top of page

Ólíkir hlutar sjálfrar mín

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Oct 27, 2023
  • 3 min read

Updated: Nov 10, 2023

Ég las nýlega bók sem hjálpaði mér að átta mig á ýmsu sem ég hef verið að takast á við, sem ber nafnið No Bad Parts eftir Richard Schwartz.

Í þessari bók er gengið út frá því að við séum ekki með einn huga, heldur séum gerð úr mörgum hlutum eða pörtum sem hafa ólíkar skoðanir og sjónarmið á það hvernig hlutirnir eigi að vera. Undir þessum ólíku hlutum sé engu að síður sjálfið okkar, sem breytist aldrei, en við þurfum samt að takast á við og vinna úr þessum ólíku hlutum til þess að geta verið okkar sanna sjálf dagsdaglega.


Það sem mér finnst áhugavert við þessa kenningu er að þetta útskýrir hvernig ég rökræði oft við sjálfa mig, eins og um ólíkar raddir innra með mér sé að ræða. Það getur snúist um hvernig ég eigi að takast á við aðstæður sem ég er í eða hvernig ég eigi að lifa lífinu. Mér finnst erfitt að taka ákvarðanir þegar ég virðist búa yfir ólíkum sjónarmiðum, en ég snýst gjarnan í hringi með það hvernig ég eigi að tækla málin.


Það er ruglingslegt þegar eitthvað kemur upp á og einn hluti af mér er hræddur á meðan annar hluti af mér segir að það sé ekkert að óttast. Eftir að hafa lesið bókina finnst mér gott að hugsa það þannig að þetta séu hlutar af mér sem séu ekki sammála og hafa ólík markmið; einn hluti vill kannski vernda mann, annar vill bregðast við af reiði, þriðji gagnrýnir og reynir að rífa mann niður.


Í bókinni er ráðlagt að vingast við þessa hluta, sem voru bara að reyna að aðstoða frá upphafi, og sýna þeim skilning og hlýju. Þess vegna er titill bókarinnar No Bad Parts, vegna þess að þessir hlutir eru ekki slæmir, þeir eru verndarar okkar. Í stað þess að hunsa þá eða rökræða við þá, er ráðlagt að eiga frekar við þá samræður, uppgötva hvaðan þeir eru að koma, af hverju þeim finnst það sem þeim finnst.


Þetta eru hlutar sem urðu yfirleitt til á barnsaldri og í erfiðum aðstæðum, sem reyndu að hjálpa á tíma þegar maður var of ungur til þess að hafa þroska til þess að geta hjálpað sjálfum sér. Það hvernig þeir bregðast við er hins vegar ekki lengur hjálplegt þegar maður er orðinn fullorðinn einstaklingur.


Við þurfum að koma þessum hlutum í skilning um að þeir þurfi ekki að sjá um að vernda okkur lengur. Í dag séum við fullorðinn og okkar sanna sjálf sé til staðar, og þeir geti treyst því að það sé fært um að takast á við aðstæðurnar sem koma upp. Þetta er ferli sem getur tekið tíma, en hlutarnir þurfa að treysta því að sanna sjálfið sé fullfært um að takast á við það sem kemur upp á og að þeir þurfi ekki að stýra málunum lengur.


Þetta er leið til þess að vinna með þá hluta af manni sem eru gagnrýnir, reiðir eða óttaslegnir. Það er gott að vera meðvitaður um að þeir muni láta á sér kræla þegar eitthvað triggerar þá, sem verður til þess að þeir ætla að stökkva af stað og tækla málin, en að það sé ekki lengur nauðsynlegt. Það er hægt að eiga við þá samræður um að hlutirnir hafi breyst og viðbrögð þeirra séu ekki lengur þörf.


Þetta er svipað og að vinna með innra barnið, nema í staðinn fyrir að hugsa um barnið sem einstakling, sjáum við þessa ólíku hluta sem hafa orðið til, yfirleitt á barnsaldri og unglingsárum, og lærum að vinna með hvern og einn þeirra, svokölluð partavinna. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég hef rekist á það konsept, en í fyrsta sinn sem ég tengi þessa ólíku parta við þær hugsarnir sem ég hugsa.


Þessi bók hefur hjálpað mér að skilja af hverju ég sé oft málin frá svo mörgum ólíkum sjónarmiðum og veit ekki alltaf hvað sé best að gera. Ég vil hins vegar ekki stjórnast af gömlum hlutum sem eru viðbragð við atvikum sem komu upp fyrir löngu síðan. Ég vil bregðast við sem fullorðinn heilbrigður einstaklingur, en til þess þarf ég að halda áfram að kynnast, þykja vænt um og vinna með þessa ólíku hluta sjálfrar mín.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

コメント


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page