top of page

Þessi fallegi dagur

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jan 28, 2021
  • 3 min read

Updated: Mar 9, 2021


Ég var vön því að það þyrmdi yfir mig hvern morgun þegar ég vaknaði; það er að segja um leið og ég var komin til nægilega mikillar meðvitundar til þess að átta mig á því að nýr dagur væri tekinn við. Ég fylltist umsvifalaust af áhyggjum og kvíða við tilhugsunina um að þurfa að fara fram úr, mæta til skóla eða vinnu, eiga í samskiptum við fólk, takast á við verkefni hversdagsins.


Það er hins vegar allt annað og betra að vakna á morgnana nú til dags. Ég er reyndar ekki mikil morgunmanneskja, finnst alls ekki þægilegt að fara fram úr rúminu að vetri til í myrkri og kulda, auk þess sem það tekur mig alltaf tíma að vakna almennilega, sama hvort ég sé ósofin eða úthvíld, það er að segja þegar vekjaraklukkan neyðir mig ekki fram úr samstundis.


Það sem hefur breyst er að mig kvíðir ekki lengur fyrir deginum. Það skiptir ekki máli þó að ég eigi erfiðan dag, dag þar sem ég er lasin eða illa fyrirkölluð, eða einfaldlega upptekin og stressuð, því þó ég eigi slíkan dag þá tekst ég einfaldlega á við það. Ég fæ mér kaffibolla eða sætti mig við að þetta verði dagur sem taki meira á en aðrir dagar.


Ég hef nægt sjálfsöryggi til þess að takast á við þau vandamál sem munu mögulega koma upp í dagsins önn, ólíkt því sem áður var. Líf mitt gengur ekki lengur út á að komast í gegnum daginn, enda upplifi ég ekki lengur stöðuga vanlíðan, depurð, kvíða eða áhyggjur. Ég veit að dagurinn minn þarf ekki að vera fullkominn til þess að líf mitt sé í lagi, enda gengur það jú upp og ofan.


Ég á ennþá daga þar sem ég er illa stemmd en ég veit að það mun jafna sig ef ég gef mér aðeins tíma til þess að hlaða batteríin. Ég hef líka lært það um sjálfa mig að ég verð voðalega niðurdregin, geðvond jafnvel, nokkrum klukkustundum áður en ég finn fyrir því líkamlega að ég sé orðin lasin.


Þá daga sem ég er veik eða á eitthvað erfitt, gef ég sjálfri mér leyfi til þess að vera aum, vorkenna sjálfri mér fyrir að líða ekki nógu vel, og liggja í rúminu og glápa á sjónvarpið í friði. Ég veit að þetta ástand líður hjá og að ég geti ekki tekið of mikið mark á neikvæðum hugsunum og viðhorfum sem plaga mig í veikindunum.


Ég á hins vegar sífellt fleiri og fleiri góða daga, daga þar sem ég er spennt fyrir því sem ég tek mér fyrir hendur; þar sem ég sinni verkefnum mínum eða áhugamálum, fer í í ræktina eða umgengst vini og ættingja (í persónu eða yfir netið). Ég hef lært að það er mögulegt fyrir mig að vakna á morgnana, úthvíld og klár í slaginn, tilbúin til þess að takast á við verkefni dagsins.


Það áhugaverða er að það hefur tekið mig tíma að aðlagast því að eiga svona góða daga, að venjast því að líf mitt sé orðið ansi gott. Það krefst nefnilega einhvern veginn alveg jafn mikils af manni að aðlagast því að líf manns breytist til hins betra, eins og til hins verra. Ég er því enn að átta mig á því í hverju það felst að lifa góðu lífi eða eiga góðan dag.


Það sem ég hef tekið eftir er að ég er almennt í meira jafnvægi. Ég hef meiri stjórn á því hvernig mér líður, enda vel ég að gera minna af því sem dregur mig niður og ver ekki dögunum í að óttast einhvers konar áföll eða erfiðleika sem verða líklega aldrei að veruleika.


Ég geri meira af því sem veitir mér gleði, umgengst meira af fólki sem ég á margt sameiginlegt með og hef gaman af því að spjalla við. Ég horfi meira í kringum mig og tek í fyrsta sinn almennilega eftir öllum þeim tækifærum og möguleikum sem standa mér til boða. Ég hef gott og gaman af því að vera til.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page