top of page

Lífið sem mig langar í

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Aug 10, 2021
  • 2 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég hef heyrt íslenskt lag nokkrum sinnum í útvarpinu með góðri melódíu og áhugaverðum texta, sem fjallar um lífið sem manninn í laginu langar í.

ree

Mér finnst þetta svo einlægt lag og fallega sungið, en þegar ég las textann fannst mér frábært hversu ósköp venjulega hluti hann dreymir um; að eignast fjölskyldu, fara í útilegu með rækjusamloku og kókómjólk, skella sér í sund og ræða pólitík í pottinum.


Það er eitthvað svo frískandi og jarðbundið við bæði lagið og textann, eins og það sé samið til þess að róa hlustendur þess niður. Markmiðin sem rædd eru í textanum eru nægilega hógvær til þess að auðvelt sé hægt að ná þeim og í viðlaginu er þetta kapphlaup og æsingur um að þurfa að afreka svo mikið eða vera einhver, betri en hinn, einmitt gagnrýnt. Þvert á móti, þá langar manninn í laginu í hluti sem flestir myndu telja að þeir gætu eignast um ævina hvort eð er.


Með rækju og kókómjólk tjalda við Lagarfljót í Atlavík þetta er lífið sem mig langar í – Hipsumhaps

Ég get alveg játað það að ég er sek um að ætla mér að eiga svo stórt og mikið líf að ég upplifi kvíða og streitu við tilhugsunina um að ég muni aldrei ná að framkvæma það allt saman. Stundum líður mér eins og mér hafi mistekist, vegna þess að mér hefur ekki tekist að láta alla þessa drauma verða að veruleika, eða óttast að ég sé jafnvel að verða of sein til þess, vegna þess að ég er ekki búin að framkvæma það sem ég hafði ætlað mér að vera búin að afreka á þessum tímapunkti.


Þetta veldur mér ekki aðeins óþarfa hugarangri, heldur kemur í veg fyrir að ég geti notið þess sem ég hef nú þegar, vegna þess að ég lít svo á að ég sé ekki fullnægð fyrr en ég er búin að láta þessa drauma rætast. Ég dvel svo í þessu ástandi í stað þess að vera þakklát fyrir allt það sem ég hef nú þegar, sem er afrek í sjálfu sér, líkt og mína eigin íbúð, fjölskyldu og vini, nægan tíma fyrir sjálfa mig og góða heilsu.


Þegar ég hugsa málið þá bý ákveðin þörf að baki því sem mig dreymir um að afreka, þörf fyrir að sjá og upplifa eitthvað nýtt, eitthvað sem fær mig til þess að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni. Mig hefur mikið langað til þess að ferðast um heiminn til þess að geta uppfyllt þá þörf. Það er þó ekki eina leiðin til þess, önnur leið er að vera forvitin um umhverfi sitt, þar sem maður er staddur. Vera forvitin um það sem ber fyrir augu manns, eins og börn sem eru að uppgötva heiminn í fyrsta sinn.


Ég segi ekki að ég sé tilbúin til þess að gefast upp á stóru draumunum mínum. En lífið væri kannski einfaldara ef ég setti mér fleiri smærri markmið sem auðvelt er að ná. Fara daglega í gönguferð í Elliðarárdalnum, borða þokkalega hollt. Fá mér svo einstaka sinnum sushi og hvítt. Slaka á yfir Netflix. Kynnast fleira fólki á minni bylgjulengd. Fara á kaffihús, sitja í sólinni. Ferðast um landið, prófa nýja veitingastaði. Hugleiða á hverjum degi, læra eitthvað nýtt. Kynnast sjálfri mér betur og betur. Það er lífið sem mig langar í.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page