Sjálfstraust og samskipti
- Guðný Guðmundsdóttir
- Oct 30, 2023
- 3 min read
Það er mikið rætt um það hér á Íslandi hversu erfitt það er að komast að hjá geðlækni eða fá tíma hjá sálfræðing.

Það er vissulega mikilvægt að bæta þá þjónustu og gera öllum það kleift fjárhagslega að fá aðstoð við geðrænum áskorunum, en ég tel engu að síður að margir séu að leita sér hjálpar með atriði sem það ætti að hafa lært í sínum uppvexti.
Mér finnst að minnsta kosti að sjálfsþekking og samskipti ættu að vera kennd frá unga aldri, helst frá því að börn byrja á leikskóla. Það yrði að sjálfsögðu að aðlaga þá kennslu að aldri barnanna, en af hverju ættum við ekki að kenna börnum á tilfinningar sína og líðan?
Af hverju ættum við ekki að þjálfa börn og unglinga í tilfinningagreind? Það væri vel hægt að kenna þeim að bera kennsl á tilfinningar sínar og fá fyrir þær heilbrigða útrás, að gera greinarmun á tilfinningum sínum og tilfinningum annarra og setja fólki mörk.
Að finna út úr því hvað þeim líkar og mislíkar, hverjar þeirra draumar og langanir eru, hverjir styrkleikar þeirra eru og hvað þeir geti bætt sig í. Þetta eru hlutir sem fólk þarf að vita til þess að að geta sagt til um það hvernig þeim líður eða hvers það þarfnast eða vill.
Sjálfstraust og samskipti skipta ótrúlega miklu máli, en hversu betur værum við undirbúin fyrir lífið, frekara nám, atvinnu, samskipti við fjölskyldu og vini, ef við hefðum lært þetta allt saman frá því að við vorum börn?
Þegar ég lít til baka yfir allt sem ég er búin að læra í minni sjálfsrækt sé ég vel hversu mikið af því ég hefði getað lært í skóla, ef þetta efni hefði verið kennt, sem hefði þýtt að ég hefði ekki þurft að leita mér aðstoðar hjá ráðgjöfum og þerapistum með tilheyrandi kostnaði og vinnu.
Í þerapíu lærði ég að takast á við tilfinningar mínar, fá útrás fyrir þær, en líka að læra að róa sjálfa mig niður þegar eitthvað kom óvænt upp á og bregðast ekki við strax við kveikjum, sem hefðu að öllum líkindum verið sterkari viðbrögð en tilefni er til.
Það hefði verið gott að læra það fyrr að tilfinningar er ekki vandamál í sjálfur sér, heldur að þær séu upplýsingar en vanlíðan getur gefið t.a.m. gefið vísbendingar um að maður sé óánægður með eitthvað eða að eitthvað í lífi manns sé ekki að virka.
Ég hefði líka viljað læra hvernig ég gæti borið mig að við að eiga erfið samtöl og læra að þola það að fólki líki ekkert endilega við mig. Að það sé mikilvægt að koma fram við aðra af kurteisi og virðingu en láta skoðanir annarra heldur ekki aftra manni frá því að lifa því lífi sem maður vill helst.
Ég hefði viljað læra það fyrr að setja sjálfa mig í fyrsta sæti í mínu eigin lífi. Að vita hvernig heilbrigð samskipti líta út, svo ég hefði t.d. ekki varið jafn miklum tíma í að mistúlka líkamstjáningu annarra og taka líðan annarra inn á mig, frekar en að spyrja fólk frekar hvað því finndist eða hvernig því liði.
Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það sem væri hægt að leiðbeina ungu fólki með. Við þjálfumst auðvitað í þessu með því að eiga í samskiptum við okkar nánustu og fólkið sem við umgöngumst á vinnustöðum eða í hópastarfi, en það væri örugglega auðveldara ef við hefðum öll ákveðinn grunn á bak við okkur og mögulega betri tól og tæki til þess að eiga í samskiptum við hvert annað.
Ef við fengum kennslu í að kynnast okkur sjálfum og takast á við vandamál sem flest okkar stöndum frammi fyrir á einhverjum tímapunkti, þá gætu sálfræðingar og geðlæknar betur nýst við að aðstoða þá sem þarfnast frekari hjálpar, þá sem búa við erfiðar aðstæður eða hafa gengið í gegnum áföll, en ekki til þess að leiðbeina fólki í gegnum daglegt líf og áskoranir.
Comments