og ég er að æfa mig í því að treysta heiminum, að allt sé eins og það eigi að vera og að ástæða sé fyrir þessu öllu saman. Það er allt fullkomlega í lagi.
תגובות