top of page

Sannleikurinn er sagna bestur

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Feb 12, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Sannleikurinn hefur verið mér hugleikinn undanfarnar vikur.

Markmið mitt með skrifum mínum hefur alltaf verið að koma hreint fram og segja frá því sem ég hef gengið í gegnum af einlægni, enda hef ég fjallað hreinskilningslega um það að ég ólst upp við alkóhólisma, var lögð í einelti og var nú síðast sagt upp störfum fyrir ári síðan og er því án atvinnu.


Undanfarið hafa skrif mín náð til nýrra lesenda, eftir að ég fór að skrifa meira og birta þau skrif á fleiri stöðum en áður. Sumir þessara lesenda hafa hrósað mér fyrir að vera hugrökk fyrir að fjalla um þessi málefni. Mér finnst samt athyglisvert að fá hrós fyrir það að vera hugrökk, fyrir það eitt að segja satt og rétt frá staðreyndum úr mínu lífi.


Ég fór í framhaldinu að velta því fyrir mér hvers vegna það teldist til hugrekkis. Það ætti í sjálfu sér ekki að krefjast hugrekkis að vera maður sjálfur. Ég veit það vel en það breytir því ekki að ég hef reglulega þurft að draga andann djúpt áður en ég deili skrifum mínum. Ég hef haft áhyggjur af því hvað fólk myndi segja og hvernig því yrði tekið ef ég segði frá mínum hugsunum og skoðunum.


Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af áliti annarra eða óttast gagnrýni, enda erum við mannfólkið félagsverur sem höfum þörf fyrir að lifa í samfélagi við aðra. Það samfélag sem við búum í er hins vegar orðið svo náið, sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðla, að það sem við segjum og deilum með öðrum er auðvelt að gera lítið úr, nánast með einum smelli.


Það hvað fólki finnst ætti samt ekki að skipta neinu máli, svo lengi sem maður er sjálfur sáttur. Ég sé það alltaf betur og betur hvernig þessar áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mig eða það sem ég hef fram að færa, hafa raunverulega aldrei verið áhyggjur af því hvað einhverju fólki úti í bæ finnist, heldur aðeins minn eigin ótti um að ég væri ekki nægilega góð eins og ég er.


Ég tel að það hugrekki sem fólki finnst ég búa yfir komi einmitt til af því að ég vel að segja hreinskilningslega frá því sem ég hugsa og upplifi, jafnvel þó svo að líf mitt sé ekki fullkomið. Það væri nefnilega auðvelt að segja aðeins frá því sem ég er að gera þegar vel gengur, svo auðvelt að það er vel ígrunduð ákvörðun að segja frá því þegar svo er ekki.


Það ætti samt enginn að þurfa að setja upp grímu eða spila einhvern leik. Lífið gengur jú upp og ofan hjá flestum – ég hef að minnsta kosti ekki hitt eina einustu manneskju sem hefur ekki gengið í gegnum einhverja erfiðleika um ævina. Mín reynsla er sú að það sé fyrst og fremst afar frelsandi að tjá sig einlæglega um stöðu mála, jafnvel þó það sé líka erfitt.


Ég skrifa vegna þess að ég hef þörf fyrir að tjá mig. Það eina sem þarf til þess að ganga skrefinu lengra og birta þau skrif opinberlega, er að vera sátt við það hver ég er. Ég er enn að vinna í því en markmið mitt er að þykja sífellt vænna um sjálfa mig og vera fær um að deila þeirri manneskju sem ég er innst inni óhrædd með heiminum.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

コメント


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page