top of page

Þjálfun í jafningjastuðningi

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Sep 13, 2023
  • 3 min read

Updated: Sep 29, 2023

Í lok ágúst sat ég fimm daga námskeið sem var skipulagt af Traustum kjarna með erlendri forskrift frá „Intentional Peer Support“ (IPS) þar sem iðkendur læra að nota sambönd til að sjá hlutina frá nýjum sjónarhornum og prófa nýjar aðferðir í samskiptum.

Jafningjastuðningur er ákveðin aðferð eða tækni til samskipta, stunduð víða um heim með góðum árangri. Aðferðin gengur meðal annars út á að einstaklingur sem hlotið hefur þjálfun nýtir bæði þjálfunina og sína eigin reynslu af geðrænum áskorunum til þess að vera til staðar fyrir þá sem leita eftir jafningjastuðningi.


Ég er áhugasöm um jafningjastuðning í geðheilbrigðismálum en það er orðið meira um að jafningjar séu að starfa inni á spítölum og í geðheilbrigðismálum almennt. Ég komst að því að þetta námskeið er hollt fyrir hvern sem er að taka, þar sem það gengur fyrst og fremst út á samskipti og hvað felst í því að fólk veiti hvert öðru stuðning á jafningjagrundvelli.


Námskeiðið gekk út á fræðslu og æfingar í því að eiga samtöl sem ganga út á að hlusta á fólk í stað þess að gefa því ráð. Að reyna ekki að bjarga manneskju sem er að ganga í gegnum erfiðleika, heldur að vera til staðar. Að sýna fólki skilning og reyna að skilja aðstæður þess, frekar en að dæma, og komast að því hvað viðkomandi þarfnast eða vill fyrir sjálfan sig.


Þetta námskeið var mun meira heilandi upplifun en ég bjóst við. Síðasta morguninn áttum við að segja frá því í stuttu máli hvað við hefðum lært af því en ég klökknaði þegar það var komið að mér að segja frá. Rétt áður en ég stóð upp til þess að tala um mína reynslu áttaði ég mig nefnilega á því að það er undir mér komið að finna fólk sem ég hef gaman af að ræða við og samfélög þar sem mér finnst ég tilheyra.


Mér finnst ég hafa eytt svo mikið af tíma mínum við að berja höfðinu við stein, að reyna að fá fólk til þess að sjá mig og heyra sem hefur kannski ekki áhuga á því að eiga í þess konar samræðum sem ég vil gjarnan eiga við fólk. Þetta voru ákveðin kaflaskil fyrir mig, að átta mig á því að ég þarf að finna hvar ég á heima og hvar mér getur liðið vel.


Ástæðan fyrir þessari uppgötvun var reynsla mín af því að vera þarna í fimm daga með fólki af ólíkum bakgrunni sem var tilbúið að hlusta og ræða ólík sjónarmið. Á námskeiðinu var einmitt rætt um heimssýn, það hvernig fólk getur séð hlutina út frá mismunandi sjónarhornum byggt á viðhorfum sínum og reynslu, en þess vegna sé svo mikilvægt að gera sér grein fyrir því að samræður þurfa ekki að snúast um að eitthvað sé rétt eða rangt.


Það var einnig verið að ræða hvernig hægt sé að sitja með annarri manneskju og takast á við tilfinningar hennar, sama hvort um sé að ræða vanlíðan eða jafnvel vellíðan, svo að fólk finni að það sé í lagi að sýna viðkvæmni, að það geti sagt frá því að það sé jafnvel að ganga í gegnum einhverja erfiðleika án þess að upplifa að fólkið í kring sé ekki fært um að takast á við það og að það verði til þess að því verði hafnað fyrir að viðurkenna líðan sína.


Það var svo gott að vera í öryggu rými og finna að það væri í lagi að tjá sig, að fólk væri ekki endilega sammála en bæri virðingu fyrir skoðunum annarra, sem væri til í að hlusta og viðurkenna upplifanir manns og líðan. Það var heilandi að finna að það hvernig manni líður sé í lagi og að fólk hafi áhuga á því sem maður hafi frá að segja.


Það er stundum sagt að planta geti ekki blómstrað í röngum aðstæðum en það sama á við um okkur mannfólkið. Á þessu námskeiði voru engar greiningar eða merkimiðar, heldur aðeins manneskjur. Mér fannst ég vera metin að verðleikum og viðurkennd fyrir manneskjuna sem ég er. Það er svo mikilvægt að finna rétta fólkið og staðinn sem maður á heima.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.


Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page