top of page

Nýtt ár; ný tækifæri

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jan 4, 2021
  • 3 min read

Updated: Mar 9, 2021


Ég elska tímamót og tækifærin sem þau veita mér til þess að taka stöðuna á því hvar ég er stödd og hvert ég vil stefna. Nú þegar ég stend frammi fyrir nýju ári hef ég aðeins sett mér fyrir það eitt markmið; að læra að njóta þess að vera til. Ég er búin að vera atvinnulaus í ár núna og hef því haft nægan tíma til þess að skoða líf mitt og það hvernig ég ver tíma mínum. Ég hef áttað mig á því, þegar ég horfi til baka, hversu gagnrýnin ég var á sjálfa mig þegar ég var í vinnu en mér fannst ég aldrei standa mig nógu vel einhvern veginn.


Það áhugaverða er að ég nú þegar ég er án atvinnu haga mér nákvæmlega eins, því ég gagnrýni sjálfa mig stöðugt fyrir að vera ekki nógu dugleg, til dæmis við að hreyfa mig, viðhalda góðri rútínu eða standa mig í því sem ég þó tek mér fyrir hendur. Vandamálið mitt var því greinilega ekki vinnan mín eða það hvernig ég vann hana, heldur almennt viðhorf mitt til sjálfrar mín.


Það er því ljóst að það er afar mikilvægt að ég breyti því hvernig ég hugsa. Markmiðið um að læra að njóta þess að vera til felst því kannski fyrst og fremst í því að æfa mig í að vera sáttari við sjálfa mig og þykja vænt um sjálfa mig eins og ég er. Ég get að sjálfsögðu ekki notið þess sem ég geri ef ég gagnrýni mig stanslaust fyrir það. Þetta markmið felst líka í því að vera þakklát fyrir það sem ég hef og gleðjast yfir því sem ég geri hverju sinni, sama hversu lítið það er.


Ég þarf líka að breyta hugarfari mínu gagnvart því sem ég afreka. Oft finnst mér ég það sem ég geri ekki vera neitt sérstaklega merkilegt eða einu sinni nægilega vel gert. Ég reyni að sinna því sem ég hef áhuga á og skiptir mig máli en jafnvel þegar ég vinn slíka vinnu geri ég lítið úr því. Það er kannski ekki fyrr en einhver utanaðkomandi sýnir því áhuga eða hrósar mér sem ég átta mig á að það sé kannski eitthvað virði í því sem ég hef framkvæmt.


Ég spyr mig því hvað ég geti séð í mínu fari eða við árangur minn sem ég gæti glaðst yfir? Til að byrja með setti ég þessa vefsíðu í loftið fyrir rúmu ári síðan, vegna þess að ég vildi safna þeim pistlum sem ég hef verið að birta síðastliðin tíu ár saman á einn stað. Þegar það var gert, varð ég að sjálfsögðu að halda þessari nýju síðu á lífi með nýjum pistlum en markmiðið mitt frá því í haust er að birta helst einn nýjan pistil á viku. Það hefur ekki alltaf náðst en ég geri mitt besta.


Ég er auk þess alveg ágæt í því að láta drauma mína rætast. Ég hef þannig verið au-pair erlendis, lært spænsku í málaskóla í Barcelona, stundað háskólanám hérna heima sem og erlendis. Ég hef einnig verið dugleg við að fara út fyrir minn þægindaramma, bæði með því að kafa djúpt ofan í andleg málefni og stunda nám í sjamanisma, og með því að fjalla hreinskilningslega um slík málefni sem og það sem ég hef lært og upplifað á vegferð minni frá kvíða og depurð yfir í aukna vellíðan.


Allt þetta sem ég hef gert og afrekað hafa hingað til verið hlutir sem mér fannst ekkert sérstaklega merkilegir, jafnvel hlutir sem mér hefur stundum fundist að ég ætti að skammast mín fyrir. Að ná því markmiði að geta notið þess að vera til snýst því aðallega um að ná þessari sátt við sjálfa mig. Ég þarf að æfa mig í því að sjá sjálfa mig og það sem skiptir mig máli í öðru ljósi en áður. Ég get valið að vera stolt og ánægð með sjálfa mig eins og ég er, frekar en að leita að einhverju í fari mínu til þess að gagnrýna. Ef ég næ þeim árangri, get ég séð fyrir mér hversu gaman það gæti loks verið að vera til.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page