Taktu pláss í tilverunni
- Guðný Guðmundsdóttir

- Oct 11, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Um daginn hélt ég minn fyrsta fyrirlestur yfir netið um það sem ég hef lært af mínu sjálfsræktarferðalagi síðastliðin tíu ár. Ég sagði hreinskilningslega frá mínum persónulegu upplifunum; því hvernig ég leitaði upprunalega til sálfræðings og ræddi við heimilislækni en fann ekki það sem ég var að leitast eftir í heilbrigðiskerfinu.

Það var ekki fyrr en ég fór til manns sem vinkonur mínar höfðu mælt með, sem starfar sem sálmeðferðarfræðingur, og byrjaði að fara í heilun hjá Brennan heilara sem þetta ferðalag mitt hófst af einhverju viti. Það var hjá þessum aðilum sem ég lærði að ég var uppfull af sorg og reiði, tilfinningum sem ég fann ekki fyrir þar sem ég var búin að ýta þeim kirfilega niður, og að það væri eðlilegt að eiga erfitt eftir að hafa alist upp við drykkju og verið lögð í einelti.
Frá því að ég hóf sjálfsvinnu mína hef ég lært ótrúlega margt. Ég lærði að ég þurfti að vinna í sjálfri mér á líkama, huga og sál, því það er ekki nóg að vinna úr áföllum með viðtalsmeðferð, heldur þurfti ég einnig að læra að hleypa þessum tilfinningum mínum, sem ég geymdi í líkama mínum, upp á yfirborðið og fá fyrir þær heilbrigða útrás. Nú, tíu árum síðar, er ég ennþá að vinna í gömlum tilfinningum og sárum minningum, aðeins á dýpra leveli en fyrr.
Engu að síður er ég orðin mun friðsælli en ég var hér áður fyrr. Dagsdaglega myndi ég segja að það sé eins og ég sé í „neutral“ gír, mér líður kannski ekki frábærlega en mér líður heldur ekki illa. Ég hef lært að bregðast ekki við um leið og eitthvað kemur fyrir sem gæti raskað ró minni – einhverjar utanaðkomandi aðstæður eða eitthvað sem sagt er við mig – sem myndi vanalega ýfa upp gömul sár.
Þegar ég bregst ekki strax við, heldur leyfi mér að skoða hvað er í gangi, líður það yfirleitt fljótlega hjá án þess að ég taki það verulega inn á mig eða út á einhverjum öðrum. Þetta er afleiðing þess að vera forvitin, skoða hvað sé að eiga sér stað, sem ég er fær um að gera þar sem ég er búin að þjálfa mig upp í því, til að mynda með daglegri hugleiðslu.
Ég hef verið opin fyrir því að prófa allt sem gæti mögulega hjálpað mér á þessari vegferð; viðtalsmeðferð, heilun, höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð, bowen meðferð, dáleiðslu, hugleiðsluhópa, Dale Carnegie námskeið og markþjálfun, svo dæmis séu tekin. Allt eru þetta hlutir sem hafa aðstoðað mig, ekki aðeins við að læra meira um sjálfa mig, heldur einnig að skilja betur fólkið í kringum mig og hvað sé hægt að gera til þess að eiga í betri samskiptum við sjálfa mig, sem og aðra.
Það er ekki auðvelt að líta inn á við og taka ábyrgð á manns eigin hegðun og líðan. Það er ótrúlega margt sem hægt er að gera til þess að forðast það og margar afsakanir, líkt og að maður hafi nú í sjálfu sér ekki svo slæmt eða þetta sé ekki rétti tíminn. Að sjálfsögðu eru margir í aðstæðum sem búa ekki upp á sjálfsrækt; til dæmis fólk sem býr við fátækt, er í miðju áfalli eða glímir við líkamlegar eða geðrænar áskoranir. Til þess að geta unnið í sjálfum sér þarf grunnþörfum fólks að vera mætt og ákveðið öryggi að vera til staðar.
Þegar fólk hefur hins vegar tækifæri til þess að rækta sjálft sig er til mikils að vinna. Það er jú enda talað um að „sært fólk, særir fólk“ – það er gjarnan svo að þeir sem eiga erfitt og líður illa, taka það út á fólkinu í kringum sig, jafnvel án þess að átta sig á því. Að vinna í sjálfum sér snýst því ekki aðeins um einn einstakling, heldur heilar fjölskyldur og samfélagið í heild sinni. Í andlegum fræðum er talað um að það eina sem geti breytt heiminum sé að einstaklingar byrji á því að breyta sjálfum sér.
Ég var lengi búin að ganga með þá hugmynd í maganum að halda fyrirlestur um þetta efni og deila því sem ég hef lært. Ástæðan fyrir því að ég tók loksins af skarið er vegna þess að mér fannst ég vera komin á þann stað að ég þyrði að tjá skoðanir mínar og upplifanir í persónu. Það er fyrst og fremst það sem ég hef grætt á þessari vinnu, að þykja nægilega vænt um sjálfa mig til þess að geta komið fram sem ég sjálf, án ótta við gagnrýni og skoðanir annarra, og leyfa mér að taka mitt pláss í tilverunni.



Comments