top of page

Ljós og skuggar

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • May 14, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Undanfarið hafa karlmenn í auknum mæli stigið fram og tekið ábyrgð á sinni hegðun, sýnt vilja til þess að skoða hvort að þeir hafi sjálfir mögulega farið yfir mörk í samskiptum sínum við aðra eða jafnvel játa að það hafi þeir gert. Fleiri karlmenn en fyrr hafa jafnframt sýnt áhuga á því að kynna sér og ræða samskipti kynjanna og það ofbeldi sem á sér stað í samfélaginu.

Mér finnst áhugavert að sjá þessa þróun því það krefst mikils hugrekkis að líta í eigin barm, horfast í augu við sína eigin veikleika og möguleg mistök sem maður hefur gert. Ég hef sjálf verið í þessari vinnu síðastliðna mánuði og ár og veit því vel hversu mikið það tekur á.


Það er svo sem ekki þannig að ég hafi gert eitthvað hræðilegt af mér. Ég hef aldrei beitt aðra manneskju ofbeldi en ég er viss um að ég hafi sært fólk með hegðun minni, viljandi eða óviljandi. Það eru líka hlutir sem ég hef gert, litlir hlutir í sjálfu sér, sem ég hef engu að síður skammast mín fyrir eða óskað þess að ég gæti tekið til baka.


Ég gat ekki horfst í augu við þessa eiginleika í mínu fari eða þá hluti sem ég hef alla tíð skammast mín fyrir, fyrr en ég var búin að byggja sjálfa mig upp. Hér áður fyrr bjó ég yfir litlu sjálfstrausti og var afar gagnrýnin á sjálfa mig, en í því ástandi hefði ég aðeins notað veikleika mína eða þau mistök sem ég hef gert til þess að rífa sjálfa mig enn frekar niður.


Ef ég hefði reynt að skoða sjálfa mig svo hreinskilningslega á þessum tímapunkti hefði það aðeins orðið til þess að mér hefði liðið ennþá verr en mér leið þá þegar, því ég hefði notað þessi atvik til þess að sannfæra sjálfa mig um að full ástæða væri til þess að gera lítið úr sjálfri mér.


Þegar ég var komin á þann stað að ég vissi hvers virði ég er, gat ég í fyrsta sinn farið að horfast í augu við það að ég er mannleg. Ég var fær um að játa það fyrir sjálfri mér og sætta mig við það að ég er ekki fullkomin, að ég geri mistök, að ég hafi stundum rangt fyrir mér og get nú skoðað hvaða hlut ég á að máli þegar kemur til dæmis að erfiðum samskiptum.


Þegar ég byrjaði að skoða þá hluti í fari mínu sem ég hef ekki verið sátt við eða stolt af, sem og þau atvik eða gjörðir mínar sem ég hef skammast mín fyrir, þá áttaði ég mig á því að hvorki þessir eiginleikar í mínu fari eða þeir hlutir sem ég hafði gert voru neitt sérstaklega slæmir. Þetta voru bara hlutir sem ég hafði dæmt í mínu fari, hlutir sem ég hafði dæmt sjálfa mig fyrir að gera eða taka þátt í, sem mér fannst ekki nógu góðir.


Það er ekkert nema gott og heilbrigt við það að vera kominn á þann stað að geta séð manns eigins kosti og galla. Í þessari sjálfsvinnu hef ég fengið tækifæri til þess að fyrirgefa sjálfri mér fyrir það sem ég taldi mig hafa gert af mér, taka ábyrgð á gjörðum mínum og hegðun, en ekki síst að faðma að mér þá hluta af sjálfri mér sem ég hafði áður fordæmt.


Þetta er hluti af því ferli að vera á andlegri þroskabraut; að byrja á því að læra að þykja vænt um sjálfan sig og átta sig á öllu því jákvæða sem maður hefur fram að færa, til þess að geta síðar séð þá eiginleika í manns eigin fari sem maður vill helst ekki kannast við og afneitar í sjálfum sér. Að því loknu situr maður eftir með heila manneskju sem býr yfir bæði kostum sem og göllum; manneskjuna sem maður raunverulega er.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

コメント


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page