Sjálfsrækt: Að flysja laukinn
- Guðný Guðmundsdóttir
- Aug 7, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég hef enga trú á töfralausnum þegar kemur að sjálfsrækt. Ég lít á það sem svo að það taki langan tíma og mikla vinnu að ná einhverjum árangri þegar kemur að því að vinna úr gömlum áföllum.

Engu að síður hef ég vanist því að ég nái ákveðnum árangri endrum og eins, yfirleitt eftir að hafa gengið í gegnum erfitt tímabil, þar sem ég skil sjálfa mig og það sem er að gerast í lífi mínu betur.
Það er frábær tilfinning sem gerir alla þessa vinnu vel þess virði – næstum eins og að komast upp á næsta borð í tölvuleik – ég veit þá að minnsta kosti að ég þarf ekki að fara til baka en get þess í stað tekist á við nýjar áskoranir. Undanfarið hef ég hins vegar verið að glíma við það að mér finnst ég vera stöðugt að takast á við sömu vandamálin, vandamál sem ég hélt jafnvel að ég væri fyrir löngu búin að leysa.
Ég hef lent í þessu áður, að ég telji mig vera komna á góðan stað með sjálfa mig, aðeins til þess að reka mig á það að það tekur alltaf meiri vinna við. Mér hefur þó hingað til fundist að ég væri heilt yfir að uppgötva nýja hluti og læra meira, en síðustu vikur hafa sýnt mér fram á að það sé ekki rétt, að ég sé þvert á móti að vinna stöðugt úr sömu hlutunum aftur og aftur.
Síðustu mánuði hef ég nefnilega verið að glíma við alls konar leiðinlegar tilfinningar sem hafa komið upp á yfirborðið; ansi margar af þeim tilfinningar, hugsanir og líðan sem ég hef margoft tekist á við áður. Það væri auðvelt að fallast gjörsamlega hendur við þessar aðstæður, enda líður mér stundum eins og öll vinnan sem ég hafi unnið hingað til hafi verið til einskis.
Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að ég finn hvernig ég er ennþá að bregðast við smávægilegum atvikum eins og ég gerði þegar ég var barn, auk þess sem mér finnst stundum erfitt að eiga í nánum samskiptum við fólk almennt. Ég skammast mín síðan fyrir það, vegna þess að ég er jú fullorðin og finnst þar af leiðandi að þetta séu hlutir sem ættu ekki að hafa áhrif á mig enn þann dag í dag.
Ég þarf samt ekki að skammast mín, vegna þess að ég veit að það sem er að trufla mig eru ekki hlutir sem tilheyra lífi mínu sem fullorðinn einstaklingur, heldur þess í stað gömul sárindi frá því að ég var barn og unglingur. Svona gengur áfallavinna nefnilega fyrir sig, hún gengur út á að vinna úr því sem maður er loksins tilbúinn til þess að fá útrás fyrir. Í sjálfsrækt er einmitt talað um að flysja laukinn; að fara stöðugt meira inn á við og uppgötva hvað býr dýpra innra með manni.
Ég geng af og til í gegnum tímabil eins og þessi, þar sem ég finn að eitthvað er að angra mig en ég veit ekki hvað. Það sem hjálpar mér að komast í gegnum slík tímabil er að ég hef lært að þau eru undanfari einhvers konar mikilvægrar uppgötvunar, svo ég reyni að vera þolinmóð þangað til ég kemst að því hvað er að eiga sér stað innra með mér. Ég sé núna að lexían sem mér var ætlað að læra í þetta sinn er hversu mikið ég er ennþá að takast á við mín áföll.
Það er í sjálfu sér ekkert neikvætt við það, ég þarf bara að sætta mig við að þessi vinna sé ferli, sem mun líklega aldrei ljúka fullkomlega. Þegar mér finnst ég ekki komast neitt úr sporunum get ég alltaf valið að staldra við, líta til baka og sjá hversu langt ég er þó komin.
Ég get auk þess verið þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að heila þessar gömlu og sáru tilfinningar en það eitt og sér mun að öllum líkindum hafa jákvæðara tímabil í för með sér – og mikið hlakkar mig innilega til þess að sjá fram á þá bjartari tíma.
Comentários