top of page

The Five Personality Patterns (Characterology)

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Mar 3, 2020
  • 4 min read

Updated: Mar 2, 2021


Stjörnubjartur himinn

Hefur þú velt því fyrir þér af hverju þú bregðst við erfiðum aðstæðum á ákveðinn hátt, eða átt jafnvel erfitt með að eiga í samskiptum við ákveðna einstaklinga? Það sem höfðar mest til mín við sjaman-námið sem ég stunda er að það snýst fyrst og fremst um að vinna mikla sjálfsvinnu, enda er ekki hægt að vera til staðar eða heila aðra nema vera sjálfur í lagi. Nú þegar ég er komin á annað ár í náminu hef ég betra yfirlit yfir þá vinnu sem við unnum á fyrsta árinu, en hún snérist aðallega um það að heila gömul sár úr barnæsku, sem útskýra að mörgu leyti hvernig maður hegðar sér í erfiðum aðstæðum þegar á á fullorðinsaldur er komið.


Fræðin sem við vorum að læra í náminu á síðasta ári kallast á ensku Characterology eða Character Structures en þau snúast um mynstrin sem börn og unglingar koma sér upp þegar þau fá ekki þörfum sínum uppfyllt. Það ganga allir í gegnum sama þroskaferlið en hvort sem börn eiga góða æsku eða búa við erfiðar aðstæður, þá fá þau fæst öllum sínum þörfum fyrir nánd og umhyggju uppfyllt. Þegar eitthvað vantar upp á eða er jafnvel mjög erfitt, þá aðlagast börn aðstæðum sínum og koma sér upp ákveðinni strategíu til þess að glíma við erfiðleika eða vanlíðan.


Þessi strategía eða mynstur eru fimm (Schizoid, Masochistic, Psychopathic, Oral og Rigid) en flestar manneskjur nýta sér eitt til tvennt þeirra. Til þess að skilja þessi mynstur betur þá mælti heilarinn minn með bókinni The Five Personality Patterns frá Steven Kessler en hann notar önnur og þægilegri hugtök yfir mynstrin, sem hann útskýrir mjög vel í bókinni. Á vefsíðunni hans hefur hann einnig sett inn einfaldar upplýsingar um mynstrin, til þess að auðvelda fólki að finna út úr því hvaða mynstur það nýtir sér.


Þýdd frá vefnum hans eru mynstrin eftirfarandi:


1. Þú vilt yfirgefa aðstæðurnar. Athygli þín og orka færist fjær því sem er að angra þig. Þú upplifir hræðslu. Þú hugsar „ég verð að fara héðan“. Þú annað hvort gengur í burtu líkamlega eða þú yfirgefur líkama þinn andlega til þess að komast í burtu.


2. Þú vilt tengjast öðrum. Þú heldur að þau séu svarið við vandamáli þínu. Athygli þín og orka færist nær þeim. Þú ert góð við þau svo að þeim líki við þig og hjálpi þér. Þú samþykkir, róar þau eða hrósar þeim. Þú reynir að gefa þeim það sem þau þarfnast, jafnvel þó að það sé ekki það sem þú þarfnast.


3. Þú vilt fela þig. Athygli þín og orka togast inn og niður á við til þess að hjálpa þér að fela þig, eða að minnsta kosti til þess að grúfa þig niður og þola það sem er að koma. Á yfirborðinu gætirðu verið samsinna því sem aðrir segja, en innra með þér hugsarðu, „þú getur ekki neytt mig til þess“. Innra með þér fer allt að verða þungt og fast fyrir. Þú tekur ekki af skarið, þú heldur bara út.


4. Þú vilt slást. Athygli þín og orka fer upp og út til þess að ýta við því sem er að angra þig. Þú gerir sjálfan þig stærri og meiri, þú hræðir fólk eða verður jafnvel reiður til þess að neyða þau til þess að fara að þínum vilja. Á hinn bóginn geturðu orðið afar sjarmerandi, en markmið þitt er engu að síður að stjórna þeim og ráða yfir þeim. Þú tekur meira pláss og verður árásargjarnari.


5. Þú vilt gera hlutina á réttan hátt. Athygli þín og orka fara í það að framkvæma hlutina rétt. Brjóstkassi þinn og magasvæði stífna upp, til þess að stöðva lífsorkuna og tilfinningar frá því að flæða í gegnum þig. Þú stífnar upp og finnst þú vera fastur. Þú upplifir kvíða. Þú fókusar á frammistöðu þína og á að allt sé eins og það eigi að vera.



Steven Kessler tekur sérstaklega fram á vefnum að þessi mynstur eru ekki persónuleiki manns – þau eru aðeins strategíur til þess að fólk upplifi sig öruggt í óþægilegum og krefjandi aðstæðum. Þessar strategíur hafa hins vegar áhrif á daglegt líf fólks, því þau koma til sögunnar í hvert skipti sem eitthvað óvænt eða óþægilegt gerist, eða þegar manneskja þarf að glíma við einstaklinga sem hún á í erfiðleikum með að eiga í samskiptum við.


Persónulega er ég búin að átta mig á því að af þessum fimm mynstrum nota ég yfirleitt það fyrsta en jafnframt það fimmta; ég vil allra helst yfirgefa erfiðar aðstæður eða einstaklinga við fyrsta tækifæri, en ég get að sama skapi stífnað upp og það er mér mjög mikilvægt að vera góð og hlýðin stelpa og gera alltaf það sem er „rétt“ í hverjum aðstæðum.


Þessi fræði hafa líka hjálpað mér að skilja af hverju ég á sérstaklega erfitt með að eiga í samskiptum við fólk sem er mjög ákveðið og jafnvel árásargjarnt, því það notar mynstur sem er eins ólíkt mínu og hægt er að vera (og það á að sama skapi erfitt með að skilja af hverju ég svara ekki fyrir mig og mínar skoðanir eða segi jafnvel ekki neitt).


Þessi mynstur voru nauðsynleg fyrir börn sem höfðu enga aðra leið til þess að verja sig, en þegar fólk vex upp og verður fullorðið, valda þessar strategíur þeim oft meiri skaða en þau koma því til hjálpar. Það er því til mikils að vinna að skoða þessi mynstur, heila gömul sár og læra ný og betri samskiptamynstur, til þess að geta átt í heilbrigðari samskiptum við okkur sjálf sem aðra og vera þau sem okkur var alltaf ætlað að verða.




Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comentários


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page