top of page

Leiðir til aukinnar sjálfsþekkingar

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jan 19, 2023
  • 3 min read

Mér fannst ég ekki koma öllu sem ég vildi koma til skila í síðasta pistli um tilfinningalega stjórnun.

Hún snýst nefnilega ekki fyrst og fremst um að stjórna tilfinningum manns (þess vegna er ég ekki hrifin af þessari þýðingu á emotional regulation) heldur að skilja tilfinningar sínar, kunna að fá fyrir þær heilbrigða útrás, á réttum stað og réttum tíma, og taka meðvitaðar ákvarðanir frekar en að stjórnast af efni úr undirmeðvitund manns.


Sjálfsþekking er nauðsynleg til þess að geta iðkað tilfinningalega stjórnun. Til þess að geta lært á tilfinningar manns þarf maður að vita hver maður er og af hverju maður gerir það sem maður gerir. Í minni sjálfsvinnu hugsa ég stundum um sjálfa mig sem hálfgerðan einkaspæjara, nema það sem ég rannsaka eru hugsanir mínar, tilfinningar, hegðun og viðhorf.


Ég byrjaði fyrst að ná árangri á þessu sviði þegar ég fór að hugleiða reglulega, vegna þess að það varð til þess að ég fór að taka eftir því sem ég var að hugsa og hvernig mér leið. Hugleiðsla og núvitundaræfingar kenna manni að vera vitnið (e. observer), eins og Eckhart Tolle lýsir í sínum bókum, að taka eftir því sem er að gerast innra með manni sjálfum.


Fólk veit oft á tíðum ekki af hverju það gerir það sem það gerir, vegna þess að það hefur ekki gefið sér tíma til þess að líta inn á við og kynnast sjálfu sér og hvað býr innra með þeim. Það er einnig algengt að fólk kjósi að deyfa sig, frekar en að taka áhættuna á því að hleypa óþægilegum tilfinningum eða gömlum sársauka upp á yfirborðið.


Það er alltaf hætta á því að það hafi afleiðingar í för með sér; fólk gæti verið tilneytt til þess að eiga erfið samtöl eða gera breytingar á sínu lífi sem það er ekki endilega tilbúið til þess að gera. Það er erfitt að rannsaka sjálfan sig á þennan hátt og takast á við tilfinningar sínar og horfast í augu við að maður er manneskja, með bæði kosti og galla, en það er þess virði fyrir þann ávinning sem bíður við enda regnbogans.


Mér finnst ég að minnsta kosti vera mun heilbrigðari einstaklingur eftir alla þá vinnu sem ég hef lagt á mig. Hlutir sem ég hef skoðað eru til að mynda hverjar mínar kveikjur eru, hvað ég óttast, hvað mig dreymir um, hver mín varnarkerfi eru (fight, flight, freeze, fawn), hver mín viðhorf eru, hverju ég trúi um sjálfa mig og heiminn, hvernig ég tengi við aðra (attachment style), hver minn tilgangur í lífinu er.


Þetta hefur orðið til þess að ég þekki sjálfa mig mun betur og er þar af leiðandi alltaf að verða betri og betri í því að takast á við þá erfiðleika eða verkefni sem koma upp. Ég veit að ég er hvorki betri né verri en aðrir, að ég búi yfir mínu virði, vegna þess einfaldlega að ég er til, og þarf því ekki að leitast eftir viðurkenningu frá öðrum.


Ég er orðin betri í því að leyfa ekki öðru fólki eða ytri aðstæðum að hafa áhrif á það hvernig mér líður. Ég þekki mínar kveikjur og hef með tíma og æfingu orðið betri í því að vera róleg og meta stöðuna án þess að bregðast umsvifalaust við (sem er munurinn á react og respond). Það er svo margt sem truflar mig ekki lengur vegna þess að ég hef unnið úr svo mikið af mínum gömlu sárum.


Þegar eitthvað ýtir við mér þá finnst mér það frekar áhugavert, heldur en eitthvað annað, því það gefur mér upplýsingar um hvað sitji ennþá eftir í kerfinu sem ég þarf að vinna með. Það gefur mér einnig upplýsingar til þess að skoða gömul mynstur frá sjálfri mér, fjölskyldunni eða jafnvel aftan úr ættum. Ég veit hvenær mér hefur tekist að vinna úr þessu gamla þegar ég bregst við áreiti eða atvikum á annan hátt en ég gerði áður, en í því er einmitt mesti sigurinn fólginn.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comentarios


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page