top of page

Sjálfsumhyggja: Að sýna sjálfum sér mildi og kærleika

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Dec 30, 2024
  • 3 min read

Updated: Jan 3

Nú hef ég starfað sem verkefnastjóri í Bataskóla Íslands í rúmt eitt ár og setið flest námskeiðin sem þar eru í boði sem fjalla öll um geðheilsu og bata á einhvern hátt.

Ég hef einnig tekið þátt í kennslunni í undantekningartilvikum, en í haust kenndi ég t.a.m. námskeiðið Sjálfsumhyggja með þeim Helgu Arnardóttur og Esther Ágústsdóttur, en þess má geta að námskeiðin í Bataskólanum eru samin og kennd af notendum og sérfræðingum saman, sem tryggir að raddir beggja heyrast.


Mig langar að koma aðeins inn á þetta umfjöllunarefni vegna þess að ég tel að við höfum öll gott af því að kynna okkur hvað sjálfsumhyggja felur í sér. Á þessu námskeiði fræðast nemendur um núvitund og sjálfsumhyggju og um kosti þess að rækta þessa eiginleika með sér. Í hverjum tíma eru einnig gerðar stuttar núvitundaræfingar sem hjálpa nemendum að auka færni sína í að hugleiða og rækta með sér núvitund og sjálfsumhyggju.


Sjálfsumhyggja byggir á núvitund, góðvild og því sem okkur er sammannlegt. Núvitund og hugleiðsla aðstoða mann við að veita tilfinningum sínum athygli, góðvild felur í sér að sýna sjálfum sér skilning og mildi, alveg eins og maður gerir fyrir aðra, auk þess sem það getur verið hjálplegt að átta sig á því að við séum ekki ein á báti hvað líðan okkar varðar.

 

Ein af æfingunum sem er kynnt í námskeiðinu er svokölluð Metta meditation, sem kemur úr búddisma, en hún er einnig kölluð loving-kindness meditation og gengur út á að rækta kærleika, samkennd og vellíðan gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hún felur í sér að endurtaka jákvæðar staðhæfingar líkt og:


·         Megi ég vera friðsamur. Megi allar verur vera friðsælar.

·         Má ég vera glaður. Megi allar verur vera hamingjusamar.

·         Má ég vera öruggur. Megi allar verur vera öruggar.

·         Má ég vera frjáls. Megi allar verur vera frjálsar.


Æfinging gengur jafnframt út á að beina þessum orðum til sjálfrar sín, til fólks sem manni þykir vænt og jafnvel til fólks sem manni líkar ekki við. Það er áhugavert að gera þessa æfingu og sjá hvernig manni gengur. Margir eiga t.d. auðvelt með að hugsa fallega til fólks sem þeim þykir vænt um en eiga erfitt með að hugsa þannig til sjálfrar sín.


Það er skrýtið hvað það getur verið erfitt að sýna sjálfum sér hlýju og kærleika – það er eins og það sé ekki vaninn, en ætti það ekki einmitt að vera fullkomlega eðlilegt fyrirbæri?


Ef það er erfitt, þá er hægt að æfa sig með því að sýna sjálfum sér mildi á erfiðum stundum eða þegar maður hefur gert einhver mistök. Þá getur maður spurt sjálfan sig; “hvað myndi ég gera ef þetta væri vinkona mín eða vinur að ganga í gegnum þetta – hvernig myndi ég tala við hann eða hana?” Líklega myndi ég segja viðkomandi að það sé allt í lagi, að allir geti gert mistök.


Að lokin vil ég benda á námskeiðin í Bataskólanum, en við erum einmitt að taka á móti umsóknum fyrir önnina sem er að hefjast. Ef fólk vill iðka slökun og sjálfsumhyggju bendi ég á æfingar hjá Núvitundarsetrinu og á andlegheilsa.is, sem hún Helga heldur úti, en hún uppfærði einnig nýlega HappApp smáforritið í samstarfi við Embætti landlæknis, sem byggir á vísindum jákvæðrar sálfræði og stuðlar að geðrækt með því að bjóða upp á gagnreyndar æfingar til að auka andlega vellíðan og efla geðheilsu notenda.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page